Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 643/1984
Gjaldár 1983
Íbúðarlán — Vaxtagjöld — íbúðarhúsnæði — Sumarbústaður — Lögskýring — Málsmeðferð áfátt
Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 28. desember 1983, krafði skattstjóri kæranda um staðfestar kvittanir fyrir greiddum vaxtagjöldum af tilgreindum lánum og greinargerð um það, hvernig vaxtagjöldin tengdust öflun íbúðarhúsnæðis, sbr. ákvæði 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með svarbréfi sínu, dags. 11. janúar 1984, sendi umboðsmaður kæranda umbeðnar kvittanir og tók fram, að lánin hefðu verið tekin í sambandi við kaup og smíði á sumarbústað og tengdust vaxtagjöldin því öflun íbúðarhúsnæðis, sbr. fyrrnefnt lagaákvæði. Með bréfi, dags. 15. mars 1984, tilkynnti skattstjóri kæranda, að tilfærð vaxtagjöld til frádráttar hefðu verið lækkuð um kr. 96.000 eða úr kr. 106.827 og í kr. 10.827 með því að um væri að ræða vaxtagjöld af skuldum, sem ekki tengdust öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota samkvæmt 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með skattbreytingaseðli, dags. 15. mars 1984, var kæranda tilkynnt um þá breytingu áður álagðra opinberra gjalda, sem af fyrrnefndri lækkun vaxtagjaldanna leiddi.
Með kæru, dags. 22. mars 1984, mótmælti umboðsmaður kæranda breytingu skattstjóra og hélt því fram, að sumarbústaðir féllu undir skilgreiningu laganna á íbúðarhúsnæði samkvæmt almennum lögskýringareglum og vísaði til sjónarmiða, sem fram kæmu í frv. til laga um breyting á lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sem lagt hefði verið fyrir Alþingi á 102. löggjafarþingi. Kæmi þar fram, að löggjafarvaldið ætti ekki eingöngu við íbúðarhúsnæði í einhverri þröngri merkingu heldur hvers konar húsnæði, sem ætlað væri til eigin nota utan atvinnurekstrar. Sumarbústaðir væru að sjálfsögðu íbúðarhúsnæði, sem ætlað væri til eigin nota.
Með úrskurði, dags. 22. maí 1984, hafnaði skattstjóri kærunni með vísan til skilgreiningar á hugtakinu íbúðarhúsnæði sem skattstjóri gerir grein fyrir í úrskurðinum og þeirra meginsjónarmiða löggjafarvaldsins varðandi vaxtafrádrátt manna utan atvinnurekstrar, sem fram komi í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 7/1980, um breyting á lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem svo virðist, sem nefnt hugtak sé túlkað þröngt.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 20. júní 1984, og er þess krafist, að vaxtafrádráttur sá, sem um sé deilt í málinu, verði leyfður til frádráttar tekjum. Umboðsmaður kæranda vísar til rökstuðnings síns í kærunni til skattstjóra, dags. 22. mars 1984. Þá er hinni þröngu lögskýringu skattstjóra mótmælt með þar greindum rökum og því haldið fram „að skýra beri „íbúðarhúsnæði“ rúmri lögskýringu með tilliti til þess hversu algengt er orðið, að fólk eigi samhliða aðalíbúðarhúsnæði einnig sumarbústað, sem það notar til íbúðar samhliða aðalíbúðarhúsnæðinu, í sumum tilfellum tímabundið en oft á tíðum ótímabundið,“ eins og segir í kærunni. Lögheimilishugtakið skipti hér ekki máli. Vaxtafrádráttarheimildin eigi að auðvelda fólki að eignast „húsnæði til eigin nota“ og skipti þá ekki máli, hvort um sé að ræða aðalíbúðarhúsnæði eða íbúðarhúsnæði til tímabundinnar eigin notkunar. Eignarhaldið og eigin not séu hér frumatriði.
Með bréfi, dags. 31. október 1984, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Með bréfi sínu, dags. 28. desember 1983, krafði skattstjóri kæranda um gögn og skýringar varðandi tiltekna vaxtagjaldaliði. Að fengnu svarbréfi kæranda, dags. 11. janúar 1984, lækkaði skattstjóri tilfærð vaxtagjöld til frádráttar og breytti áður álögðum opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1983, sbr. bréf skattstjóra, dags. 15. mars 1984, og skattbreytingaseðil, dags. sama dag. Þótt eigi þyki koma fram svo glöggt sem skyldi í bréfi skattstjóra, dags. 28. desember 1983, að tilfærð vaxtagjöld kæranda væru vefengd og fyrirhugað væri að endurákvarða áður álögð opinber gjöld hans árið 1983 í tilefni af því, þykja eigi efni svo sem á stendur til þess að hnekkja hinni kærðu breytingu sökum annmarka á málsmeðferð skattstjóra, enda ber umboðsmaður kæranda slíkt eigi fyrir sig og málsatvik liggja ljóst fyrir. Að virtum málsatvikum og með vísan til orðalags 1. mgr. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir verða að hafna kröfu kæranda.