Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 99/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 66. gr., 80. gr. 2. mgr.   Lög nr. 73/1980, 23. gr., 27. gr.   Lög nr. 19/1982  

Ívilnun — Sérstakur eignarskattur — Eignarskattur — Valdsvið ríkisskattanefndar — Lagaheimild — Frávísun — Málsmeðferð skattstjóra — Leiðbeining ríkisskattanefndar

Málavextir eru þeir, að í kæru til skattstjóra, dags. 27. ágúst 1982, var farið fram á ívilnun í sköttum vegna lítils greiðsluþols auk þess sem álagning sérstaks skatts á verslunar-og skrifstofuhúsnæði var kærð. A kæranda hafði sá skattur verið lagður vegna húseignar að G-götu, Reykjavík. Auk þess bar kærandi eignarskatt og útsvar, en ekki tekjuskatt. Var vísað til þess, að kærandi væri öryrki og hefði engar vinnutekjur.

Með úrskurði, dags. 2. nóvember 1982, synjaði skattstjóri ívilnunarbeiðninni á þeim forsendum, að kærandi bæri ekki tekjuskatt. Varðandi sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði þá tók skattstjóri fram, að engin skrá vegna álagningar þess skatts hefði borist, en gjaldstofn hefði verið ákveðinn 26,9% af fasteignamati G-götu, R. Ekki væru færð fram rök fyrir því, að álagningin væri röng og í lögum nr. 19/1982 væri ekki að finna ákvæði, sem heimiluðu lækkun eða niðurfellingu á hinum sérstaka eignarskatti.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. desember 1982, og eru áður framkomnar kröfur ítrekaðar.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Af kærunni verður helst ráðið að um sé að ræða beiðni um lækkun á álögðum eignarskatti og álögðum sérstökum skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.

Álagning sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði byggir á áætlun skattstjóra þar sem kærandi skilaði ekki sérstakri skrá vegna skattsins. Álagning er byggð á sömu forsendum og álagning skattsins árið áður en þá skilaði kærandi fyrrgreindri skrá.

Í lögum þeim er álagning skatts er grundvölluð á er ekki að finna heimild til handa skattyfirvöldum til lækkunar á álögðum skatti vegna þeirra sjónarmiða er fram koma í kæru umboðsmanns kæranda.

Ríkisskattstjóri krefst því staðfestingar á úrskurði skattstjóra varðandi þennan þátt málsins.

Ríkisskattstjóri krefst frávísunar á þeim lið kærunnar er varðar beiðni um lækkun annarra álagðra gjalda þar sem það hefur ekki verið talið falla undir verksvið ríkisskattanefndar að veita skattþegnum lækkun á álögðum gjöldum með vísan til sjónarmiða 66. gr. laga nr. 75/1981.“

Af hálfu kæranda er því eigi haldið fram, að hinn sérstaki skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sé ranglega á lagður, heldur sýnist um að ræða ívilnunarbeiðni á þeim skatti vegna skerts gjaldþols. Í lögum nr. 19/1982, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, eru engin ákvæði um lækkun hans vegna ástæðna, sem hér eru fram bornar. Skortir því lagaheimild til þess að verða við kröfu kæranda og þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra að því er þetta kæruatriði varðar. Skattstjóri hefur eigi veitt kæranda neina lækkun á eignarskattsstofni, sbr. 2. mgr. 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en um slíka lækkun var í upphafi sótt, sbr. umsókn kæranda, dags. 2. apríl 1982. Kærandi ber eigi tekjuskatt. Svo sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra fjallar ríkisskattanefnd eigi um beiðnir um ívilnanir samkvæmt 66. gr. og 2. mgr. 80. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, og útsvari samkvæmt 23. og 27. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Ber að snúa sér til skattstjóra og ríkisskattstjóra og eftir atvikum hlutaðeigandi sveitarstjórnar með slíkar beiðnir. Er þessu kæruatriði því vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja