Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 75/1983
Gjaldár 1982
Reglugerð nr. 406/1978, 8. gr. 1. tl. Lög nr. 75/1981, 74. gr. 1. tl., 79.gr. Lög nr. 19/1982, 1. og 3. gr. Lög nr. 94/1976, 17. gr.
Lóðarréttindi — Lóðarleigusamningur — Fasteignamatsverð — Afgjaldskvaðarverðmæti — Eignarskattsstofn — Sérstakur eignarskattur
Málavextir eru þeir, að kærandi færði sér til eignar í skattframtali sínu árið 1982 fasteignamatsverð húseignar að S-götu, Akureyri, en ekki matsverð þeirrar lóðar, sem húsið stendur á að frádregnu afgjaldskvaðarverðmæti. Um leigulóð var að tefla. Í athugasemdadálki skattframtalsins voru greindar ástæður fyrir þessu. Þar sagði, að bæjarsjóður Akureyrar teldi, að húseignin hefði ekki lengur tilskilin lóðaréttindi og hefði lóðin verið tekin út úr fasteignamati af hálfu bæjarins og lóðarleiga því ekki innheimt. Hafi því talið vera rétt að færa ekki til eignar í skattframtali nein leigulóðarréttindi.
Skattstjóri féllst ekki á þessi sjónarmið. Það virtist liggja fyrir, að kærandi hefði haft á árinu 1981 afnot af lóðinni, húseign hans staðið á henni og af húseigninni hefði kærandi haft tekjur sínar. Væri því fasteignamatsverð leigulóðarinnar tekið inn í eignarskattsstofn og stofn fyrir sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.
Úrskurði skattstjóra hefur verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. nóvember 1982. Í bréfi, dags. 22. nóvember 1982, barst rökstuðningur kæranda. Segir kærandi, að Akureyrarbær hafi á árinu 1980 afturkallað lóðarleigusamning um lóð þá, sem húseign félagsins stendur á og hafi gert félaginu að fjarlægja húsið af lóðinni með stuttum fyrirvara. Húsið hafi ekki enn verið fjarlægt. Vart sé hægt að ætla, að í raun sé nokkurt verðmæti í húseigninni fólgið, þar sem það sé lóðarréttindalaust. Þá væri til þess að líta, að væri lóðin talin til eignar, leiddi það af sér, að ekkert afgjaldskvaðarverðmæti væri hægt að reikna af matsverðinu, sem þýddi með tilliti til eignarskattsstofns, að félagið ætti að vera betur statt án lóðarleigusamnings, þar sem skattskyld eign þess væri hærri en verið hefði, ef leigusamningur hefði enn verið fyrir hendi. Þess er krafist aðallega, að fasteignamati leigulóðar verði sleppt í téðum skattstofnum. Til vara er þess krafist, að heimilaður verði frádráttur frá fasteignamatsverði leigulóðarinnar 30% svo sem um venjulega leigulóð væri að ræða. Til þrautavara er þess krafist, að tekið verði tillit til þess, að hluti lóðarinnar hafi um árabil verið notaður sem almenningsbílastæði. Lóðin sé að flatarmáli 384 m2 en húseignin aðeins 250 m2.
Með bréfi, dags. 3. janúar 1983, er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Samkvæmt rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1981, sem fylgt hafi skattframtali hans árið 1982, hafi kærandi haft húsaleigutekjur af þeirri fasteign, sem um væri deilt í málinu. Verði eigi annað séð en kæranda beri að færa eignina til eignar í skattframtali á fasteignamatsverði, meðan hún sé til staðar. Virðist því ákvörðun skattstjóra á eignarskattsstofni og stofni til sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði vera rétt. Þá telur ríkisskattstjóri, að ekki sé sjáanlegt, að fyrir hendi sé lagaheimild til þess að fallast á varakröfur kæranda.
Óvefengt er, að húseign kæranda hafi eigi lengur nauðsynleg lóðarréttindi og hafi verið án slíkra réttinda í árslok 1981, sbr. 79. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Gátu lóðarréttindi, sem þannig voru brott fallin, eigi skapað kæranda skattskylda eign í skattframtali hans árið 1982 samkvæmt 1. tl. 74. gr. nefndra laga. Er aðalkrafa kæranda um lækkun eignarskattsstofns því tekin til greina. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 19/1982, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, skulu eigendur þeirra fasteigna, sem nýttar eru við verslunarrekstur eða til skrifstofuhalds á árinu 1982 greiða sérstakan eignarskatt til ríkissjóðs. Samkvæmt 3. gr. laga þessara skal stofn til hins sérstaka eignarskatts vera fasteignamatsverð í árslok 1981 á þeirri fasteign, sem nýtt er við verslunarrekstur eða til skrifstofuhalds ásamt tilheyrandi lóð, enda þótt um leigulóð sé að ræða, þó að frádregnu afgjaldskvaðarverðmæti leigulóðar, sem telja skal sem stofn hjá eiganda hennar. Skattskyldan hvíli samkvæmt þessu á eiganda fasteignar með þeirri undantekningu einni að fasteignamatsverð leigulóðar myndar skattstofn hjá leigutaka að frádregnu afgjaldskvaðarverðmæti. Kærandi er hvorki eigandi nefndrar lóðar né rétthafi samkvæmt lóðarleigusamningi. Getur lóðin því eigi myndað stofn til sérstaks eignarskatts hjá honum, sbr. 1. og 3. gr. laga nr. 19/1982. Er aðalkrafa kæranda því tekin til greina.
Þess þykir rétt að geta, að eigi verður séð af gögnum málsins, að fasteignamatsverð húseignarinnar hafi verið endurskoðað í ljósi breyttra atvika, sem hljóta að orka á ákvörðun þess, sbr. 17. gr. laga nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna, og 1. tl. 8. gr. reglugerðar nr. 406/1978, um fasteignaskráningu og fasteignamat. Að svo stöddu verður þó við úrlausn málsins byggt á fasteignamatsverði 1. 12. 1981, sem fyrir liggur í málsgögnum. Samkvæmt framansögðu er fallist á aðalkröfu kæranda.