Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 617/1984

Gjaldár 1982

Lög nr. 73/1980, 37. gr.  

Aðstöðugjaldsstofn — Umboðslaun — Afsláttur — Tryggingarfélag — Vátryggingarstarfsemi — Endurtryggingariðgjöld — Rekstrarkostnaður — HRD. 1965.537 — RIS. 1964.A-90 — RIS.1978.1126

I

Málavextir eru þeir, að skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 28. júlí 1982, að stofn til aðstöðugjalds hefði verið hækkaður úr kr. 60.256.098 í kr. 66.481.341 með því að ekki yrði séð að „fengin umboðslaun“væru frádráttarbær frá gjaldstofni.

Með bréfi, dags. 25. ágúst 1982, til skattstjóra mótmælti umboðsmaður kæranda nefndri hækkun aðstöðugjaldsstofnsins frá því sem hann var tilgreindur í skattframtali kæranda 1982. Hér væri um að ræða „fengin umboðslaun og afslátt“ af endurtryggingariðgjöldum. Bendir umboðsmaðurinn á, að mál af þessu tagi hafi áður verið úrskurðuð og um slíkt mál hafi verið fjallað í Hæstarétti. Með bréfi til Skattstjórans í Reykjavík dags. 12. ágúst 1977 hafi m.a. verið kærð nákvæmlega samskonar breyting á gjaldstofni þess gjaldárs og hafi sú breyting verið leiðrétt aftur. Um þetta hafi verið fjallað í úrskurði ríkisskattanefndar A nr. 90, 17. nóvember 1964, sbr. bls. 15. í úrskurðinum, en um þann úrskurð hafi síðan verið fjallað af Hæstarétti, skv. hrd. nr. 57/1965 bls. 537.

II

Skattstjóri hafnaði kröfu kæranda með úrskurði, dags. 15. apríl 1983. Í úrskurðinum segir m.a. að samkvæmt hrd. nr. 57/1965 skuli „leggja til grundvallar sem aðstöðugjaldsstofn greidd endurtryggingariðgjöld, að frádregnu því sem endurgreitt er frá endurtryggjendum.“ Því vakni sú spurning hvað teljist vera endurgreiðsla frá endurtryggjendum. Sá liður, er um sé deilt, hafi ávallt verið færður sem umboðslaun í ársreikningum kæranda, en á sérblaði með ársreikningi (aðstöðugjaldsframtali) hafi þessi liður verið nefndur umboðslaun og afsláttur. Þá segir í úrskurðinum að umboðslaun og afslættir sé tvennt ólíkt, umboðslaun þóknun (fyrir starf) en afslættir lækkun á verði (iðgjaldi) og verði ekki séð hvernig þessu tvennu verði jafnað saman. Fallast megi á að afsláttur falli undir „það sem er endurgreitt frá endurtryggjendum.“ Varðandi umboðslaun vísar skattstjóri í úrskurði sínum til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 1126/1978 þar sem fallist sé á það sjónarmið ríkisskattstjóra að líta beri svo á að umboðslaun séu hluti brúttótekna gjaldanda og jafnframt að endurtryggingariðgjöld beri að telja til aðstöðugjaldsstofns án þessa frádráttar.

III

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kærubréfi, dags. 13. maí 1983. Ítrekar umboðsmaður kæranda þá kröfu að hin umdeilda hækkun aðstöðugjaldsstofns verði felld niður og aðstöðugjald álagt að nýju í samræmi við það. Í kærubréfinu segir umboðsmaðurinn m.a.:

„Þegar á fyrsta ári framkvæmda aðstöðugjalds hér á landi kom m.a. upp ágreiningur um hvernig reikna skyldi aðstöðugjaldsstofn vátryggingarfélaga. Hér er um mjög sérhæfð og flókin viðskipti að ræða og af því leiðir m.a. að reikningsskil vátryggingarfélaga eru með nokkuð öðrum hætti en almennt gerist. Mál íslenskrar endurtryggingar var einskonar prófmál í þessu sambandi, en Hæstiréttur hvað upp dóm í málinu í júní 1965 (Hrd 1965 bls. 537).

Niðurstaða Hæstaréttar var sú m.a. að til heildartekna teljast heildariðgjöld en til rekstrargjalda teljast nettó endurtryggingariðgjöld og nettó tjónabætur, þ.e. heildartjón að frádregnum hluta endurtryggjenda.

Megin tekjur vátryggingarfélags eru vátryggingariðgjöld hinna vátryggðu, sem eru endurgjald fyrir þá áhættu sem vátryggingarfélagið tekur á sig. Þessi iðgjöld teljast til heildartekna. Ýmist taka vátryggingarfélögin áhættuna að fullu sjálf eða endurtryggja hana að hluta hjá öðrum vátryggingarfélögum. Útgjöld vegna slíkra endurtrygginga er nefnast endurtryggingariðgjöld í ársreikningum vátryggingarfélaga (eða hluti endurtryggjenda í iðgjöldum.)

Samningar við endurtryggjendur eru með mjög mismunandi hætti, en þar er oftast ákveðið heildariðgjald vegna tiltekinnar áhættu en síðan eru dregin frá umboðslaun eða afslættir, en það fer alveg eftir samningum hverju sinni hvernig þessu er háttað. Það hefur einnig verið nokkuð mismunandi hvernig endurtryggingariðgjöldin eru færð í ársreikninga, en ýmist eru þau færð nettó, þ.e. iðgjöld að frádregnum umboðslaunum og afsláttum eða að iðgjöldin eru færð aðgreind frá umboðslaunum og afsláttum.

Megin málið er það að ef vátryggingarfélag endurtryggir áhættu teljast þau útgjöld sem því eru samfara til aðstöðugjaldsstofns þ.e. nettó endurtryggingariðgjöld sbr. t.d. Hrd. 1965 bls. 546 4. mgr., og neðst á bls. 547. Það getur ekki hækkað heildartekjur félags ef stofnað er til útgjalda vegna endurtrygginga. Þessi háttur í tryggingarviðskiptum að ákveða afslátt eða umboðslaun af endurtryggingariðgjöldum er allt annars eðlis en þau umboðslaun sem frumtryggingarfélögin greiða umboðsmönnum sínum fyrir vátryggingaröflun o.fl. t.d. úti á landi. Þar er um útgjöld að ræða sem teljast til aðstöðugjaldsstofns.

Það getur ekki átt að koma umbjóðanda okkar í koll að færa umrædd „umboðslaun“ sérstaklega, en meðal viðskiptamanna okkar eru nokkur vátryggingarfélög sem ekki hafa verið meðhöndluð með þessum hætti af skattstjóra.

Eins og áður segir hefur áður verið úrskurðað og dæmt í slíku máli. Við kærðum slíka álagningu m.a. til skattstjóra með bréfi dags. 12. ágúst 1977 vegna þessa umbjóðanda okkar og féllst skattstjóri þá á röksemdir okkar.“

IV

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 10. september 1984, gert svofellda kröfu í kærumáli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærandi hefur ekki sundurliðað afslætti og umboðslaun.“

V

Á því þykir mega byggja í máli þessu að umræddar greiðslur séu eftir eðli þeirra lækkun á gjaldfærðum endurtryggjendaiðgjöldum. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja