Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 29/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, l. gr., 3. gr. 5. tl., 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 70. gr., 100. gr. 2. mgr.   Lög nr. 35/1960, 10. gr.  

Lögheimili — Heimilisfesti — Skattskylda — Tvísköttunarsamningur — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Kæruheimild ríkisskattstjóra — Vaxtagjöld — Frávísun — Kærufrestur — íbúðarhúsnæði — Eigin not — íbúðarhús

Málavextir eru þeir, að í skattframtali kæranda árið 1982 var þess getið, að hann hefði starfað í Bandaríkjunum frá 1/1 1981 - 31/8 1981 og haft starfstekjur þar að fjárhæð 12.000 bandaríkjadalir. Kærandi hafði og launatekjur hér á landi á árinu 1981 svo og húsaleigutekjur vegna útleigu íbúðar. Kærandi átti lögheimili hér á landi. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 tók skattstjóri tillit til ákvæða gildandi tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna.

Með kæru, dags. 27. ágúst 1982, til skattstjóra var álagningunni mótmælt. Boðað var, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Með úrskurði, dags. 14. október 1982, vísaði skattstjóri kærunni frá sem vanreifaðri með því að rökstuðningur hafði ekki borist.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. nóvember 1982. Kærandi telur, að útreikningur skattstjóra á sköttum gjaldárið 1982 sé rangur. Kærandi hafi flust til Íslands í september 1981 og beri því að hluta til takmarkaða skattskyldu hér á landi. Álagningu þurfi því að skipta í tvennt, þ.e.a.s. annars vegar samkvæmt 5. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og hins vegar samkvæmt 70. gr. sömu laga.

Með bréfi, dags. 3. janúar 1983, hefur ríkisskattstjóri lagt fram kröfugerð sína í málinu. Telur ríkisskattstjóri, að kærandi sé skattskyldur hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, allt árið 1981. Teljist hann því bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra er aflað og af öllum eignum sínum hvar sem þær eru. Sé kærandi því skattskyldur hér á landi af tekjum sínum, er hann aflaði í Bandaríkjunum á árinu 1981. Við þá skattlagningu sýnist skattstjóri hafa gætt ákvæða samnings milli Íslands og Bandaríkjanna um að komast hjá tvísköttun. Krefst ríkisskattstjóri því staðfestingar á álagningaraðferð skattstjóra. Ríkisskattstjóri gerir þá athugasemd við álagningu skattstjóra, að hann telur, að vaxtagjöld þau, sem skattstjóri heimilaði til frádráttar, uppfylli ekki skilyrði fyrir frádráttarbærni samkvæmt 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hér sé ekki um að ræða vaxtagjöld af skuldum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota svo sem áskilið sé í nefndri lagagrein. Kærandi hafi samkvæmt málsgögnum eignast íbúð að R-götu í Reykjavík, þann 29. apríl 1980 og frá þeim tíma sýnist íbúðin hafa verið leigð út. Íbúðaröflunin verði því ekki talin til eigin afnota kæranda sjálfs. Séu skilyrði frádráttarins því ekki uppfyllt.

Samkvæmt málsgögnum hefur kærandi starfað um skeið í Bandaríkjunum í framhaldi af námi sínu þar, m.a. það tímabil ársins 1981, sem að framan greinir. Lögheimili hefur kærandi átt hér á landi. Með skírskotun til kröfugerðar ríkisskattstjóra, sbr. og ákvæði lögheimilislaga nr. 35/1960, þykir bera að byggja á því, að kærandi hafi borið ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem heimilisfastur hérlendis allt árið 1981. Er því álagning skattstjóra staðfest, enda engar tölulegar athugasemdir gerðar við hana. Kröfu ríkisskattstjóra um leiðréttingu álagningar vegna ætlaðra offærðra vaxtagjalda til frádráttar þykir bera að vísa frá. Sá þáttur er eigi til kærumeðferðar og eigi verður talið, að hér sé verið að neyta heimildar 2. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til þess að skjóta úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar innan þar greindra tímamarka, enda fjallar úrskurður skattstjóra eigi um téð álitaefni, en lýtur einvörðungu að frávísun, sbr. að framan.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja