Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 92/1983

Gjaldár 1981 og 1982

Lög nr. 46/1980, 77. gr.   Lög nr. 67/1971, 20. gr., 36. gr.   Lög nr. 14/1965  

Atvinnurekendagjöld — Lífeyristryggingargjald — Slysatryggingariðgjald — Vinnueftirlitsgjald — Ökutækjastyrkur — Kjarasamningar — Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar — Stofn til atvinnurekendagjalda

Kærð er álagning launaskatts, lífeyristryggingagjalds, slysatryggingariðgjalds og vinnueftirlitsgjalds gjaldárin 1981 og 1982.

Í kæru sinni til ríkisskattanefndar, dags. 15. febrúar 1982, er gerð svofelld grein fyrir kröfum að því er varðar gjaldárið 1981:

„Í kærubréfi til skattstjóra dags. 23. október s.l. var farið fram á lækkun álagðs launaskatts og launatengdra gjalda en ferðapeningar voru innifaldir í stofni til álagningar þessara gjalda. Svar skattstjóra barst í bréfi dags. 28. janúar. Í bréfi þessu var kröfu kæranda hafnað án þess að ástæður væru skilgreindar nákvæmlega.

Eins og fram kemur í tilvitnuðu bréfi til skattstjóra eru umræddar greiðslur til starfsmanns Hótel A. hf. endurgjald fyrir akstur í þágu hótelsins. Þess vegna sé hér um ökutækjastyrk að ræða sem verður vart talinn viðtakanda til hagsbóta að teknu tilliti til ákvæða 3. og 4. töluliðs A-liðs 30. gr. núgildandi skattalaga. Til viðbótar áður gefnum upplýsingum skal á það bent, að greiðslur þessar eru samkvæmt kjarasamningum greiddar því starfsfólki sem fer frá og til vinnu á þeim tímum sólarhringsins þar sem um strætisvagnaferðir er ekki að ræða. Miðað er við að greiðslur þessar nemi mismuni fargjalds með leigubíl og með strætisvagni.

Af áður greindum ástæðum er sú krafa gerð, að stofn til álagningar launaskatts og launatengdra gjalda 1981 verði lækkaður um fjárhæð sem nemur greiddum ferðapeningum.“

Í kæru, dags. 21. desember 1982, vegna álagningu sömu gjalda gjaldárið 1982 er um sama ágreiningsefni að ræða og haldið fram sömu kröfum og rökum af hálfu kæranda og fram koma í kæru vegna gjaldársins 1981.

Með bréfi, dags. 4. febrúar 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur fyrir hönd gjaldkrefjenda í tilefni af kærum kæranda: „Fallist er á kröfu kæranda að svo miklu leyti sem um bifreiðakostnað er að ræða.“

Fallist er á það með kæranda að hinar umdeildu greiðslur séu endurgreiddur kostnaður kæranda til starfsmanna hans og myndi ekki stofna til hinna kærðu gjalda. Svo sem gögn málsins liggja fyrir þykir mega byggja stofn gjaldanna á þeim upplýsingum, sem fram koma í rekstrarreikningi hans fyrir árin 1980 og 1981 svo og á yfirliti um launagreiðslur 1980 og 1981, sem er fylgiskjal með skattframtölum kæranda árin 1981 og 1982.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja