Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 62/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. C-liður 3. tl., 95. gr. 1. mgr. , 101. gr. 1. mgr., 116. gr.  

Námsfrádráttur — Nám — Matsreglur ríkisskattstjóra — Starfsreglur ríkisskattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Sönnun — Námskeið — Nám, óreglulegt — Myndlistaskóli — Leiðbeiningar ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar í skattframtali sínu árið 1982 námsfrádrátt vegna 3 mánaða náms við Myndlistarskólann í Reykjavík að fjárhæð 5.438 kr. Með skattframtalinu fylgdi vottorð skólans, dags. 5. febrúar 1982, þess efnis, að kærandi hefði stundað nám við skólann samtals 212 stundir á árinu 1981. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 sýnist skattstjóri hafa lækkað tilfærðan námsfrádrátt í 3.695 kr. Ekki liggur fyrir, að kæranda hafi verið tilkynnt um breytinguna. Með bréfi, dags. 5. ágúst 1982, kærði kærandi breytinguna til skattstjóra. Krafðist kærandi þess, að skattframtalið yrði óbreytt lagt til grundvallar álagningu. Reglulegt nám hefði verið stundað við Myndlistarskólann í Reykjavík og fjöldi námstíma verið 212 svo sem að framan greinir auk 15 fyrirlestra á námsárinu. Samkvæmt leiðbeiningum ríkisskattstjóra framtalsárið 1982 teldust 104 námstímar jafngilda heilum mánuði og brot úr mánuði jafngilda heilum mánuði. Því hefði við framtalsgerð námstíminn talinn 3 mánuðir og frádráttur færður í samræmi við það.

Með úrskurði, dags. 26. október 1982, hafnaði skattstjóri kærunni með vísan til 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 25. nóvember 1982. Vísar kærandi til rökstuðnings í kæru til skattstjóra.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 20. janúar1983:

„Að kæru kæranda verði synjað og álögð gjöld látin standa óbreytt.

Á árinu 1981 virðist kærandi ekki hafa stundað reglulegt nám heldur sótt námskeið í fáeinum greinum í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra er að finna reglu um ákvörðun námsfrádráttar þegar viðkomandi stundar óreglulegt nám eða námskeið og teljast skv. þeirri reglu 624 tímar samsvara 6 mánaða námi. Námsfrádráttur kæranda ákvarðast því kr. 10.875 x 212/624 eða kr. 3.695 eins og skattstjóri ákvarðaði réttilega.

Telji ríkisskattanefnd að leggja skuli til grundvallar mánaðafjölda viðkomandi náms er á það bent að kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn varðandi tímalengd námsins.“

Breyting sú, sem kærð hefur verið, var gerð við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982. Af málsgögnum verður helst ráðið, að breytingin hafi verið gerð á grundvelli 2. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem hvorki hafði verið gerð fyrirspurn út af hinum kærða frádráttarlið né tilkynnt um breytinguna. Þessi málsmeðferð fær eigi staðist. Þá reglu um tímafjölda, sem um getur í málinu, er að finna í leiðbeiningum ríkisskattstjóra við útfyllingu skattframtals einstaklinga árið 1982, en hvorki í lögum né reglugerðum, settum með stoð í lögum. Í téðri leiðbeiningarreglu fyrir framtalsútfyllingu er brot úr mánuði látið jafngilda heilum mánuði við ákvörðun námsfrádráttar svo sem kærandi bendir réttilega á. Þar er hins vegar sett sú regla um það nám, sem kallað er „óreglulegt nám eða námskeið“, að það skal reiknað í kennslustundafjölda á tekjuári og skal þá 6 mánaða nám samsvara 624 kennslustundum. Segir ekki hvernig fara skuli með brot úr mánuði að þessu leyti, en ekki er einsýnt, að nákvæmur reikningur hverrar kennslustundar í þeim tilfellum til frádráttarbærrar fjárhæðar geti talist eðlilegt verklag í þessum efnum.

Að öllu framangreindu virtu þykir bera að taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja