Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 72/1983
Gjaldár 1982
Lög nr. 73/1980, 23. gr. 4. mgr., 27. gr. 1. mgr. Lög nr. 67/1971, 10. gr., 12. gr. 2. mgr., II. kafli, IV. kafli
Útsvarsstofn — Örorkustyrkur — Örorkulífeyrir — Ellilífeyrir — Lögskýring — Tryggingastofnun ríkisins — Sönnun
Málavextir eru þeir, að kærandi fékk greiddan örorkustyrk frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 1981 samkvæmt lögum um almannatryggingar. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 var útsvar lagt á þennan tekjulið. Því var mótmælt af hálfu umboðsmanns kæranda í kæru, dags. 24. ágúst 1982, til skattstjóra. Með úrskurði, dags. 8. nóvember 1982, synjaði skattstjóri kærunni á þeim forsendum, að umrædd greiðsla hefði verið örorkustyrkur en ekki örorkubætur. Örorkustyrkur væri útsvarsskyldar tekjur samkvæmt 23. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga og félli ekki undir undanþáguheimild 4. mgr. 23. gr. laganna.
Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. nóvember 1982. Er þess krafist, að örorkustyrkur verði felldur undan útsvarsálagningu, þar sem svo verði að skilja 4. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1980, að undanþáguheimild frá útsvarsskyldu nái til örorkustyrks, sem getið er í 2. mgr. 12. gr. II. kafla laga nr. 67/1971, um almannatryggingar með síðari breytingum. Telur kærandi, að hugtökin elli- og örorkulífeyrir nái yfir allar þær greiðslur, sem tengdar séu þessum málaflokkum og greiddar séu samkvæmt ákvæðum í II. og IV. kafla laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Er í þessu efni vísað til skilgreiningar á hugtakinu lífeyristryggingar í 10. gr. nefndra laga, en annar kafli laganna fjalli um lífeyristryggingar. Heimildarákvæði til greiðslu örorkustyrks sé að finna í 12. gr. Því verði að álykta af orðalagi 10. gr., að örorkustyrkur teljist til örorkulífeyris að því er varðar túlkun á því orði í 4. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1980.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 20. janúar 1983:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Í 4. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga er að finna heimild til að draga frá útsvarsskyldum tekjum manna elli- og örorkulífeyri skv. II. og IV. kafla laga nr. 67/1971 um almannatryggingar með síðari breytingum. Tilgreining ákvæðisins á elli- og örorkulífeyri þykir bera að skýra svo að heimildin taki einungis til þeirra bóta því annars hefði tilgreiningin verið óþörf. Hér er um undanþáguheimild að ræða er skýra ber skv. þröngri lögskýringu.
Á það skal bent að í 2. ml. 1. mgr. 27. gr. sömu laga er mælt fyrir um heimild til handa sveitarfélögum til að lækka álögð útsvör þeirra er nutu bóta skv. II. og IV. kafla laga nr. 67/ 1971.
Við samanburð á þessum tveimur ákvæðum má ljóst vera að löggjafinn hefur gert greinarmun á því hvort menn nutu almennt bóta skv. II. og IV. kafla eða einungis elli- og örorkulífeyris skv. sömu köflum.
Örorkustyrkur kæranda verður skv. framangreindu ekki talinn falla undir undanþáguheimild 4. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1980 þar sem hann telst ekki skv. skilyrði almannatryggingalaga vera örorkulífeyrir.“
Kærandi fékk örorkustyrk á grundvelli heimildarákvæðis 2. mgr. 12. gr. laga nr. 67/ 1971, um almannatryggingar. Telja verður, að sá lögákveðni frádráttur frá útsvarsskyldum tekjum, sem kveðið er á um í 4. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, taki einungis til þeirra tegunda bóta, sem þar eru tilgreindar, samkvæmt orðanna hljóðan, þ.e.a.s. elli- og örorkulífeyris. Þykir þessi skýring styðjast m.a. við samanburð téðs ákvæðis 23. gr. og 2. ml. 1. mgr. 27. gr. nefndra laga svo sem fram kemur og í kröfugerð ríkisskattstjóra. Samkvæmt þessu fellur örorkustyrkur utan þess skyldubundna frádráttar, sem hér um ræðir. Verður því að hafna kröfu kæranda á þessum grundvelli. Rétt þykir að geta þess, að í málinu er óupplýst af hvaða ástæðum kæranda var greiddur örorkustyrkur, svo sem hvort greiðslan hafi verið vegna sérstaks aukakostnaðar, sem af örorku leiðir, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, er kynni að hafa áhrif á skattlagninguna almennt.