Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 649/1984
Lög nr. 75/1981, 100. gr. 3. mgr.
Kæra — Formskilyrði kæru — Frávísun
Þann 21. júní 1984 barst ríkisskattanefnd í ábyrgðarbréfi úrskurður skattstjórans í Reykjavík, dags. 22. maí 1984, en úrskurður þessi var vegna kæru, sem kærandi hafði sent til skattstjóra. Ekki fylgdu nein önnur gögn með bréfi þessu.
Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 31. október 1984, lögð fram svohljóðandi kröfugerð í málinu:
„Að málinu verði vísað frá þar sem ekki virðist hafa borist kæra til ríkisskattanefndar.
Telji ríkisskattanefnd að fjalla eigi efnislega um málið, þrátt fyrir ofangreindan meintan formgalla, er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.“
Kærandi hefur hvorki sent ríkisskattanefnd kröfur né greinargerð og er kæra hans eigi svo úr garði gerð sem skylt er samkvæmt 3. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Er málinu því vísað frá ríkisskattanefnd.