Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 73/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 7.gr. A-liður 1. tl., 7. gr. C-liður 9. tl., 28. gr. 4. tl., 30. gr. 2. mgr., 95. gr., 96. gr.  

Eigin vinna — Sumarbústaður — Frádráttarbærni — Fastur frádráttur — Byggingarkostnaður

Málavextir eru þeir, að með skattframtali kæranda árið 1982 fylgdi húsbyggingarskýrsla vegna byggingarframkvæmda við sumarbústað á árinu 1981. Meðal kostnaðarliða á skýrslu þessari var eigin aukavinna við byggingu bústaðarins. Var þessi vinna talin 250 stundir og hver vinnustund metin á 28 kr. Alls nam verðmæti þessarar vinnu samkvæmt skýrslu kæranda 7.000 kr. Ekki var sú vinna tekjufærð í skattframtali. Með bréfi, dags. 26. júlí 1982, tilkynnti skattstjóri kæranda, að skattskyld eigin vinna samkvæmt húsbyggingarskýrslu að fjárhæð 7.000 kr. hefði verið færð til tekna í reit 77 í skattframtali. Í kæru, dags. 24. ágúst 1982, var þessari tekjufærslu mótmælt af hálfu kæranda. Taldi hann, að hvergi væri gert ráð fyrir því í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að skattleggja bæri aukavinnu sem þessa. Hér væri um að ræða aukavinnu, sem kærandi ásamt eiginkonu sinni legði fram við byggingu sumarbústaðar utan venjulegs vinnutíma, enda væri fullum vinnutíma skilað við hið eiginlega starf ásamt eðlilegum árstekjum af því.

Þann 6. október 1982 tók skattstjóri kæruna til úrskurðar. Hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með skírskotun til 9. tl. 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 3. nóvember 1982. Er breytingu þeirri, sem skattstjóri gerði á skattframtalinu mótmælt. Kærandi ber í fyrsta lagi fyrir sig, að meðferð skattstjóra hafi verið annmörkum haldin, þar sem honum hefði borið að gæta ákvæða 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og gefa kæranda kost á því að gefa skýringar og gæta hagsmuna sinna, áður en skattframtalinu var breytt, t.a.m. að upplýsa, hvort um kostnað vegna öflunar teknanna hefði verið að ræða. Í öðru lagi telur kærandi, að ekki sé hér um skattskyldar tekjur að ræða fremur en um ýmsa aðra eigin vinnu, s.s. vinnu við byggingu bílskúra, garðvinnu, sbr. 4. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Verði á hvoruga fyrrnefndra málsástæðna fallist fyrir niðurfellingu tekjuviðbótarinnar þá er þess krafist, að leyfður verði til frádráttar beinn útlagður kostnaður, s.s. akstur (Kópavogur - Snorrastaðir, Laugardalshreppi) u.þ.b. 200 km x 2,35 x a.m.k. 12 ferðir eða aksturskostnaður alls 5.640 kr. Ennfremur 1.425 kr. sem verkfærapeningar. Þá ber kærandi fyrir síg, að almennt sé sá tekjupóstur, sem hér sé um að tefla, ekki talinn fram og almennt ekki gerðar við það athugasemdir.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. þann 30. nóvember 1982:

„Eigi er að finna í skattalögum né öðrum lögum ákvæði er undanþiggur eigin vinnu við sumarbústaði skattskyldu en ákvæði 4. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981 á einungis við um vinnu við íbúðarhúsnæði til eigin nota. Ríkisskattstjóri getur ekki séð að krafa kæranda um frádrátt vegna útlagðs kostnaðar eigi sér lagastoð.

Að virtu framangreindu er krafist staðfestingar hins kærða úrskurðar.“

Skattstjóri fór með hina kærðu breytingu eftir ákvæðum 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eins og á stóð verður eigi talið, að sú málsmeðferð eigi að leiða til þess, að hin kærða breyting verði ómerkt. Eigi er fallist á, að skattfrelsi eigin vinnu við byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin afnota samkvæmt 4. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, taki til vinnu við sumarbústað. Er kröfum kæranda um niðurfellingu hinnar kærðu tekjuviðbótar því hafnað. Aksturs- og verkfærakostnaður, slíkur sem kærandi telur sig hafa orðið fyrir og krefst frádráttar á móti tekjufærðri eigin vinnu, verður að teljast hluti kostnaðarverðs byggingarinnar. Verður því eigi talið, að þessir kostnaðarliðir fremur en aðrir þættir byggingarkostnaðar geti komið til frádráttar eigin vinnu með þeim hætti, sem krafist er af hálfu kæranda.

Í 7. gr. nefndra laga er eigi sérstaklega getið um tekjulið þann, sem mál þetta snýst um, en honum þykir helst mega jafna til þeirra tekna sem upp eru taldar í 1. tl. A-liðs 7. gr. laganna. Ber kæranda því frádráttur sá sem um getur í 2. mgr. 30. gr. vegna tekjuliðar þessa.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja