Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 665/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 79/1972   Lög nr. 75/1981, 6. gr., 7. gr., 10. gr. 2. mgr., 65. gr., 82. gr., 99. gr., 100. gr.  

Styrkur, óendurkræfur — Viðskiptakrafa — Búrekstur — Skattskyldar tekjur — Stofnverð — Skattskylda barna — Landbúnaður — Búrekstur — Óendurkræfur styrkur — Eignarskattsstofn, ákvörðun — Ríkisframlag — Innstæður barna — Húsabótastyrkur — Búfjáreign barna

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 13. desember 1983, krafði skattstjóri kæranda um skýringar og gögn varðandi ýmis atriði skattframtals hans árið 1983, þ. á m. um viðskiptakröfur skv. efnahagsyfirliti vegna búrekstrar á landbúnaðarskýrslu „t.d. hækkun þeirra á milli ára um kr. 130.680, svo og á hvaða viðskiptaaðila kröfurnar eru“, eins og það er orðað í bréfinu. Fjárhæð útistandandi viðskipakrafna pr. 31. desember 1982 nam kr. 157.713. Í svarbréfi kæranda, dags. 25. desember 1983, voru kröfur þessar sundurliðaðar. Meðal þeirra var áætlað ríkisframlag vegna hlöðubyggingar að fjárhæð kr. 101.000. Í húsbyggingarskýrslu kæranda vegna hlöðubyggingar þessarar dró hann fjárhæð hins áætlaða ríkisframlags frá byggingarkostnaði pr. 31. desember 1982 og færði þannig fundið verðmæti sem fyrningargrunn í fyrningarskýrslu. Þá voru færðar meðal viðskiptakrafna inneignir barna kæranda á viðskiptareikningum í K.H. samtals að fjárhæð kr. 29.131. Með bréfi, dags. 17. janúar 1984, tilkynnti skattstjóri kæranda, að áður álögð opinber gjöld hans hefðu verið endurákvörðuð vegna vanfærðra tekna, en þær breytingar hafa ekki sætt kæru. Þá var í bréfinu svofelld ákvörðun skattstjóra: „Börn innan 16 ára eru ekki aðilar að búrekstrinum. Áætlað ríkisframlag v/hlöðubyggingar er styrkur vegna stofnkostnaðar og getur því ekki fallið inn í viðskiptakröfur vegna búreksturs. Viðskiptakröfur á efnahagsyfirliti lækka úr kr. 157.713 í kr. 27.582. Veltufjármunir verða kr. 171.007.“ Þá var hrein eign samkvæmt landbúnaðarskýrslu lækkuð sem svarar til nefndrar lækkunar viðskiptakrafna.

Þessum breytingum á tilfærðum viðskiptakröfum í efnahagsreikningi var mótmælt af hálfu umboðsmanns kæranda í kæru, dags. 15. febrúar 1984. Rökstuddi umboðsmaðurinn kröfu sína að því er varðar hið áætlaða ríkisframlag svo, að þrátt fyrir, að ríkisframlagið væri styrkur vegna stofnkostnaðar, væri til fjárfestingarinnar eingöngu stofnað vegna búrekstrar og gæti á engan hátt talist persónuleg viðskiptakrafa bóndans, enda væri búið að lækka fyrningargrunn eignarinnar um upphæð, sem næmi áætluðu ríkisframlagi. Hlyti því framlagið að teljast með veltufjármunum vegna búrekstrar á sama hátt og skuldir vegna sömu framkvæmdar teldust með skuldum vegna búrekstrar. Viðskiptareikninga barna innan 16 ára aldurs í kaupfélagi taldi umboðsmaðurinn bera að telja með viðskiptakröfum, enda væri til þeirra eingöngu stofnað vegna búrekstrar og inn á þá færi ekkert nema búfjárinnlegg, sem talið væri til tekna með öðrum tekjum ("fjölskyldu-„) búsins í landbúnaðarskýrslu. Hlyti því að vera eðlilegt að líta á inneignir á slíkum reikningum sem viðskiptakröfur vegna búrekstrar en ekki sem persónulega eign, fyrr en tekið hefði verið út af reikningunum eða fært á sparisjóðs- eða vaxtaaukareikning, enda teldust vextir af þessum reikningum með öðrum vaxtatekjum búsins. Yrði ekki fallist á þetta var þess krafist til vara, að vaxtatekjur búsins af viðskiptareikningunum yrðu lækkaðar um sem næmi vaxtatekjum af umræddum reikningum samtals að fjárhæð kr. 2.246 og heildartekjur búsins lækkaðar samkvæmt því og tap á landbúnaðarskýrslu og yfirfæranlegt tap hækkað um sömu fjárhæð.

Með úrskurði, dags. 22. febrúar 1984, vísaði skattstjóri aðalkröfum kæranda frá, en féllst á varakröfu hans um meðferð á vaxtatekjum af viðskiptareikningum barna. Frávísun sína varðandi hið áætlaða ríkisframlag byggði skattstjóri þá því, að það væri ekki tölulega rökstutt, þar sem um áætlun væri að ræða, en ekki tilgreining ákveðinnar fjárkröfu. Forsendur skattstjóra fyrir meðferð hans á innstæðum á viðskiptareikningum barna voru þær, að börnin væru ekki skráðir aðilar að búrekstrinum.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 20. mars 1984, og þess krafist sem áður, að áætlað ríkisframlag vegna hlöðubyggingar og innstæður barna á viðskiptareikningi í kaupfélagi verði taldar með viðskiptakröfum vegna búrekstrar. Að því er varðar hið áætlaða ríkisframlag þá mótmælir umboðsmaður forsendum skattstjóra og kveður heitið „áætlað ríkisframlag“ stafa af því, að í leiðbeiningum hagfræðiráðunautar Búnaðarfélags Íslands sé þetta kallað svo í skýringardæmi. Hins vegar sé það rangt, að fjárhæðin hafi verið áætluð, heldur hafi hún verið fengin frá Búnaðarfélagi Íslands á sínum tíma. Sá styrkur, sem kærandi hafi að lokum fengið, hafi verið kr. 15 hærri en tilfærð fjárhæð. Þá er gerð grein fyrir aðdraganda að slíkri styrkveitingu, sem hér um ræðir, sem m.a. felst í uppáskrift bútækniráðunautar Búnaðarfélags Íslands á teikningu, úttekt framkvæmdar að hausti og úttektarseðli í sambandi við hana, útreikning styrksins af hálfu Búnaðarfélagsins samkvæmt úttektarseðli og greiðslu styrksins að vori eða sumri. Bóndinn fái afrit af úttektarseðli, sem segja megi að jafngildi ávísun á væntanlega fjárhæð, enda algengast, að bóndinn fái lánafyrirgreiðslu út á væntanlegan styrk. Eðlilegt sé því, að slíkt ríkisframlag, sem ætlað sé til greiðslu ákveðinna lána, sem beinlínis hafi fengist út á þetta væntanlega framlag, verði talið með öðrum viðskiptakröfum á efnahagsreikningi, þar sem umræddar skuldir séu einnig taldar fram, enda hafi fyrningargrunnur hlutaðeigandi eignar verið lækkaður um sömu fjárhæð. Verði ekki fallist á þetta, verði að telja það réttmæta kröfu, að skuldir að sömu upphæð verði strikaðar út af efnahagsyfirliti og fyrningargrunnur hlöðu hækkaður um sömu fjárhæð með tilheyrandi breytingum á fyrningum og yfirfæranlegu rekstrartapi. Þá er á það bent, að þótt svo yrði litið á, að um áætlun ríkisframlags væri að ræða, væri til þess að líta, að framteljendum væri ætlað að reikna skuldir til verðlags um áramót og hlytu þær því að teljast áætlaðar samkvæmt skilningi skattstjóra á sama hátt og ríkisframlagið. Ítrekuð eru áður fram komin rök um meðferð innstæðna barna á viðskiptareikningi í K.H.

Með bréfi, dags. 31. október 1984, fellst ríkisskattstjóri á kröfu kæranda í máli þessu.

Hinar kærðu breytingar skattstjóra högguðu eigi álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1983. Þær leiddu hins vegar til lækkunar eignarskattsstofns við meðferð skattstjóra, en kærandi ber eigi eignarskatt. Eignarskattsstofn er allt að einu ranglega ákvarðaður og hefur láðst að taka tillit til bifreiðaeignar. Þá verður eigi talið, að niðurfelling ríkisframlags meðal viðskiptakrafna hefði átt að leiða til samsvarandi lækkunar eignarskattsstofns með því að þá hefði borið að uppfæra þann hluta byggingarkostnaðar, sem greiddur var með nefndu ríkisframlagi. Að öllum atvikum virtum þykja þó hinar umdeildu breytingar skattstjóra hafa verið kæranlegar gjaldárið 1983, sbr. 99. og 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Margnefnt ríkisframlag mun vera lögbundið framlag úr ríkissjóði vegna húsabóta skv. II. kafla jarðræktarlaga nr. 79/1972. Er ríkissjóður skyldur til þátttöku í greiðslu kostnaðar vegna framkvæmda þeirra, sem lögin taka til að uppfylltum þar greindum skilyrðum. Verður að telja, að hér sé um óendurkræfan styrk að ræða, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þegar þetta er virt og þegar litið er til þess, hvers eðlis nefnd framlög eru, þykir vera rétt að færa kröfu til nefnds framlags á hendur ríkissjóði sem sérstakan eignarlið. Er fallist á kröfu hans um þetta atriði. Kærandi krefst þess í öðru lagi, að innstæður barna hans tveggja á viðskiptareikningi í Kaupfélagi verði taldar með viðskiptakröfum í efnahagsyfirliti vegna búrekstrar hans. Er um að ræða börn innan 16 ára aldurs. Búfjáreign barnanna hefur verið talin með búfjáreign kæranda í landbúnaðarskýrslu og afurðatekjur af þeirri búfjáreign taldar með tekjum hans í skýrslunni. Þátttaka barnanna í búrekstrinum var því eigi gerð sérstaklega upp í skattframtölum fyrir þau, en tekjur þeirra, sem hér um ræðir, svo og eignir teljast með tekjum og eignum foreldris, sbr. 6. gr., 65. og 82. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eins og atvikum er háttað í þessu tilviki þykir mega líta svo á, að umræddar inneignir tilheyri búrekstri kæranda. Er krafa hans því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja