Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 82/1983
Gjaldár 1982
Lög nr. 75/1981, 59. gr.
Reiknað endurgjald — Búsifjar — Landbúnaður
Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1982 að hækka þar tilfært reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin búrekstur um 17.900 kr. eða úr 43.000 kr. í 60.900 kr. Er þess krafist að breyting þessi verði felld úr gildi. Kröfu sinni til stuðnings bendir kærandi á að hann hafi orðið fyrir verulegum búsifjum vegna júgurbólgu í kúm og heilsu sinni sé þannig varið að hann geti ekki sinnt bústörfum með eðlilegum hætti.
Með bréfi, dags. 4. febrúar 1983, fellst ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda á kröfu kæranda.
Fallist er á kröfu kæranda.