Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 18/1983
Gjaldár 1982
Lög nr. 75/1981, 1. gr., 7. gr. C-liður 2. tl., 70. gr. Lög nr. 35/1960, 1. gr., 10. gr.
Lögheimili — Heimilisfesti — Dvalartími — Námsmaður — Eignarskattsákvörðun — Húsaleigutekjur — Reiknaðar húsaleigutekjur — Námsfrádráttur — Frávísun — Kærufrestur — Málsmeðferð áfátt
Málavextir eru þeir, að kærendur skiluðu skattframtali árið 1982 í framtalsfresti það ár. Kærendur tóku fram í athugasemdadálki skattframtalsins, að þau æsktu þess, að skattalegt lögheimili yrði talið hér á landi. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 hagaði skattstjóri álagningu opinberra gjalda á eiginkonu eftir þeim reglum, sem greinir í 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e.a.s. svo sem hún hefði einungis verið heimilisföst hér á landi hluta tekjuársins 1981. Byggði skattstjóri við útreikning þennan á því, að dvalartími hér á landi hefði verið 8 mánuðir. Við álagningu var eiginkonu ákvarðaður eignarskattur af öllu eignarverði íbúðar og bifreiðar samkvæmt skattframtali að frádregnum skuldum, öðrum en skuldum við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þess þykir og rétt að geta, að stofn til sjúkratryggingagjalds var uppreiknaður eftir ákvæðum 70. gr. laga nr. 75/1981, er leiddi til þess, að eiginkonu var gert að greiða slíkt gjald sökum þessarar reikningsaðferðar. Álagningu á eiginmann var að formi til hagað eftir ákvæðum 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en byggt á 12 mánaða dvalartíma hér á landi í hans tilfelli, sem eigi fær staðist samkvæmt þeim forsendum, sem byggt er á í 70. gr. nefndra laga. Við ákvörðun tekjuskattsstofns er hins vegar veittur til frádráttar námsfrádráttur að fjárhæð 21.750 kr. í stað tilfærðs frádráttar í skattframtali 14.500 kr., sem miðaður var við 4 mánaða námstíma á árinu 1981. Með bréfi, dags. 28. júlí 1982, bætti skattstjóri 6.208 kr. við framtaldar tekjur eiginmanns samkvæmt ákvæðum 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 sem reiknaðar húsaleigutekjur af eignarhluta í fasteigninni við G-götu í Reykjavík, í 8 mánuði að því er best verður séð. Þá var við tekjuskattsálagningu á eiginmann fastur frádráttur ranglega ákvarðaður og sýnist hafa verið reiknaður af útsvarsstofni.
Af hálfu kærenda var þessari álagningu ekki unað og þess krafist í kæru, dags. 27. ágúst 1982, til skattstjóra, að þau yrðu skattlögð sem heimilisföst hér á landi. Í kæru kom fram, að eiginkona hefði unnið allt árið 1981 hér á landi og búið í nefndri íbúð kærenda að G-götu í Reykjavík. Þá var reiknuðum húsaleigutekjum af íbúð þessari mótmælt með vísan til 2. ml. 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. að ekki skuli reikna tekjur og gjöld af íbúðarhúsnæði, sem skattaðili notar til eigin þarfa. Þá var tekið fram, að eiginmaður hefði og búið í íbúðinni að undanteknum nokkrum mánuðum, sem hann hafi verið erlendis.
Með úrskurði, dags. 15. október 1982, vísaði skattstjóri kæru eiginmanns frá, sem of seint fram kominni. Kæran, sem dagsett væri þann 27. ágúst 1982, hefði borist 31. s.m. Kærufrestur hefði runnið út þann 28. ágúst 1982. Kæran væri því of seint fram komin og bæri að vísa henni frá.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. nóvember 1982. Þar er þess krafist sem áður, að skattar verði reiknaðir svo sem um heimilisfasta menn væri að ræða hér á landi allt árið 1981. Fram kemur, að kærendur hafa flust til Íslands frá Svíþjóð í janúar 1980. Lögheimili formlegt hafi þó áfram verið í Svíþjóð, þar sem eiginmaður hafi þurft að halda aftur utan í skamman tíma vegna náms. Formlega hafi lögheimili ekki verið flutt til Íslands, fyrr en árið 1982. Eiginmaður hafi verið 4 mánuði í Svíþjóð á árinu 1981 vegna náms. Eiginkona hafi hins vegar starfað allt árið 1981 hér á landi.
Með bréfi, dags. 14. desember 1982, er á það fallist af hálfu ríkisskattstjóra, að kærendum verði endurákvörðuð opinber gjöld gjaldárið 1982 svo sem þau hafi átt hér á landi skattalega heimilisfesti allt árið 1981.
Eftir atvikum er kæran tekin til efnisúrlausnar. Ýmsir hnökrar voru á álagningu þeirri, sem kærð hefur verið, sem að nokkru er rakið hér að framan, m.a. er eignarskattsálagning annmörkum haldin. Skattstjóri skattleggur eiginkonu af öllum eignum svo sem hún væri einn eigandi, sem þó verður ekki ráðið af gögnum málsins, og hagar álagningunni svo sem um takmarkaða skattskyldu væri að ræða. Allt að einu eru eiginmanni reiknaðar húsaleigutekjur af sömu eign allri. Ætlaðir dvalartímar sýnast hafa ruglast og tímabil reiknaðrar húsaleigu samræmist þeim ekki. Á því þykir bera að byggja, að kærendur séu skattskyldir samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem heimilisföst hérlendis allt árið 1981. Að því er varðar dvöl annars kærenda erlendis vegna náms 4 mánuði ársins 1981 þá ber að líta til þess, að eftir því sem upplýst er af hálfu kærenda, hafa þau verið lögheimilisskyld hérlendis allt árið 1981 skv. 1. gr. laga nr. 35/1960, um lögheimili, sbr. og 10. gr. sömu laga. Fella ber niður reiknaðar húsaleigutekjur, sbr. 2. ml. 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.