Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 78/1983
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 16. gr., 20. gr., 26. gr., 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 91. gr.
Gróðaskyn — Atvinnurekstur — Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis — Verðbreyting — Framreikningur — Byggingarstarfsemi — Ársreikningur — Sönnun — Verktakagreiðslur — Vaxtagjöld — Hámarksfjárhæð vaxtafrádráttar — Málsmeðferð skattstjóra — Lögskýring — Meginregla laga — Greinargerð með lagafrumvarpi — Tengsl eldri laga og yngri
Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram á tilskildum tíma árið 1981 og sættu því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum til álagningar opinberra gjalda það ár. Með kæru, dags. 29. ágúst 1981, sendi umboðsmaður kærenda skattframtal þeirra árið 1981 til skattstjóra með þeirri beiðni, að skattframtalið yrði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar áður. Með úrskurði, dags. 29. desember 1981, hafnaði skattstjóri framtalinu og hækkaði jafnframt gjaldstofna eiginmanns með hliðsjón af innsendum gögnum um verulega fjárhæð. Hækkuðu útsvars- og tekjuskattsstofnar úr 10.000.000 kr. í 40.125.074 kr. Byggði skattstjóri ákvörðun sína á því, að með hliðsjón af skattframtali árið 1981 og skattframtölum fyrri ára þætti ljóst af umfangi húsbygginga kæranda, að um atvinnurekstur væri að ræða, sem falli undir 20. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. eigna hafi verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði. Hagnaður af umræddri starfsemi teldist ávallt að fullu til skattskyldra tekna á söluári án tillits til verðbreytinga, sbr. 26. gr. laganna. Kærendur byggju hjá foreldrum eiginmanns, en hefðu síðan 1976 staðið í húsbyggingum. Árið 1976 hefði bygging íbúðar í fjölbýlishúsi við S-götu, Reykjavík, verið hafin. Íbúð þessi hafi verið seld þann 25. mars 1980 án þess að kærendur hefðu nokkru sinni búið í íbúðinni. Þá hefðu kærendur hafið byggingu raðhúss að H-götu, Reykjavík, á árinu 1979 og húsið orðið fokhelt í árslok 1979 og tilbúið undir tréverk ári síðar. Jafnframt hafi kærendur á árinu 1980 ráðist í framkvæmdir við byggingu einbýlishúss að D-götu, Reykjavík, og það uppsteypt að hluta í árslok. Megi því ljóst vera að kærendur hafi ekki verið að byggja húsnæði til eigin nota heldur í þeim tilgangi að selja síðar með hagnaði. Hefði kærendum því borið í samræmi við ákvæði 91. gr. laga nr. 75/1981 að senda með skattframtali efnahags- og rekstrarreikning ásamt lögboðnum fylgiskjölum. Þá tekur skattstjóri fram, að kærandi, H. hafi samkvæmt launamiðum fengið verktakagreiðslur að fjárhæð 13.440.477 kr. Þær tekjur kæmu hins vegar hvergi fram í skattframtali. Þá gerði skattstjóri athugasemd við það, að skattframtalið væri óundirritað af eiginkonu.
Í skattframtali sínu árið 1981, sbr. og fylgiskjal með því um kaup og sölu eigna, gerðu kærendur grein fyrir sölu íbúðar að S-götu, Reykjavík. Söluverð að frádregnum sölukostnaði nam 35.750.000 kr. Framreiknað stofnverð nam 22.396.510 kr. Söluhagnaður var þannig talinn 13.353.490 kr. í greinargerð þessari. Var söluhagnaðurinn færður til lækkunar á stofnverði raðhúss í smíðum að H-götu, Reykjavík, sbr. húsbyggingarskýrslu, sem skattframtalinu fylgdi. Þá fylgdi skattframtalinu húsbyggingarskýrsla vegna byggingar einbýlishúss að D-götu, Reykjavík.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 25. janúar 1982. Með kæru fylgdi staðfesting eiginkonu á skattframtalinu. Af hálfu kærenda er málsmeðferð skattstjóra mótmælt, og við það gerð athugasemd, að ekki skyldi neinna upplýsinga vera aflað hjá kærendum, áður en jafn afdrifarík ákvörðun um skattlagningu var tekin. f kærunni er að finna svofelldan rökstuðning:
„1. Húsbyggingar umbjóðenda minna: Fullyrðingu skattstjóra að húsbyggingar umbjóðenda minna falli undir atvinnurekstur og því undir ákvæði 20. gr. laga nr. 75/1981, þar sem þeirra sé aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði, vísa ég algjörlega frá. Umbjóðendur mínir keyptu á árinu 1975 íbúð í fjölbýlishúsinu nr. 22 við S-götu í Reykjavík, sem þá var tilbúin undir tréverk. Bygging íbúðarinnar að S-götu 22 var eingöngu hugsuð í þeim tilgangi að eignast þak yfir höfuðið, eins og aðrir, og eina mögulega íbúðargerðin og stærðin með tilliti til getu og tekna umbjóðenda minna á þeim tíma. Hins vegar stóð hugur umbjóðenda minna alltaf í aðra átt, en þá, að búa í íbúð í fjölbýlishúsi. Því sóttu umbjóðendur mínir um lóð fyrir einbýlis- eða raðhúsi löngu áður en íbúðin að S-götu, var íbúðarhæf. Í febrúar 1978 fengu umbjóðendur mínir síðan úthlutað raðhúsalóðinni að H-götu, R.vík. Ástæður þess að umbjóðendur mínir fluttu aldrei í íbúð sína að S-götu, voru einmitt þær, að þegar íbúðin varð íbúðarhæf, höfðu þau þegar fengið úthlutað lóð undir raðhús að H-götu, R.vík, eins og áður segir. Og þar sem aðstæður umbjóðenda minna voru óvenju góðar, þar sem þau höfðu til umráða íbúð hjá foreldrum H. að B-götu, R.vík, án endurgjalds, og gátu fengið að vera þar svo lengi sem þeim hentaði. Með tilliti til þessa, svo og með því að selja íbúðina að S-götu, var þeim kleift að ráðast strax í byggingarframkvæmdir að nýju.
Af úrskurði skattstjóra má sjá að hann telur umbjóðendur mína aldrei hafa búið í þeim íbúðum er þau hafa byggt. Ef skattstjóri hefði hins vegar kynnt sér málin betur, eins og áður segir, áður en hann feldi (sic) úrskurð sinn, hefði hann komist að þeirri niðurstöðu, að umbjóðendur mínir höfðu búið í raðhúsinu að H-götu allt síðan í ársbyrjun 1981.
Það skal einnig tekið fram varðandi búsetu umbjóðenda minna að B-götu, að þar sem H. starfaði við rekstur föður síns, og hafði að mestu leyti á eigin hendi stjórnun hans, þótti það að ýmsu leyti hentugra að H. hefði aðsetur í sama húsi og faðir hans.
Þegar umbjóðendum mínum var síðan boðið að kaupa byrjunarframkvæmdir að einbýlishúsinu D-götu í R.vík, tóku þau boðinu, þar sem hér var draumahúsið loksins komið.
Er þetta ekki einmitt sú leið sem fólk hefur farið og ungu fólki hefur verið ráðlagt að fara, byrja smátt, en fitja sig síðan smá saman yfir í stærra, eftir því sem efni og aðstæður leyfa hverju sinni. Hjá umbjóðendum mínum hefur þetta, ef til vill, gengið fyrr fyrir sig, einfaldlega af þeim sökum, að aðstæður þeirra voru óvenju góðar, svo sem frí íbúð, þekking á byggingarframkvæmdum vegna starfa sinna við slíkar framkvæmdir, svo og hjálp og aðstoð venslafólks.
Mér er spurn? Hve margir hafa ekki farið þessa leið, og fengið söluhagnað af slíkum framkvæmdum skattlagðan samkv. 16. gr. laga nr. 75/1981. Ef umbjóðandi minn á að sæta skattlagningu samkv. 20. gr. laga nr. 75/1981, væri hér um gróflega mismunun að ræða.
2. Verktakagreiðslur að upphæð g.kr. 13.440.477.
Hvað varðar innsenda launamiða, á umbjóðanda minn H. fyrir verktakastarfsemi, að upphæð kr. 13.440.477, vil ég uppvísa eftirfarandi. Faðir H., K.J. , rafvirkjameistari, B-götu, R.vík, hefur um árabil haft á hendi verktakastarfsemi í rafvirkjun. Þar sem hann hefur jafnframt haft á hendi fast launað starf hjá B hefur stjórnun og rekstur starfseminnar að mjög miklu leyti lent á umbjóðanda mínum, sem er launaður starfsmaður föður síns. Þar sem umbjóðandi minn hefur að verulegu leyti, eins og áður segir, haft með höndum samskipti við viðskiptavini fyrirtækisins, undirritað innborgana kvittanir fyrir greiðslum inná verk o.fl., hafa þau mistök átt sér stað í einhverjum tilfella, að viðkomandi aðilar hafa af mistökum gefið upp greiðslur fyrir verkin á nafn umbjóðenda míns, í stað föður hans. Þessu til skýringa fylgir sundurliðun yfir rekstrartekjur K.J., á árinu 1980, þar sem nöfn og tekjutölur fyrrnefndra aðila hljóta að koma fram. Allur rekstrarkostnaður, svo og laun umbjóðanda míns og annarra starfsmanna vegna nefndra verka eru færð í rekstrarreikningi föður umbjóðanda míns. Ef þetta reynist ekki fullnægjandi, er ég fús að leita til viðkomandi aðila með skriflega staðfestingu og skýringu þeirra á þessum mistökum, ef þér óskið þess.“
Með bréfi, dags. 16. ágúst 1982, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:
„Krafist er staðfestingar á þeirri ákvörðun skattstjóra að telja húsbyggingarstarfsemi kæranda atvinnurekstur.
Telja verður með vísan til umfangs téðrar starfsemi að tilgangur með öflun eigna kæranda hafi verið að selja þær aftur með hagnaði.
Með vísan til skýringa kæranda varðandi nefndar greiðslur í nafni hans er fallist á nokkra lækkun á áætlun skattstjóra á gjaldstofnum kæranda.“
Hækkun skattstjóra á áður ákvarðaðri áætlun opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1981 í kæruúrskurði á þann hátt, sem í málinu greinir, þykir eigi hafa verið rétt svo sem á stóð. Þá kemur eigi fram af hálfu skattstjóra á hvaða forsendum tekjuframtali eiginkonu er hafnað. Áætlunarfjárhæð þá, sem skattstjóri gerði eiginmanni í kæruúrskurði, hefur hann sniðið við það, að söluhagnaður vegna seldrar íbúðar næmi mismuni söluverðs og kostnaðarverðs án þess að tekið væri tillit til verðbreytinga við ákvörðun stofnverðs. Eigi verður 20. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skilin eða skýrð svo, að til þess geti komið, að horft verði fram hjá þeim áhrifum, sem almennar verðbreytingar hafa, enda er slík meðferð alveg andstæð meginstefnu nefndra laga. Af úrskurði skattstjóra verður helst ráðið, að hann telji byggingarstarfsemi þá, sem í málinu greinir, til atvinnurekstrar, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu, enda verður eigi talið, að gróðaskynsregla, sem ýjað er að, hafi verið innleidd með 20. gr. laga nr. 40/1978, sbr. nú lög nr. 75/1981, að því er ráða má af athugasemdum við þá grein í frumvarpi til hinna fyrrnefndu laga. Skattstjóri víkur að því, að borið hefði að láta ársreikning fylgja skattframtali, sbr. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fram kemur í málinu, að framkvæmdir við byggingar hafi byrjað á árinu 1976. Miðað við nefndar forsendur skattstjóra var því óhjákvæmilegt til þess að leiða fram óbrenglaðar niðurstöður að gefa kærendum kost á því að gera upp byggingarstarfsemi sína frá upphafi svo sem um atvinnurekstur væri að ræða. Þess var eigi gætt. Af hálfu kærenda er því haldið fram, að þær íbúðarbyggingar, sem í málinu greinir, falli undir þær reglur, sem settar eru í 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt og með söluhagnað þann, sem um getur í málinu og fram kemur skv. þeirri uppgjörsaðferð, sem kærandi valdi beri að fara eftir þeirri lagagrein. Þegar atvik málsins eru virt, þykir mega á það sjónarmið fallast, enda verður eigi annað séð, en þeirra skilyrða sé gætt, sem 16. gr. nefndra laga setur. Þá er fallist á skýringar kæranda varðandi verktakagreiðslu, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra um þann þátt málsins. Eftir þessu verða kröfur kæranda teknar til greina, að því undanskildu, að vaxtagjöld til frádráttar eru leiðrétt, þar sem þau eru færð til frádráttar umfram lögleyft hámark. (Sjá til samanburðar úrskurð fógetaréttar Kópavogs í máli Innheimtumanns ríkissjóðs í Kópavogi gegn Guðmundi Jónssyni).