Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 61/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 76. gr. 1. mgr., 80. gr.  

Eignarskattsstofn — Skilnaðarskilmálar — Endurgjaldslaus afnot — Verðbætur

Í kæru til skattstjóra, dags. 5. ágúst 1982, fór kærandi fram á, að álagður eignarskattur gjaldárið 1982 yrði lækkaður eða felldur niður á þeim forsendum, að fyrrverandi eiginkona kæranda hefði ásamt börnum þeirra endurgjaldslaus afnot af íbúð kæranda í tvö ár samkvæmt skilnaðarskilmálum. Með úrskurði, dags. 26. október 1982, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda, þar sem ekki væri fyrir hendi lagaheimild til þess að verða við henni. Ekki yrði annað ráðið en kærandi væri eigandi að 88% í íbúð að E-götu, Reykjavík, og með vísan til 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri kröfu kæranda synjað.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 23. nóvember 1982, kemur fram af hálfu kæranda til viðbótar fyrri rökum, að láðst hafi að taka tillit til áfallinna verðbóta af tilteknum skuldum, sem aðeins hafi verið tilfærðar á nafnverði í skattframtali árið 1982. Áhvílandi skuldir hafi verið 23.000 kr. hærri pr. 31/12 1981, en tilgreint hafi verið í skattframtalinu. Er þess óskað, að tekið verði tillit til þessa.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi, dags. 20. janúar 1983, að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd, þar sem kærandi hafi enga grein gert fyrir forsendum krafna sinna. Þætti kæran af þeim sökum vanreifuð.

Eigi er að finna lagaheimild til þess að lækka eignarskattsstofn kæranda nema um þá hækkun skulda vegna vanreiknaðra verðbóta, sem fram kemur í kæru og eigi þykir ástæða til þess að vefengja, að hafi á fallið.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja