Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 599/1984

Gjaldár 1982

Reglugerð nr. 486/1982, 13. gr.   Lög nr. 10/1960, 2. gr., 6. gr.  

Söluskattsskyld starfsemi — Túnþökusala — Landbúnaður — Vöruflutningar — Akstur — Atvinnurekstur — Vanreifun — Frávísun — Söluskattsskyld velta

Málavextir eru þeir, að í tekjuhlið landbúnaðarskýrslu kæranda fyrir árið 1982 var tilgreindur liðurinn „túnþökusala“ að fjárhæð kr. 74.140. Með bréfi, dags. 24. nóvember 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að hann teldi sölu þessa söluskattsskylda með vísan til reglugerðar nr. 486/1982, um söluskatt. Ekki væri hægt að sjá, að söluskattur hefði verið greiddur og á því væri óskað skýringa. Í svarbréfi sínu, dags. 29. nóvember 1983, tjáði kærandi skattstjóra þá skoðun sína, að túnþökusala væri ekki söluskattskyld. Ekki yrði það leitt af reglugerð nr. 486/1982 að um söluskattskyldu væri að ræða í þessum efnum, fremur mætti álykta, að slík sala væri undanþegin söluskatti eins og t.d. heysala. Þá benti kærandi á, að vart væri það tilgangur löggjafarvaldsins, að sú vinna bænda að rista torf og flytja til kaupenda væri söluskattsskyld, þegar hlunnindi, svo sem reki og laxveiðitekjur, væru undanþegin skattinum. Þá bar kærandi fyrir sig, að reglugerð nr. 486/1982 hefði fyrst tekið gildi 23. ágúst 1982 og félli því ekki undir hana túnþökusala í júní og júlí þetta ár.

Með bréfi, dags. 11. maí 1984, tilkynnti skattstjóri kæranda, að honum væri gert að greiða söluskatt vegna ársins 1982 að fjárhæð kr. 14.107 vegna fyrrnefndrar túnþökusölu, er teldist söluskattsskyld starfsemi. Varðandi viðbáru kæranda um gildistöku reglugerðar nr. 486/1982 tók skattstjóri fram, að stuðst væri við eldri reglugerðir svo sem reglugerð nr. 15, 31. mars 1960, um söluskatt, þótt vitnað hafi verið til fyrstnefndu reglugerðarinnar. Ekki beitti skattstjóri viðurlögum samkvæmt 21. gr. söluskattslaga.

Í kæru til skattstjóra, dags. 16. maí 1984, mótmælti kærandi fyrrgreindri söluskattsálagningu. Kærandi benti á að hann hefði árin 1966 — 1981 að báðum árum meðtöldum talið fram tekjur af túnþökusölu án álagningar söluskatts og aldrei fengið athugasemdir frá skattstjóra. Augljóst væri því, að skattstjóri hefði á þessu árabili talið túnþökur undanþegnar söluskatti. Ákvörðun skattstjóra varðaði álagningu söluskatts, sem kærandi hefði ekki innheimt, og væri því um beina skerðingu á tekjum hans að ræða. Með úrskurði, dags. 25. maí 1984, tók skattstjóri kæruna til úrlausnar og synjaði henni með vísan til endurákvörðunar, dags. 11. maí 1984, sbr. að framan og 14. gr. reglugerðar frá 31. mars 1960, um söluskatt með síðari breytingum.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, ódags. en móttekinni 7. júní 1984. Vísar kærandi um kröfur og rök til gagna málsins.

Með bréfi, dags. 27. september 1984, eru af hálfu ríkisskattstjóra gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Skv. 2. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt með síðari breytingum skal innheimta söluskatt af seldri vöru nema hún sé sérstaklega undanþegin. Túnþökur eru ekki meðal þeirra vara sem undanþegnar eru skv. 6. gr. laga nr. 10/1960 með síðari breytingum, sbr. til hliðsjónar 13. gr. reglugerðar nr. 486/1982.

Með vísan til ofnaritaðs er ítrekuð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra.“

Fram kemur í málinu af hálfu kæranda að í andvirði seldra túnþaka felist m.a. flutningur þeirra til kaupanda. Vöruflutningar eru undanþegnir söluskattsskyldu. Kærandi hefur haft með höndum túnþökusölu um alllangt skeið. Verður að telja að sala kæranda á túnþökum sé gerð í atvinnuskyni og söluskattsskyld, enda verður eigi séð svo sem mál þetta liggur fyrir að nein ákvæði laga nr. 10/1960, um söluskatt með síðari breytingum, reglugerða um söluskatt eða aðrar heimildir leysi þá starfsemi undan söluskattsskyldu. Með því að eigi liggur fyrir af hálfu kæranda hverju flutningar nemi í andvirði seldra túnþaka þykir rétt að að vísa málinu frá að svo stöddu sökum vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja