Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 670/1984

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 7. gr., 53. gr. 3. mgr., 100. gr. 1. mgr.  

Skattskyldar tekjur — Landbúnaður — Teknategund — Akstur skólabarna — Verðbreytingarfærsla — Tvíþætt starfsemi — Stofn til verðbreytingarfærslu — Fyrnanleg eign — Kæra, síðbúin — Vítaleysisástæður — Verkfall

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 3. maí 1984, tilkynnti skattstjóri kæranda, að verðbreytingarfærsla hefði verið leiðrétt sökum þess, að bifreið teldist ekki með eignum við útreikning stofns til færslu þessarar. Þessari breytingu mótmælti kærandi með bréfi, dags. 1. júní 1984, og hélt því fram, að bifreiðina bæri að taka með við útreikning þennan við verðmæti sínu. Með úrskurði, dags. 13. september 1984, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til þess, að samkvæmt 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teldust fyrnanlegar eignir ekki til þeirra eigna, sem miða bæri útreikning tekna og gjalda vegna verðbreytingar við.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. október 1984. Kemur þar fram, að umrædda bifreið notar kærandi við akstur skólabarna. Ítrekar kærandi kröfu sína, að bifreiðina beri að taka með til eignar til ákvörðunar stofns fyrir verðbreytingarfærslu með sömu rökum og áður.

Með bréfi, dags. 6. desember 1984, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd.

Kæran er dagsett 5. október 1984 en skv. póststimpli er hún ekki póstlögð fyrr en 5. nóvember 1984 og móttekin sama dag hjá ríkisskattanefnd. Kæran telst því sannanlega of seint fram komin skv. ákvæðum 100. gr. laga nr. 75/1981.

Telji ríkisskattanefnd að taka eigi kæruna til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir ofangreindan meintan formgalla, er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.“

Hinn kærði úrskurður skattstjóra er dagsettur 13. september 1984 og póstlagður þann daga eftir því sem í úrskurðinum greinir. Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er kærufrestur til ríkisskattnefndar 30 dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra. Í byrjun októbermánaðar 1984 hófst verkfall opinberra starfsmanna, sem stóð yfir nær því til loka þess mánaðar. Verður kæranda eigi gefinn að sök dráttur sá, sem varð á því að kæran barst ríkisskattanefnd. Þykir frávísunarkrafa ríkisskattstjóra eigi styðjast við nein rök og er henni hrundið. Með skírskotun til ákvæða 3. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir bera að hafna kröfu kæranda um hið kærða atriði. Óhjákvæmilegt þykir að gera þá athugasemd við framtalsgerð kæranda, að eigi fær það staðist að færa tekjur og gjöld vegna akstur skólabarna á landbúnaðarskýrslu og gera þessa starfsemi upp með búrekstri kæranda. Telja verður, að kærandi hafi með höndum tvenns konar starfsemi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja