Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi
  • Takmörkuð afnot bifreiðar

Úrskurður nr. 419/1997

Gjaldár 1991–1994

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul.  

Deilt um ákvörðun bifreiðahlunninda kæranda vegna afnota af bifreið í eigu vinnuveitanda. Krafðist kærandi þess að við ákvörðun hlunnindanna yrði miðað við takmörkuð afnot vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar. Yfirskattanefnd féllst á þá kröfu og vísaði m.a. til fram kominna skýringa um slæmt ástand umræddrar bifreiðar sem ekki væru efni til að vefengja.

I.

Kærð er endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárin 1991, 1992, 1993 og 1994 vegna þeirra breytinga skattstjóra á skattframtölum kæranda að ákvarða kæranda 610.000 kr. í bifreiðahlunnindi á skattframtali 1991, 643.350 kr. á skattframtali 1992, 685.950 kr. á skattframtali 1993 og 749.250 kr. á skattframtali 1994.

Málavextir eru þeir að skattstjóri krafði kæranda í bréfi, dags. 16. maí 1995, um skýringar á eigin afnotum árin 1992 og 1993 af bifreiðinni A sem var í eigu launagreiðanda hans, X hf. Í bréfi, dags. 30. maí 1995, kvaðst kærandi nota umrædda bifreið eingöngu í þágu félagsins og gerði nánari grein fyrir helstu akstursþörfum. Kvað hann bifreiðina vera geymda við heimili sitt þar sem vinnudegi sínum ljúki oft á öðrum stöðum en vinnustað og svaraði ekki kostnaði að aka bifreiðinni á starfsstöð, en auk þess væri ótryggt að skilja bifreiðar eftir við starfsstöðina sökum hættu á skemmdum.

Í bréfi, dags. 1. júní 1995, kvað skattstjóri kæranda einnig hafa haft sömu bifreið til umráða á árunum 1990 og 1991, samkvæmt upplýsingum frá launagreiðanda. Engra hlunninda væri getið á skattframtölum kæranda 1991 og 1992 og óskaði skattstjóri skýringa um hvort afnot kæranda af bifreiðinni hefðu verið með sama hætti og árin 1992 og 1993.

Kærandi staðfesti að svo hefði verið í bréfi, dags. 21. júní 1995.

Með bréfi, dags. 28. júní 1995, boðaði skattstjóri hinar kærðu breytingar á skattframtölum kæranda umrædd ár. Kvað hann ekkert hafa komið fram af hálfu kæranda um hver setti honum takmörk um afnot af bifreiðinni sem staðsett væri við heimili hans að afloknum vinnudegi. Yrði ekki annað séð en kærandi gæti haft bifreiðina til fullra afnota og skipti engu máli í því sambandi hvort hann ætti sjálfur bifreið.

Umboðsmaður kæranda mótmælti boðuðum breytingum skattstjóra í bréfi, dags. 7. júlí 1995. Kvað hann kæranda nota bifreiðina eingöngu sem starfsmaður X hf. og í tengslum við starf sitt. Einu einkanot kæranda væru þau að hann hefði heimild til að aka bifreiðinni milli heimilis og vinnustaðar gegn þeirri kvöð að hafa umsjón með bifreiðinni og sjá um þrif á henni. Með bréfinu fylgdi staðfesting þess efnis undirrituð af stjórnarmönnum í X hf.

Með bréfi, dags. 27. nóvember 1995, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði hrundið í framkvæmd boðuðum breytingum og endurákvarðað opinber gjöld hans gjaldárin 1991, 1992, 1993 og 1994 í samræmi við það. Kvað skattstjóri afnot þau sem fælust í akstri á bifreiðinni milli heimilis og vinnustaðar kæranda umrædd ár teljast til skattskyldra hlunninda samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Svo væri einnig um önnur eigin afnot bifreiðarinnar. Þá vísaði skattstjóri til ákvæða í matsreglum ríkisskattstjóra um að takmörkuð afnot væru eingöngu akstur milli heimilis og vinnustaðar og tilfallandi og einstök afnot. Væri um frekari afnot að ræða teldist launamaður hafa full umráð bifreiðarinnar. Gögn um takmörkuð afnot skyldu vera greinilega færð og aðgengileg skattyfirvöldum hvort sem væri í bókhaldi launagreiðanda eða hjá launamanni. Kvað skattstjóri ekkert hafa komið fram af hálfu kæranda um hvernig afnotatakmörkunum hafi verið fylgt eftir. Í ljósi framkominna gagna, eignaraðildar og stöðu kæranda hjá launagreiðanda, þætti ljóst að kæranda hafi verið í sjálfsvald sett að ákveða einkanot sín af bifreiðinni að loknum vinnudegi og um helgar. Væru kæranda því reiknuð bifreiðahlunnindi miðað við full og ótakmörkuð afnot.

Umboðsmaður kæranda mótmælti breytingum skattstjóra í kæru, dags. 12. desember 1995. Kvað hann X hf. vera verktakafyrirtæki og næði starfsemi þess um allt land. Áréttaði hann skýringar um notkun kæranda af bifreiðinni. Kvað umboðsmaðurinn óeðlilegt að reikna kæranda full einkanot af bifreiðinni og kvað takmörkuð afnot hans hafa numið sem svaraði akstri milli heimilis og vinnustaðar 13,4 km í 260 daga eða 3.484 km á ári. Með kærunni fylgdi yfirlýsing verkstæðisformanns X hf. Kvað hann samkvæmt sinni bestu vitund bifreiðina eingöngu vera notaða í þágu rekstrar félagsins og í akstur milli heimilis og vinnustaðar kæranda. Kvað hann bifreiðina ekki geta talist fjölskyldubifreið. Síðan bifreiðin hafi verið keypt notuð hafi hún haft þann galla að á 80 til 90 km hraða myndaðist mikill titringur í bifreiðinni og vegna mikils kostnaðar við lagfæringu hafi dregist að panta í hana varahluti sem kæmu í veg fyrir þennan galla. Þá kvað hann bifreiðina vera svo leka í rigningu vegna ryðmyndunar að skófatnaður og annar fatnaður bifreiðastjóra og farþega blotni mjög auðveldlega. Þá væri bifreiðin notuð undir verkfæri og ýmis óhrein áhöld sem leiði til þess að áklæði bifreiðarinnar séu mjög óhrein og því ekki bjóðandi öðrum en þeim sem klæddir væru sérstökum vinnufatnaði.

Skattstjóri staðfesti ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 26. febrúar 1996. Kvað hann ekkert hafa komið fram af hálfu kæranda sem haggaði þeirri forsendu skattstjóra að kæranda væri í raun í sjálfsvald sett að ákveða einkaafnot af bifreiðinni. Óumdeilt væri að kærandi hefði verið í aðstöðu til að nota bifreiðina í eigin þágu. Væri því engin afstaða tekin til fullyrðinga kæranda og launagreiðanda um að hann hefði engin einkanot haft af bifreiðinni og ekki væri unnt að fallast á að fram komnar upplýsingar um ástand bifreiðarinnar skiptu máli varðandi niðurstöðu í málinu, enda væri ekki séð að tilgreindir gallar á bifreiðinni væru það stórvægilegir að kæranda væri ekki unnt að hafa umtalsverð not af bifreiðinni utan vinnutíma.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 22. mars 1996. Er gerð krafa um að bifreiðahlunnindi verði miðuð við takmörkuð afnot vegna 3.484 km aksturs milli heimilis og vinnustaðar kæranda. Kveður umboðsmaðurinn ljóst að tekjuviðbót skattstjóra sé í engu samræmi við þau hlunnindi sem kærandi hafi haft af viðkomandi bifreið, enda nemi hin kærða tekjuhækkun hærri fjárhæðum en árlegum rekstrarkostnaði bifreiðarinnar auk þess sem söluverð bifreiðarinnar sé töluvert lægra en kostnaðarverð samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 8. nóvember 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans."

II.

Kærandi og stjórn X hf. hafa staðfastlega haldið því fram að kærandi hafi einungis notað bifreiðina í eigin þágu til aksturs milli heimilis og vinnustaðar. Þá hefur verið lögð fram yfirlýsing verkstæðisformanns X hf, þar sem meðal annars er greint frá ástandi bifreiðarinnar. Forsendur skattstjóra fyrir breytingunum eru meðal annars þær að kærandi hafi vegna stöðu sinnar hjá X hf. og eignaraðildar að félaginu verið í aðstöðu til að ákvarða um notkun bifreiðarinnar í eigin þágu, ekkert hafi komið fram af hálfu kæranda um hvernig afnotatakmörkunum hafi verið fylgt eftir og upplýsingar um ástand bifreiðarinnar skiptu ekki máli, enda yrði ekki séð að gallar á bifreiðinni væru svo stórvægilegir að kæranda væri ekki unnt að hafa umtalsverð not af bifreiðinni utan vinnutíma. Ekki þykja efni til að vefengja yfirlýsingu verkstæðisformannsins um ástand bifreiðarinnar og þykir að virtum þeim skýringum mega byggja á því að hér sé fyrst og fremst um vinnubifreið að ræða sem notuð sé í þágu félagsins. Þar sem ekki hafa komið fram athugasemdir af hálfu skattstjóra um vegalengd milli heimilis og vinnustaðar kæranda er fallist á kröfu kæranda um skattlagningu bifreiðahlunninda miðað við takmörkuð afnot af bifreiðinni sem nemi 3.484 km á ári.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja