Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 71/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 73/1980, 23. gr. 4. mgr., 27. gr. 1. mgr.   Lög nr. 67/1971, II. kafli, IV. kafli  

Útsvarsstofn — Ellilífeyrir — Örorkulífeyrir — Eftirlaun — Lífeyrir — Ívilnun — Sveitarstjórn — Valdsvið ríkisskattanefndar — Málsmeðferð — Lögskýring

Kærð er álagning útsvars gjaldárið 1982. Tekjur kæranda samkvæmt skattframtali árið 1982 voru almennur ellilífeyrir og eftirlaun frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 var lagt útsvar á síðastnefnda tekjuliðinn. Þá útsvarsálagningu kærði kærandi til skattstjóra með bréfi, dags. 30. ágúst 1982 og taldi, að með þeirri álagningu væri verið að leggja á tekjur, sem kæmu í stað tekjutryggingar og heimilisuppbótar frá Tryggingastofnun ríkisins. Skattstjóri vísaði kærunni frá með úrskurði, dags. 26. október 1982, sem of seint fram kominni, þar sem kærufrestur hefði runnið út þann 28. ágúst 1982.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. nóvember 1982. Eru þar ítrekaðar fyrri kröfur og röksemdir.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur og athugasemdir með bréfi, dags. 4. febrúar 1983:

„Í bréfi kæranda til skattstjórans í Reykjavík, dags. 30. ágúst sl., var farið þess á leit að álagt útsvar yrði lækkað eða fellt niður en kæranda var ekki gert að greiða tekjuskatt.

Rétt hefði verið að vísa fyrrgreindri beiðni kæranda til borgaryfirvalda á grundvelli 27. gr. laga nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga í stað þess að kveða upp kæruúrskurð skv. 99. gr. skattalaga.

Efnislega verður kæra kæranda eigi borin undir ríkisskattanefnd þar sem það er eigi á valdsviði hennar að fjalla um ívilnunarbeiðnir. Þykir því verða að krefjast frávísunar kærunnar en rétt væri að vekja athygli kæranda á rétti hans skv. áður greindri lagagrein.“

Eftir atvikum þykir mega taka kæruna til efnisúrlausnar. Krafa kæranda sýnist byggjast á því, að sú lögákveðna lækkun útsvarstekna, sem greinir í 4. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, nái til þeirra eftirlaunagreiðslna frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem í málinu greinir. Á það er eigi unnt að fallast, enda er frádráttur sá frá útsvarsskyldum tekjum, sem getið er í nefndu lagaákvæði, bundinn við elli- og örorkulífeyri samkvæmt II. og IV. kafla laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Rétt þykir svo sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra að vekja athygli kæranda á þeirri heimild, sem hlutaðeigandi sveitarstjórn hefur samkvæmt l.mgr. 27. gr. laga nr. 73/1980 til þess að veita frekari lækkun útsvars en skattstjóri ákvað. Um slíkar lækkanir á ríkisskattanefnd ekki úrskurðarvald og ber að snúa sér til hlutaðeigandi sveitarstjórnar með beiðni um slíkt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja