Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 106/1983
Gjaldár 1982
Reglugerð nr. 145/1982, 8. gr. Reglugerð nr. 119/1965, 6. og 9. gr. Lög nr. 75/1981, 59. gr. 1. mgr. Lög nr. 14/1965, 2. gr.
Atvinnurekendagjöld — Launaskattur — Launaskattsstofn — Reiknað endurgjald — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Vinna við eigin atvinnurekstur
Kærð er „álagning“ launatengdra gjalda gjaldárið 1982. Í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir kröfum:
„Skv. innsendu launaframtali 1982 námu launagreiðslur umbjóðanda míns árið 1981 samtals 59.503,94 kr. Reiknuð eigin laun voru metin í rekstrarreikningi 36.000,00 kr., sem síðan lækkaði í 15.240,00 kr. vegna skerðingarákvæða lokamálsliðs 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981 (sbr. einnig bréf skattstofunnar dags. 26. júlí 1982 til umbjóðanda míns).
Skv. ofanskráðu er því ljóst, að umrædd atvinnurekstrargjöld umbjóðanda míns eru of hátt álögð og er því ítrekuð krafa umbjóðenda míns frá 09. ágúst 1982.“
Með bréfi, dags. 12. nóvember 1982, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfugerð í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Launaskattur aðila með sjálfstæðan atvinnurekstur ákvarðast án tillits til rekstrarafkomu hlutaðeigandi starfsemi og ákvarðast því launaskattsstofn óháð skerðingarákvæðum 59. gr. laga nr. 75/1981.“
Með vísan til þess sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra og m.a. 2. gr. laga nr. 14/ 1965 um launaskatt sbr. 6. og 9. gr. reglugerðar nr. 119/1965 um launaskatt, er ekki fallist á kröfur kæranda. Rétt þykir að taka fram að lokamálsliður 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt bindur hendur skattstjóra við ákvörðun á reiknuðu endurgjaldi að öðrum skilyrðum greinarinnar uppfylltum en ekki skattaðilans sjálfs.
(Sjá nú hins vegar reglugerð 145/1982, 8. gr.).