Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 86/1983
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tl. 1. mgr.
Rekstrarkostnaður — Ferðakostnaður — Sönnun
Málavextir eru þeir, að skattstjóri lækkaði gjaldfærðan ferðakostnað í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1980. Kærandi, sem er sameignarfélag, mótmælir breytingum og í kæru til ríkisskattanefndar er gerð svofelld grein fyrir kæruatriðum og hinum umdeilda gjaldalið:
„Umbjóðandi minn, B. s.f., nr. 0000-0000, hefur boðið mér að kæra úrskurð skattstjórans í Vestmannaeyjum á ferðakostnaði í ársreikningi félagsins 1980 (skattframtal 1981), en þar lækkar skattstjórinn þennan kostnað úr 3.407.579 gkr. í 1.000.000 gkr. Til rökstuðnings kröfunni skal vitnað í skýringar vorar til skattstjórans, dags. 12. janúar 1982:
„5. Ferðakostnaður 3.407.579 gkr. er vegna ferðar eigenda fjögurra á sýninguna „World Fishing“, sem var í Kaupmannahöfn og lagt var í 2. júní 1980. Þarna var um allsherjar sjávarútvegssýningu að ræða, tækjabúnað, veiðarfæri o.s.frv. Þá var ferð þessi notuð til þess að skreppa til Hirtshals og skoða þar meðhöndlun veiðarfæra og jafnframt skroppið í heimsókn til Noregs, þ.e. umbjóðanda B. s.f. Ferðin til Kaupmannahafnar var hópferð aðila í sjávarútvegi og var seld á afsláttarverði.„ Til viðbótar skal geta þess, að talið var nauðsynlegt að sérfræðingar, bæði fiskimaður og netamenn, færu þessa ferð til þess að hún nýttist til fullnustu.“
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu með bréfi, dags. 30. nóvember 1982, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Umræddur ferðakostnaður geti ekki að fullu talist rekstrarkostnaður í skilningi 31. gr. skattalaga. Hefði því verið rétt að skerða þennan gjaldalið í ársreikningi kæranda.
Þegar litið er til umfangs rekstrar kæranda, þykja eigi efni til þess að hagga ákvörðun skattstjóra, enda þykja eigi fram komnar af hálfu kæranda fullnægjandi skýringar á tengslum alls hins umdeilda kostnaðar við teknaöflun félagsins.