Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 613/1984

Gjaldár 1982

Lög nr. 73/1980, 37. gr.  

Aðstöðugjaldsstofn — Umboðssala — Millivelta — Sönnun — Iðnaður — Útflutningur

I

Málavextir eru þeir, að skattstjóri sendi kæranda bréf, dags. 26. 1982. Segir þar m.a.:

„Aðstöðu- og iðnlánasjóðsgjaldsstofnar skv. innsendri aðstöðugjaldsgreinargerð hafa verið leiðréttir til samræmis við upplýsingar er fram koma í „sundurliðun með aðstöðugjaldsframtali árið 1982.“ Helsta breyting er sú, að aðstöðugjaldsstofn félagsins er hækkaður sem svarar til „vörunotkunar útflutn. deilda“ kr. 53.868.026, þar sem ekki verður séð að tilgreindur kostnaður sé undanþeginn álagningu aðstöðugjalds.“

Með bréfi, dags. 27. ágúst 1982 voru opinber gjöld álögð á kæranda gjaldárið 1982 kærð til skattstjóra og í bréfi dags. 7. september 1982 gerir umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir kröfu sinni um að álagning aðstöðugjalds á kæranda verði miðuð við óbreytt aðstöðugjaldsframtal 1982:

„Kærð er álagning aðstöðugjalds með tilvísun til breytingar, sem fram kom í bréfi yðar dags. 26. júlí 1982, þar sem aðstöðugjaldsstofninn var hækkaður um kr. 53.868.026 vegna „vörunotkunar útflutningsdeildar“.

Við gerð aðstöðugjaldsframtals var þessi upphæð dregin frá rekstrargjöldum þar sem hér er annars vegar um að ræða vörukaup frá eigin saumastofu að upphæð kr. 4.997.026 og hins vegar bókfærð vörukaup frá öðrum saumastofum vegna umboðssölu fyrir þær á erlendum mörkuðum. Teljum við að hvorugt þessara atriða eigi að mynda aðstöðugjalds­stofn hjá umbjóðanda okkar og óskum við því eftir að álagning aðstöðugjalds félagsins verði leiðrétt í samræmi við það.

Skattstjóri ritaði kæranda bréf, dags. 12. nóvember 1982, og óskaði eftir að gerð yrði grein fyrir eftirgreindum atriðum áður en kæran frá 27. ágúst og 7. september 1982 yrði tekin til úrskurðar:

„Vörukaup vegna „vörunotkunar útflutningsdeildar“ að frádregnum vörukaupum frá eigin saumastofu, þ.e. kr. 53.868.026 + kr. 4.997.026, mismunur kr. 48.871.000 óskast sundurliðuð á einstaka framleiðendur og gerið jafnframt með sama hætti sundurliðaða grein fyrir umboðslaununum, sem umbjóðendur nefndrar framleiðslu hafa verið krafðir um. Í þessu sambandi óskast lagt fram ljósrit af uppgjöri við umbjóðanda, sem átt hefur veruleg viðskipti við félagið vegna nefndra viðskipta, sbr. umbeðna sundurliðun.“

Svarbréf kæranda er dagsett þann 23. nóvember 1982. Í því segir umboðsmaður kæranda m.a:

„X. h.f. er, svo sem yður er kunnugt, framleiðandi að ýmsum ullarvörum. Auk sölu á eigin framleiðsluvörum annast félagið umboðssölu fyrir aðra framleiðendur, á vörum sem unnar eru úr dúka- og prjónavoðum frá X. h.f. Framleiðsla þessara aðila er í nánum tengslum við félagið, þannig að X. h.f. sér venjulega um hönnun og útlit framleiðslunnar, sem er ýmis konar fatnaður úr ullarvörum, og gerir framleiðslu- og söluáætlanir fyrir þá.

Viðskipti X. h.f., og þessara framleiðenda fara þannig fram að X. h.f. framleiðir efnið í fatnaðinn sem það selur síðan til framleiðendanna. Við sölu X. h.f. til framleiðendanna myndast aðstöðugjaldsstofn hjá X. h.f. vegna framleiðslukostnaðar varanna. Framleiðendur sauma síðan fatnaðinn og afhenda X. h.f. fullunna vöru til útflutnings. Við afhendingu vöru framleiðendanna til X. h.f. myndast aðstöðugjaldsstofn hjá þeim vegna heildarframleiðslukostnaðar þeirra á fullframleiddri vöru.

Uppgjör þessara viðskipta fara síðan þannig fram að X. h.f. greiðir strax nettóverð til framleiðendanna, þ.e. viðmiðunarverð að frádregnum umboðslaunum X. h.f. Þetta er gert á þennan hátt vegna þess að við móttöku vara frá framleiðendum eru þær settar á sameiginlegan lager félagsins. Þar hefur ekki þótt ástæða til að halda vörum frá einum framleiðanda aðskildum frá vörum annarra framleiðenda, m.a. vegna þess að oft eru margir framleiðendur að sömu vörutegund, sem dreift er jöfnum höndum til margra kaupenda. Þrátt fyrir ofanskráð fyrirkomulag þessara viðskipta hefur X. h.f. skilarétt á vörum framleiðendanna eftir vissum reglum.

Af ofannefndu má þannig greina að ekki er mögulegt að sundurliða vörunotkun og umboðslaun eftir einstökum framleiðendum, þar sem vörunotkunin samanstendur af mótteknum vörum frá þeim á árinu og birgðum í upphafi árs að frádregnum birgðum í lok árs, en sundurliðun birgðanna eftir framleiðendum liggur ekki fyrir eins og áður segir.“

Skattstjóri kvað upp úrskurð í málinu þann 9. desember 1982. Þar eru málavextir raktir og vísað til svarbréfs umboðsmanns kæranda frá 23. nóvember 1982. Þá segir skattstjóri í úrskurðinum:“

„Að virtum fyrirliggjandi gögnum er það mat skattstjóra, að þessi viðskipti, þ.e. sala efnis til framleiðenda og kaup á fullunnum vörum frá framleiðendum skapi félaginu aðstöðugjaldsskyldu bæði, þegar selt er til framleiðenda og þegar keypt er af framleiðendum til sölu erlendis og þykir félagið ekki hafa sýnt fram á, að nefnd viðskipti þ.e. kaup á vöru frá framleiðendum beri að undanskilja í aðstöðugjaldsstofni, þar sem um umboðssöluviðskipti sé að ræða. Er kröfu kæranda, hvað varðar ofangreind viðskipti því synjað, en hins vegar þykir mega fallast á, að „vörunotkun útflutningsdeildar“ v/vörukaupa frá eigin saumastofu skapi ekki félaginu milliveltu skv. ákvæðum 37. gr. laga nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga og er fallist á kröfu félagsins varðandi þau viðskipti.

II

Úrskurði skattstjóra hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kærubréfi, dags. 15. desember 1982. Þar segir hann m.a.: „Viljum við í þessu sambandi gera sömu kröfur varðandi álagningu aðstöðugjalds og fram komu í bréfum okkar dags. 7. september og 23. nóvember til skattstjórans í Reykjanesumdæmi.“

III

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 14. ágúst 1984, gert svofelldar kröfur í málinu fyrir gjaldkrefjanda hönd:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Eins og fram kemur í gögnum málsins kaupir kærandi og selur vörur algjörlega í eigin nafni og fyrir eigin reikning. Hann verður því ekki talinn hafa réttarstöðu milliliðs, þ.e. hvorki er um að ræða umboðsviðskipti né umsýsluviðskipti.

Sala kæranda á vörum hinna ýmsu framleiðenda er hann selur í eigin nafni telst því aðstöðugjaldsskyld.“

IV

Með skírskotun til upplýsinga kæranda sjálfs er kröfu hans hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja