Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 630/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.  

Vaxtagjöld — Framtalsháttur vaxta — Vextir, framtalsháttur — Vaxtatímabil — HRD. 1974.823

Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að leyfa ekki til frádráttar tekjum tilfærð áfallin vaxtagjöld að fjárhæð kr. 13.539 af skuld við X í skattframtali árið 1983. Skattstjóri byggði niðurfellingu sína á því, að kærandi virtist ekki nota þá aðferð að færa áfallna vexti við vaxtaútreikning vegna annarra skulda og eigna í skattframtali árið 1983. Í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 19. mars 1984, segir svo:

„Við framtal vaxta hafa skattþegnar mátt velja á milli tvenns konar uppgjörsaðferða þ.e. að færa gjaldfallna vexti annars vegar og áfallna vexti hins vegar, og þykir eigi skipta máli hvort framtaldir vextir eru af lánum sem tengjast atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða ekki. Samkvæmt góðri reikningsskilavenju ber að gæta fulls samræmis í framtali vaxta samkvæmt þeirri aðferð sem notuð er.

Varðandi ofanritað er vísað til úrskurðar (sic) Hæstaréttar frá 2. október 1974.

Kærandi hefur ekki gætt fulls samræmis í framtali vaxta á skattframtali árið 1983 og er kæru því synjað.“

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 9. apríl 1984, mótmælir umboðsmaður kæranda þeirri röksemd skattstjóra, að þess samræmis beri að gæta í vaxtafærslum, sem skattstjóri byggi á. í þeim dómi Hæstaréttar, sem skattstjóri vitni til sjónarmiðum sínum til stuðnings, hafi verið synjað um lögtak, enda þótt skattþegn hefði ekki gætt fulls samræmis í framtali vaxta. Með tilliti til dóms þessa beri að taka kröfu kæranda til greina, þrátt fyrir nefndan ágalla á framtali vaxta.

Með bréfi, dags. 31. október 1984, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans sem og þess er segir í leiðbeiningum ríkisskattstjóra við útfyllingu skattframtals 1983, bls. 6.“

Með skírskotun til þess sjónarmiðs sem fram kemur í Hrd. 1974:823 þykir bera að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja