Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 155/1992
Gjaldár 1991
Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður — 91. gr. 1. mgr. — 100. gr. 5. mgr. Lög nr. 79/1989 — 1. gr.
Íbúðarhúsnæði — Íbúðarhúsnæði, öflun — Öflun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtabætur — Greinargerð um vaxtagjöld — Greinargerð um vaxtagjöld, ófullnægjandi — Fylgigögn skattframtals — Skattframtal, vefenging — Byggingarsjóður ríkisins — Yfirtaka lána — Verðbætur — Verðbætur, uppsafnaðar og áfallnar á íbúðarlán við sölu — Áfallnar verðbætur — Verðbætur, áfallnar — Íbúðarlán, yfirtekin af kaupanda íbúðar — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Lögmætisreglan
Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að synja kærendum um vaxtagjöld til frádráttar að hluta, er leiddi til þess, að kærendur fengu ekki vaxtabætur gjaldárið 1991. Byggði skattstjóri á því, að greinargerð um vaxtagjöld til frádráttar, RSK 3.09, væri ófullnægjandi, þar sem upplýsingar um lánaflokka vantaði svo og veðrétti að hluta, lántökuár, lánstíma og vaxtaprósentu. Einnig bæri ekki saman upplýsingum í RSK 3.09 og í greinargerð um kaup og sölu eigna varðandi yfirtekin lán.
Kæruúrskurði skattstjóra, dags. 21. október 1991, hafa kærendur skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 31. október 1991, og fylgdi kærunni leiðrétt greinargerð um vaxtagjöld til frádráttar (RSK 3.09). Er fjárhæð vaxtagjalda vegna íbúðarkaupa þar tilgreind 187.427 kr. og er þess krafist, að vaxtabætur verði ákveðnar á grundvelli þessarar fjárhæðar.
Með bréfi, dags. 23. janúar 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kæranda.“
Samkvæmt framtalsgögnum hafa kærendur yfirtekið skuldir við Byggingarsjóð ríkisins við kaup á íbúðarhúsnæði. Voru skuldir þessar uppreiknaðar með áföllnum verðbótum við yfirtökuna. Færsla vaxtagjalda af lánum þessum af hendi kærenda er ekki í samræmi við þetta. Þegar af þessari ástæðu þykir verða að vísa kærunni frá þrátt fyrir kröfugerð ríkisskattstjóra.