Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 601/1984

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 14. gr., 16. gr., 100. gr. 8. mgr., 106. gr., ákvæði til bráðabirgða IV og V  

Íbúðarhúsnæði — Skattskyldur söluhagnaður — Stofnverð — Fasteignamat — Ófyrnanleg fasteign — Framreikningur stofnverðs — Ákvörðun söluhagnaðar íbúðarhúsnæðis — Söluhagnaður færður til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis — Álag

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1982 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Af hálfu kærenda var álagningin kærð til skattstjóra með bréfi, dags. 11. ágúst 1982, og boðað, að nánari rökstuðningur yrði sendur síðar. Með úrskurði, dags. 13. október 1982, ákvað skattstjóri, að álögð opinber gjöld gjaldárið 1982 skyldu óbreytt standa, þar sem rökstuðningur fyrir kæruatriðum hefði ekki borist. Þeim úrskurði var af hálfu kærenda skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 11. nóvember 1982, og boðað, að nánari rökstuðningur yrði sendur síðar. Með bréfi, dags. 10. febrúar 1983, sendi umboðsmaður kærenda skattframtal þeirra árið 1982 til ríkisskattanefndar og fór þess á leit, að opinber gjöld kærenda 1982 yrðu reiknuð að nýju á grundvelli skattframtalsins án viðurlaga. Umboðsmaðurinn tók fram, að framtalsskilin hefðu dregist vegna mikilla og óvæntra anna á skrifstofu hans. Með úrskurði nr. 128, dags. 8. apríl 1983 vísaði ríkisskattanefnd kærunni ásamt skattframtali vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1982 til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar, sbr. 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri tók málið til úrlausnar með úrskurði, dags. 29. ágúst 1983, og féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 með breytingum, sem tilgreindar eru í úrskurðinum og sætt hafa kæru til ríkisskattanefndar. Breytingarnar eru þessar:

1. Í fylgiskjali um kaup og sölu eigna með skattframtali árið 1982 greindi kærandi frá því, að hann hefði selt íbúðarhúsnæði að K, R, með kaupsamningi, dags. 15. apríl 1981. Söluverð að frádregnum sölulaunum var kr. 473.700. Þess var getið, að hina seldu eign hefði hann fengið í makaskiptum fyrir S, G. Í hinum kærða úrskurði tilkynnti skattstjóri kæranda, að söluhagnaður að fjárhæð kr. 75.822 vegna íbúðar að K, R, væri færður honum til tekna í reit 76 í skattframtalinu. Skattstjóri byggði útreikning sinn á því, að stofnverð væri kr. 115.000 og að teknu tilliti til framreiknings kr. 397.878. Þessari tekjufærslu skattstjóra er af hálfu kæranda mótmælt í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 28. september 1983. Rökstuðningur barst í bréfi, dags. 30. nóvember 1983. Þar segir svo um þetta kæruefni:

„Eignarhald á K er þannig til komið:

E, G, sem umbjóðendur mínir byggðu í kringum 1970 seldu þau 7. janúar 1977. Hluti af söluverðinu var greitt með S, G. S. var seld 1. maí 1978. Hluti af söluverðinu var greiddur með íbúð að K. K er síðan seldur 15.4. 1981.

Sala umbjóðenda minna á K, fellur undir 16. gr. laga nr. 75/1981. Ákvæði þessara greinar gengur út á það að minnka skattskyldu manna á söluhagnaði íbúðarhúsnæðis. Eitt ákvæði vantar þó í 16. gr. sem er í 14. gr. og það er heimild til þess að nota fasteignamat í árslok 1979 í stað stofnverðs.

Farið er fram á að fasteignamat í árslok 1979 verði notað í stað framreiknaðs stofnverðs.

Fasteignamat í árslok 1979:

Hús.................................................................................................................... Nkr. 186.040,

Lóð Nkr. 19.750,

Afgjaldskvaðarverðmæti Nkr. (150,)

Nkr. 205.640

Framreiknað verður fasteignamatið kr. 205.640 x 2.3777 Kr. 488.950.

Til vara er farið fram á að söluhagnaður komi til lækkunar á stofnverði I, þar sem andvirði sölunnar var varið til greiðslu á byggingarkostnaði I.“

Með bréfi, dags. 14. ágúst 1984, krefst ríkisskattstjóri þess, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur um þetta atriði. Segir svo um þetta í kröfugerðinni:

„Eins og fram kemur í kæru umboðsmanns kæranda er fjallað um söluhagnað af íbúðarhúsnæði í 16. gr. skattalaganna.

Í 3. mgr. þeirrar gr. kemur skýrt fram hvernig ákvarða skuli hagnað vegna sölu í íbúðarhúsnæði.

Ákvörðun með þeim hætti er umboðsmaður kæranda bendir á verður því ekki talin fá staðist með vísan til áður tilvitnaðs lagaákvæðis.

Á varakröfu kæranda verður ekki fallist, þar sem fasteignin I, er atvinnuhúsnæði en í 2. mgr. 16. gr. skattalaga er tekið fram að einungis sé hægt að lækka stofnverð íbúðarhúsnæðis vegna sölu slíks húsnæðis.“

2. Í hinum kærðu úrskurðum, dags. 29. ágúst 1983, bætti skattstjóri 25% álagi við skattstofna kærenda samkvæmt skattframtalinu, sbr. heimildarákvæði 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna hinna síðbúnu framtalsskila. Umboðsmaður kærenda fer þess á leit, að álag þetta verði fellt niður. Honum hefði ekki reynst unnt að ganga frá skattframtali kærenda á tilskildum tíma vegna mikilla anna. Af hálfu ríkisskattstjóra eru svofelldar kröfur gerðar varðandi þetta kæruatriði í bréfi, dags. 14. ágúst 1984:

„Þá verður ekki fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu álags enda ekki fyrir hendi ástæður er réttlæta síðbúin framtalsskil kæranda.“

Um 1. tl. Með skírskotun til ákvæðis til bráðabirgða V í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er fallist á aðalkröfu kæranda.

Um 2. tl. Eftir atvikum og að þessu sinni þykir mega taka kröfu kærenda um niðurfellingu álags til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja