Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 44/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr., 59. gr. 1. mgr.  

Reiknað endurgjald — Vinnuvélarekstur — Sambýlisfólk

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 16. júní 1982, krafði skattstjóri kæranda um skýringar á tilfærðu reiknuðu endurgjaldi vegna vinnu við eigin atvinnurekstur, er skattstjóri áleit lægri en launatekjur kæranda hefðu orðið, ef hann hefði unnið starfið hjá óskyldum eða ótengdum aðila. Svarfrestur var ákveðinn 10 dagar. Svar barst ekki og með bréfi, dags. 28. júlí 1982, tilkynnti skattstjóri kæranda, að tilfært reiknað endurgjald hefði verið hækkað úr 10.197 kr. í 45.496 kr. með vísan til ákvæða 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ákvörðun skattstjóra takmarkaðist af lokamálslið 1. mgr. 59. gr. nefndra laga og myndaðist tap við ákvörðun hans að fjárhæð 35.299 kr., sem nam samanlögðum, gjaldfærðum almennum fyrningum. Rekstur kæranda var vélaleiga og auk eigin reiknaðs endurgjalds var sambýliskonu kæranda reiknað endurgjald í skattframtali vegna vinnu við reksturinn að fjárhæð 36.000 kr. en þau töldu fram og voru skattlögð eftir þeim reglum, sem gilda um hjón. Í bréfi sínu, dags. 16. júní 1982, tekur skattstjóri og fram, að tilfærðar launatekjur frá V. hf. 65.000 kr. séu tekjur vegna starfa í þágu „tengds aðila“ og virðist skattstjóri líta svo á, að þær tekjur svo og nefnt reiknað endurgjald vegna starfa við vélaleiguna beri að skoða í heild sinni sem reiknað endurgjald.

Framangreind hækkun reiknaðs endurgjalds var kærð af hálfu kæranda með bréfi, dags. 28. ágúst 1982. Boðað var, að greinargerð yrði send síðar. Með úrskurði, dags. þann 13. október 1982, synjaði skattstjóri kærunni, þar sem rökstuðningur væri ekki tilgreindur.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, ódags., en móttekinni þann 3. nóvember 1982. Er þess krafist, að hækkun skattstjóra á tilfærðu reiknuðu endurgjaldi vegna starfa við vélaleigu verði niður felld. Árið 1981 hafi kærandi starfað meira og minna við hlutafélagið V., sem hann hafi verið meðeigandi að. Því hafi ekki reynst unnt að sinna eigin fyrirtæki sem skyldi. Hafi sambýliskona tekið á sig aukna vinnu við fyrirtækið.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi, dags. 30. nóvember 1982, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Telja verði ákvörðun kæranda á eigin launum óeðlilega lága, þegar tillit sé tekið til umfangs rekstrarins. Þá sé augljóst, að kærandi ákvarði eigin laun miðað við niðurstöðu rekstrarreiknings, en ekki miðað við vinnuframlag og þykir það benda til þess að launin séu vanákvörðuð.

Þegar litið er til umfangs þess rekstrar, sem hér um ræðir, tilfærðs reiknaðs endurgjalds samanlagðs gjaldárið 1982 við reksturinn svo og reiknaðs endurgjalds alls við reksturinn gjaldárið 1982, en umfang hans hefur síður en svo dregist saman milli áranna, þá þykja eigi vera komin fram þau rök af hálfu kæranda, að efni séu til þess að hagga ákvörðun skattstjóra. Er hin kærða ákvörðun skattstjóra því staðfest.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja