Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 47/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 73/1980, 37.gr.  

Tilboðsverk — Aðstöðugjaldsstofn

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts á tilskildum tíma árið 1982. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Skattframtal kæranda barst skattstjóra að loknum framtalsfresti. Er það dagsett þann 12. júlí 1982.

Skattstjóri tók skattframtalið til úrskurðar sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Var skattframtalið óbreytt lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar án álags að því undanskildu, að gjaldstofn til aðstöðugjalds var hækkaður um 410.368 kr. frá því sem tilgreint var í greinargerð kæranda um aðstöðugjaldsstofn og fylgdi skattframtali hans. Samkvæmt framtalsgögnum var hér um að ræða tilboðsverk í Síldarverksmiðjunni í Krossanesi.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. október 1982. Þess er krafist aðallega, að fellt verði niður aðstöðugjald vegna þess tilboðsverks, sem fyrr greinir. Til vara er þess krafist, að aðstöðugjald það, sem af tilboðsverkinu reiknast komi til frádráttar í ársreikningi og tekjuskattsstofn verði ákvarðaður í samræmi við það eftir að varasjóðstillag hefur verið leiðrétt. Af hálfu kæranda eru kröfurnar rökstuddar með því, að félagið hafi einungis átt að vera umsjónaraðili varðandi tilboð, sem nokkrir hluthafar félagsins gerðu í uppsetningu á stjórnbúnaði í Síldarverksmiðjuna í Krossanesi. Eftir að tilboðið hefði verið lagt fram hefðu komið fram athugasemdir frá framkvæmdastjóra Síldarverksmiðjunnar þess efnis, að óhentugt væri, að samningsaðilar (verksalar) væru svo margir. Hafi hann farið þess á leit, að tilboðsgjafar fyndu sér einhvern þann, sem gæti komið fram fyrir þeirra hönd, er þeir gætu sæst á. Þetta hafi verið gert og í endanlegri tilboðsgerð hafi samningsaðilar því eingöngu verið R. hf. og Krossanesverksmiðjan. Hér hafi því eingöngu verið um fyrirgreiðslu við verkkaupa að ræða. Í ársreikningi kæranda fyrir árið 1981 hafi rekstrarreikningur svonefnds Krossanestilboðs verið birtur hluthöfum til upplýsinga.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 3. janúar 1983:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Efniskaup kæranda og annar kostnaður vegna Krossanestilboðs verður að teljast aðstöðugjaldsskyldur rekstrarkostnaður hjá kæranda með hliðsjón af framlögðum ársreikningi kæranda fyrir árið 1981.“

Hagnaður vegna tilboðsverks þess, sem í málinu greinir, er tekjufærður í ársreikningi kæranda fyrir árið 1981 og skattframtali hans árið 1982. Með vísan til þess og framtalsgagna kæranda að öðru leyti þykja eigi fram komin næg rök af hálfu kæranda til þess að fella úr stofni til aðstöðugjalds þá kostnaðarþætti nefnds tilboðsverks, sem skattstjóri lagði á. Hins vegar er fallist á varakröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja