Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 590/1984

Gjaldár 1982

Reglugerð 81/1962, 8. gr. 2. mgr.   Lög nr. 73/1980, 40. gr. 1. mgr  

Aðstöðugjaldsskyld starfsemi — Skattlagningarstaður — Föst starfsstöð — Lögheimilissveitarfélag — Heimilisföst atvinnustofnun — Ræktunarsamband — Lagabirting — Villa við endurútgáfu laga — Aðalatvinnurekstur — Lögskýring — Lögskýringargögn — HRD. 1979.

I

Kærð er álagt aðstöðugjald til Blönduósshrepps gjaldárið 1982 samkvæmt úrskurði skattstjóra dags 9. desember 1982 og þess krafist að það verði fellt niður. Er þeirri kröfu til stuðnings á það bent að lögheimili ræktunarsambandsins sé í Torfalækjarhreppi og engin aðstöðugjaldsskyld starfsemi hafi farið fram í Blönduóshreppi á árinu 1981. Þess er m.a. getið að heimili formanns sambandsins sé í Torfalækjarhreppi þar sem ákvarðanir um reksturinn séu teknar, en sambandið hafi enga starfsstöð í Blönduóshreppi aðra en skrifstofuaðstöðu, sem sé í leiguhúsnæði og lítilsháttar geymsluhúsnæði. Vélar og tæki sambandsins vinni nær eingöngu utan Blönduóshrepps og komi þar ekki nema til viðgerða sem keypt sé út, enda reki sambandið ekki sjálft verkstæði. Þá er á það bent að gjaldárið 1983 hafi sambandinu verið gert að greiða aðstöðugjald til Torfalækjarhrepps. Af hálfu kæranda hafa verið lögð fram lög um Búnaðarsamband Austur — Húnavatnssýslu frá árinu 1968.

II

Ríkisskattanefnd veitti Blönduóshreppi færi á að gæta hagsmuna sinna í málinu í tilefni af framkominni kröfu af hálfu kæranda. Var það gert með bréfi, dags. 9. janúar 1984 og kröfu kæranda mótmælt. Í því sambandi er á það bent að ræktunarsambandið eigi tvímælalaust heimili sitt í Blönduóshreppi, enda hafi það hvergi annars staðar afnot fasteignar, en um þetta segir svo í því bréfi: „Ræktunarsambandið hefur hvergi fasta starfsstöð annarsstaðar en á Blönduósi og hefur þar föst afnot af skrifstofu húsnæði sem að vísu er leiguhúsnæði og svo viðgerðar og geymsluhúsnæði í eigu Búnaðarsambands Austur - Hún. Er hús það 518 m3 að stærð á 2600 m2 lóð. Að vísu er hús þetta í eigu Búnaðarsambands Austur - Hún. eins og raunar Ræktunarsambandið sjálft en nýtt nær eingöngu í þágu Ræktunarsambandsins.“

Loks er vitnað til dóms Hæstaréttar í dómabindi ár 1979 bls. 72.

III

Svo sem mál þetta er lagt fyrir ríkisskattanefnd skal tekið fram, að á því þykir bera að byggja að ræktunarsambandið sé sjálfstæður skattaðili enda með sjálfstæð reikningsuppgjör og skattskil og óvefengt af hálfu þess, en sérstakar samþykktir fyrir það hafa ekki verið lagðar fram. Þá þykir mega leggja til grundvallar fullyrðingu fyrirsvarsmanns sambandsins að lögheimili þess sé heimili formanns þess hverju sinni, sem á árinu 1981 var í Torfalækjarhreppi.

Um aðstöðugjald það sem hér er fjallað um gilda ákvæði V. kafla laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Í 1. mgr. 36. gr. laga þessara segir, að sveitarstjórnum sé heimilt að innheimta aðstöðugjald í sveitarsjóð hjá þeim aðilum, sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í sveitarfélaginu. í 1. mgr. 40. gr. laganna segir meðal annars, að innheimta megi aðstöðugjald hjá aðila sem stundi „atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í öðru sveitarfélagi en þar sem hann á lögheimili eða hefur atvinnurekstur (sic) sinn ef hann rekur þar fiskkaup, fiskverkun, hefur þar með höndum húsbyggingar eða aðra mannvirkjagerð eða hefur þar heimilisfasta atvinnustofnun, svo sem útibú, og verður þá ekki lagt aðstöðugjald á hann að því leyti annars staðar...“ í reglugerð um aðstöðugjald nr. 81/1962, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 69/1962, um tekjustofna sveitarfélaga, segir í 2. mgr. 8. gr., að gjaldandi teljist „hafa heimilisfasta atvinnustofnun í öðru sveitarfélagi ef hann hefur þar afnot af fasteign vegna starfsemi sinnar þar.“

Þegar virt er starfsemi ræktunarsambandsins í Blönduóshreppi og rekstraraðstaða sambandsins þar, sem fram kemur í málinu, verður eigi talið að hún hafi verið slík að sambandið hafi haft þar aðalatvinnurekstur sinn, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 73/1980 eða heimilisfasta atvinnustofnun samkvæmt ákvæðum A-liðs 1. mgr. 40. gr. sömu laga, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 81/1962. Er því ræktunarsambandinu eigi skylt að greiða aðstöðugjald til Blönduóshrepps. Verður því að fallast á kröfur þess og fella úr gildi hina kærðu ákvörðun skattstjóra.

Á árinu 1981 neytti Torfalækjarhreppur ekki heimildar sinnar í V. kafla laga nr. 73/1980 til að innheimta aðstöðugjald í sveitarsjóðinn. Verður ræktunarsambandinu því ekki gert að greiða aðstöðugjald gjaldárið 1981.

Það athugast í máli þessu að með lögum nr. 13/1980 voru gerðar veigamiklar breytingar á lögum nr. 8/1972 um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Í 2. mgr. 21. gr. laga nr. 13/1980 var mælt fyrir um endurútgáfu laga nr. 8/1972 með áorðunum breytingum. Var það gert með lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Sú villa varð við þá endurútgáfu að orðið „aðalatvinnurekstur“ í upphafsákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1980, en sú lagagrein breytti 40. gr. laga nr. 8/1972, var prentað „atvinnurekstur“ í upphafsákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 73/1980. Útgáfan af textanum á ákvæðinu í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 13/ 1980 ræður að sjálfsögðu hér.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja