Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 102/1983
Gjaldár 1982
Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 99. gr.
Vaxtagjöld — Frádráttarbær vaxtagjöld — Málsmeðferð áfátt — Rökstuðningi úrskurðar áfátt — íbúðarlán — Skattframtal, ófullnægjandi — Vefenging skattframtals
Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts á tilskildum tíma árið 1982. Skattstjóri áætlaði þeim því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Umboðsmaður kærenda kærði álagninguna með bréfi, dags. 25. ágúst 1982, og boðaði, að nánari rökstuðningur yrði sendur síðar. Barst skattframtal kærenda til skattstjóra þann 14. september 1982. Með úrskurði, dags. 2. nóvember 1982, hafnaði skattstjóri að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu. Skattframtalið, sem væri óundirritað, gæti ekki talist fullnægjandi grundvöllur álagningar.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 22. nóvember 1982. Tekið er fram, að bætt hafi verið úr þeim ágöllum, sem verið hafi á skattframtalinu og því sé nú ekkert til fyrirstöðu, að skattframtalið verði tekið til álagningar.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 20. janúar 1983:
„Fallist er á að innsent framtal verði tekið til efnismeðferðar.
Þess er krafist að við ákvörðun gjalda verði kærendum ekki ákvarðaður vaxtafrádráttur þar sem ekki verður séð að um sé að ræða skuldir er tengjast öflun á eigin íbúðarhúsnæði en til téðra skulda virðist hafa verið stofnað að nokkru áður en kærendur gerðu samning við Byggung sf.
Þá þykja kærendur hafa gert ófullnægjandi grein fyrir fyrrgreindum íbúðarkaupum þar sem ekkert verður séð á hvaða stigi téð bygging er en byggingar er ekki getið á eignaframtali kærenda.
Sýnist þannig eigi uppfyllt skilyrði 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 um vaxtafrádrátt.“
Þá athugasemd verður að gera við úrskurð skattstjóra, sem í málinu greinir, að hann getur eigi talist rökstuddur svo sem boðið er í 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem óljóst er, hvaða annmarka skattstjóri telur vera á innsendu skattframtali, en vart verður ætlað, að skattstjóri byggi höfnun sína á vanundirritun skattframtalsins einni sér án þess að kærendum hafi áður gefist kostur á að bæta úr þeim ágalla. Samkvæmt framtalsgögnum seldu kærendur íbúð síðla árs 1981. Tilfærð vaxtagjöld til frádráttar í skattframtali stafa að meginstofni til af eldri lánum. Að þessu virtu svo og með hliðsjón af málavöxtum að öðru leyti þykir eigi ástæða til þess að telja að færð hafi verið til frádráttar ófrádráttarbær vaxtagjöld svo sem ríkisskattstjóri álítur í kröfugerð sinni. Samkvæmt þessu þykir bera að fallast á kröfur kærenda og er innsent skattframtal þeirra lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar áður.