Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 168/1992
Gjaldár 1989
Lög nr. 94/1976 — 17. gr. Lög nr. 75/1981 — 28. gr. 1. tl. — 58. gr. 2. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. Lög nr. 83/1984 Reglugerð nr. 406/1978 — 8. gr.
Fasteign — Jarðarsala — Sala bújarðar — Bújörð — Kaupsamningur — Óvenjuleg skipti í fjármálum — Fjármálaskipti, óvenjuleg — Söluverð — Kaupverð — Kaupverð, óeðlilegt — Söluverð, óeðlilegt — Óeðlilegt kaupverð — Óeðlilegt söluverð — Matsverð — Matsverð skattstjóra — Tekjuauki — Skattskyldar tekjur — Tekjuauki vegna óeðlilega lágs kaupverðs — Fasteignamatsverð — Rannsóknarregla — Andmælareglan — Arfur — Erfingi — Arfleifandi — Erfðafjárskattur — Erfðafjárskýrsla — Eignaauki — Eignaauki vegna arftöku — Eignaauki, skattfrjáls — Skattfrjáls eignaauki — Skattfrelsi — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Málsmeðferð áfátt
I.
Málavextir eru þeir, að í fylgiskjali með skattframtali sínu árið 1989 gerði kærandi grein fyrir kaupum sínum á jörðinni X af systkinum sínum. Kom þar fram, að hann hefði keypt jörð þessa hinn 1. janúar 1988 fyrir 768.000 kr. er greiddist á kaupári.
Með bréfi, dags. 14. desember 1989, boðaði skattstjóri kæranda tekjufærslu og skattlagningu á 768.000 kr. er væri 50% fasteignamatsverðs jarðarinnar að X. Tók skattstjóri fram, að söluverð hefði verið 768.000 kr. en söluverð undir fasteignamatsverði teldist óeðlilega lágt söluverð. Vísaði skattstjóri til þess, að samkvæmt 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, gætu skattyfirvöld metið, hvað telja skyldi eðlilegt kaup- eða söluverð, ef um óeðlilega lágt söluverð væri að ræða. Mismun kaupverðs eða söluverðs annars vegar og matsverðs hins vegar skyldi telja til skattskyldra tekna hjá þeim aðila, sem slíkra viðskipta nyti. Ekki barst svar við bréfi þessu og hinn 26. janúar 1990 tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinnar boðuðu breytingar og endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1989 vegna tekjufærslu á 768.000 kr. er væri sá hluti kaupverðs, sem vantaði upp á, svo að kaupverð gæti talist eðlilegt.
Af hálfu kæranda var fyrrgreindri tekjufærslu mótmælt í kæru, dags. 21. febrúar 1990, og boðað, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Í bréfi, dags. 22. mars 1990, var vísað til þess, að kærandi hefði í skattframtali árið 1988 gert grein fyrir arftöku eftir foreldra sína og greiðslu erfðafjárskatts af þeim arfi. Bréfinu fylgdi erfðafjárskýrsla, dags. 22. nóvember 1987, þar sem fram kemur, að jörðin X gekk í arf til kæranda og systkina hans og var kærandi einn af sjö erfingjum. Var af hálfu kæranda vísað til þess, að búið væri að greiða erfðafjárskatt af öllu fasteignamatsverði jarðarinnar.
Með kæruúrskurði, dags. 27. apríl 1990, tók skattstjóri kæruna til úrlausnar. Í úrskurðinum segir svo m.a.: „Samkvæmt erfðafjárskýrslu dagsettri 22.11.87 fenguð þér í arf sjöunda hluta umræddrar jarðar en systkini yðar fengu 6/7 hluta. Þér greidduð því aðeins erfðafjárskatt af 1/7 hluta jarðarinnar. Með kaupsamningi 01.01. 1988 keyptuð þér síðan 6/7 hluta jarðarinnar á verði sem samkvæmt samningi var 3/7 hlutar fasteignamats hennar 01.12.86. Í raun var verðið þó lægra þar sem hluti kaupverðsins er að þér takið að yður greiðslu erfðafjárskatts af yðar arfshluta í jörðinni, en þann skatt bar yður að greiða óháð kaupunum.“ Þá tók skattstjóri fram, að samkvæmt 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981 hefðu kæranda verið færðar til tekna 768.000 kr. er hefði verið mismunur kaupverðs samkvæmt kaupsamningi og fasteignamats hins keypta hluta 1. desember 1986. Hafnaði skattstjóri kröfu kæranda um niðurfellingu skattlagningarinnar.
II.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. maí 1990. Er þess krafist, að fyrrnefnd tekjuhækkun skattstjóra 768.000 kr. verði felld niður. Um málavexti og málsástæður segir svo í kærunni:
„Málavextir eru þeir, að þann 22. nóv. 1987, fékk umbjóðandi minn ásamt 6 systkinum sínum í arf jörðina X, eftir föður þeirra, sem lést þann 19. sept. 1985.
Með kaupsamningi dags. 1. jan. 1988 selja umrædd 6 systkini umbjóðanda mínum eignarhluta sinn (6/7) í jörðinni á sem svarar 1/2 fasteignamatsverði eða kr. 768.000.00.
Frá andláti föður þeirra árið 1985 bjó bróðir þeirra á jörðinni um tveggja ára skeið, en brá svo búi og flutti búferlum.
Þar sem það var metnaðarmál þeirra systkina að reyna að halda umræddri jörð í byggð og þau gerðu sér fulla grein fyrir því, að jörðin myndi eigi seljast á frjálsum markaði bæði vegna legu sinnar og ríkjandi kreppu í búskaparmálum, kom það til tals, að umbjóðandi minn fengi jörðina til eignar og ábúðar endurgjaldslaust, af hann vildi halda þar áfram búskap. Umbjóðandi minn taldi hinsvegar óeðlilegt, að hann fengi jörðina afhenta til eignar á greindum kjörum, og varð því að samkomulagi milli þeirra systkina, að söluverðið yrði sem svarar 1/2 fasteignamatsverð jarðarinnar.
Eins og að framan greinir telur skattstjóri, að umbjóðandi minn hafi með þessum hætti fengið jörðina afhenta til eignar á óeðlilega lágu verði, og beri því að færa honum til tekna mismun kaupverðs og matsverðs (fasteignamatsverðs) með vísun til ákvæða 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt.
Þótt skattyfirvöld hafi yfirleitt haft fasteignamatsverð sem lágmarksviðmiðun í tilfellum sem þessum, verður að líta svo á, að upp geti komið afbrigðileg tilvik, þar sem víkja verði frá þessari viðmiðun.
Í máli umbjóðanda míns er staðan sú, að greind jörð hefði aldrei selst á frjálsum markaði, hvað þá fyrir fasteignamatsverð, bæði vegna staðsetningar og ríkjandi ástands í búskaparmálum. Ef umbjóðandi minn hefði eigi fengið jörðina keypta á viðunandi verði, hefði hún farið í eyði til mikils ama fyrir þau systkini.
Með hliðsjón af framangreindum málavöxtum verður eigi séð, að umbjóðandi minn hafi með kaupum þessum fengið jörðina afhenta á óeðlilega lágu verði, sem réttlætt geti skattlagningu skv. ákvæðum 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarsk.“
Kærunni fylgdi umsögn héraðsráðunauts Búnaðarsambands Y, dags. 22. maí 1990, um jörðina X, aðstæðum til búskapar þar, ástandi mannvirkja og söluhorfum jarðarinnar hvort heldur er til búskapar eða annarra nota. Rétt þykir að taka umsögn þessa hér upp:
„X er fremsti bær í A-dal. Bærinn er í um 24 km fjarlægð frá B sem er næsti verslunarstaður og tæpa 70 km frá D, en þar eru mjólkursamlag og sláturhús staðsett.
Samgöngur eru góðar að sumri, en geta orðið mjög erfiðar yfir veturinn sökum snjóþyngsla.
Frá búskaparlegu sjónarmiði er jörðin mjög erfið. Hún liggur hátt yfir sjó, eða um 225 m. Gróður er oft seinn til að vori, getur verið allt að mánuði á eftir því sem gerist innar í Y. Þetta kemur niður á heyfeng, bæði hvað varðar magn og gæði. Oft er mjög erfitt til heyskapar þegar líða tekur á sumarið vegna styttri sólargangs og rigningaskúra sem tíðum leggur niður í dalbotnana á þeim tíma. S.l. sumur hefur heyfengur á jörðinni ekki verið nema ríflega helmingur þess magns sem túnstærðin gefur tilefni til.
Byggingar í X eru í misjöfnu ásigkomulagi. Íbúðarhúsið þarf mikilla lagfæringa við eigi það að teljast góð vistarvera. Fjós og hlaða eru ágætar byggingar, en fjárhús eru ónýt.
Ljóst er af framangreindri lýsingu, að jörð þessi myndi tæplega seljast til búskapar á almennum markaði. Vegna legu sinnar gefur hún heldur ekki mikla möguleika á annarri nýtingu.“
III.
Með bréfi, dags. 30. maí 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
IV.
Skattstjóri hefur byggt skattlagningu hins umdeilda tekjuauka hjá kæranda á því, að hann hafi notið þeirra viðskipta að kaupa 6/7 hluta nefndrar jarðar af systkinum sínum á óeðlilega lágu verði og sé mismunur kaupverðsins og þess verðs, sem skattstjóri hefur talið eðlilegt kaupverð, skattskyldur hjá kæranda, sbr. 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Við mat sitt hefur skattstjóri byggt á fasteignamatsverði jarðarinnar, er tók gildi 1. desember 1986. Í bréfi sínu, dags. 14. desember 1989, boðaði skattstjóri kæranda þegar skattlagningu hins umdeilda tekjuauka 768.000 kr. á þeirri forsendu, að söluverð undir fasteignamatsverði teldist óeðlilega lágt söluverð. Í framhaldi af bréfi þessu endurákvarðaði skattstjóri síðan áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1989 hinn 26. janúar 1990 vegna skattlagningar nefnds tekjuauka. Eins og mál þetta var vaxið verður ekki talið, að þær upplýsingar og gögn hafi legið fyrir skattstjóra að grundvöllur hafi verið til þess að boða kæranda skattlagningu tekjuaukans þegar í bréfi, dags. 14. desember 1989, og skrá fjárhæð hans þar. Verður ekki séð, að skattstjóri hafi aflað neinna gagna um hina seldu eign eða sölu hennar, s.s. kaupsamnings, áður en hann hófst handa um skattlagningu hins umdeilda tekjuauka. Að þessu virtu og þegar litið er til þess, sem fram er komið af hálfu kæranda í málinu um ætlað verðmæti nefndrar jarðar, þar á meðal umsagnar héraðsráðunauts Búnaðarsambands Y, dags. 22. maí 1990, þykir eigi nægilega traustur grunnur hafa verið lagður undir skattlagningu tekjuauka hjá kæranda á grundvelli 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er hinni kærðu tekjuhækkun skattstjóra því hnekkt og krafa kæranda tekin til greina.