Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 166/1992

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 9. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 97. gr. 2. mgr.  

Starfslokafrádráttur — Starfslok — Launatekjur — Fylgigögn skattframtals — Greinargerð um starfslokafrádrátt — Frádráttarheimild — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Tímamörk endurákvörðunar

I.

Málavextir eru þeir, að skattframtali kæranda árið 1987 fylgdi greinargerð og yfirlýsing vegna starfslokafrádráttar eiginkonu hans (R 3.08), sbr. 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 119/1984, um breyting á þeim lögum. Kom þar fram m.a. sú yfirlýsing eiginkonunnar, að hún hefði látið af störfum hinn 31. desember 1986 vegna aldurs. Var eiginkonu kæranda veittur starfslokafrádráttur gjaldárið 1987 492.607 kr. á grundvelli skjalsins. Á grundvelli þess ákvarðaði skattstjóri kæranda og 1.477.782 kr. sem starfslokafrádrátt við álagningu gjaldárið 1987.

II.

Í framhaldi af bréfum sínum, dags. 6. mars 1989 og 29. nóvember 1989, og að fengnum svarbréfum kæranda, dags. 13. mars 1989 og 8. desember 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda hinn 16. mars 1990, að áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1987 hefðu verið endurákvörðuð vegna niðurfellingar starfslokafrádráttar 1.477.782 kr. Vísaði skattstjóri til þess, að skattframtalinu hefði fylgt yfirlýsing og greinargerð vegna umrædds frádráttar. Í greinargerðinni hefðu verið tilgreind nöfn kæranda og eiginkonu hans en aðeins tekjur hennar komið fram. Vegna þessa ósamræmis hefði verið litið svo á, að verið væri að fara fram á umræddan frádrátt fyrir bæði hjónin og frádráttur kæranda því ákvarðaður 1.477.782 kr. í reit 36 í skattframtalinu. Þar sem komið hefði í ljós, að þessi frádráttur væri á misskilningi byggður væri hann felldur niður.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var endurákvörðun skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 22. mars 1990. Sagði svo í kærunni:

„Í greinargerð vegna frádráttar skv. 9. tl. A-liðs 1. mgr. laga nr. 75/1981 var eingöngu sótt um fyrir eiginkonu X eins og sjá má ef umsóknin er lesin. Það að umsóknin var merkt efst í vinstra horni eyðublaðsins átti eingöngu að vera skattstjóra til hægðarauka við að tengja eyðublaðið framteljendum. Ítrekað skal að á teknaframtali X var leiddur niður sá tekjuskattsstofn sem mátti byggja rétta álagningu á. Útfylling yðar í reit 36 á síðu 2 í framtalinu er því fyrir misskilning sem X er óviðkomandi. Reyndar kemur það fram í endurákvörðun yðar.

Áður hefur komið fram að atvik málsins og ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 eins og þau verða skilin í samhengi við 1. mgr. sömu greinar, koma í veg fyrir að þú hafir heimild til að endurákvarða opinber gjöld X vegna tekna á árinu 1986. Það er skilningur undirritaðs að það geti engum vafa verið undirorpið þegar komið er frammá árið 1990.

Endurákvörðun yðar er eingöngu grundvölluð á 96. gr. áður nefndra laga, en undirritaður er ósammála að hún gildi um þetta mál. Farið er frammá að endurákvörðunin verði felld niður á grundvelli ofanritaðs og fyrri bréfaskrifta.“

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 20. júlí 1990, og synjaði henni á svofelldum forsendum: „Með vísan til atvika og gagna máls þessa eins og þau liggja fyrir þykir eigi unnt að fallast á kröfur kæranda.“

III.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. ágúst 1990, og eru kröfur ítrekaðar um að hinni umdeildu endurákvörðun skattstjóra verði hnekkt.

IV.

Með bréfi, dags. 20. febrúar 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með vísan til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og skýringar og gögn kæranda er þess krafist að endurákvörðun skattstjóra verði felld úr gildi.“

V.

Hinn 16. mars 1990 endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1987 vegna hinnar umdeildu breytingar. Af hálfu kæranda er því haldið fram, að þessi endurákvörðun hafi verið skattstjóra óheimil, þar sem frestur sá, sem um ræðir í 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hafi verið liðinn, þegar endurákvörðunin fór fram, en ákvæði þetta taki til málsefnisins. Skattstjóri hefur litið svo á, að kærandi hafi, auk eiginkonu sinnar, sótt um starfslokafrádrátt í þeirri greinargerð, sem fyrir lá með skattframtalinu af hendi eiginkonunnar, og því eigi fallist á, að nefnt lagaákvæði tæki til tilviks kæranda. Gagn það, sem hér um ræðir, gat ekki gefið skattstjóra tilefni til þessarar ályktunar, enda varðaði það bersýnilega eingöngu umsókn eiginkonu kæranda og hafði aðeins að geyma upplýsingar um tekjur hennar og var undirritað af henni einni. Að svo vöxnu og með vísan til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu, er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja