Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 111/1983
Gjaldár 1980
Lög nr. 75/1981, ákvæði til bráðabirgða VII.
Gengistap, gjaldfærsla eftirstöðva — Sameignarfélag — Tengsl eldri laga og yngri
Kærð er sú breyting skattstjóra á rekstrarreikningi sameignarfélags, sem ekki er sjálfstæður skattaðili og kærandi er eignaraðili að, og fylgdi skattframtali hans árið 1980, að lækka gjaldfærslu á eignfærðu gengistapi í efnahagsreikningi félagsins pr. 31. desember 1978 úr 6.351.918 kr. í 2.127.732 kr. eða 20% af 10.638.663 kr. Ákvörðun sinni til stuðnings vitnaði skattstjóri til ákvæða VII í ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 53. gr. laga nr. 7/1980 um breyting á þeim lögum.
Með bréfi, dags. 18. október 1982, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að kröfu kæranda verði hafnað þar sem hún eigi ekki við rök að styðjast.
Með vísun til ákvæðis VII í ákvæðum til bráðabirgða í framangreindum lögum þykir hafa verið óheimilt að gjaldfæra í einu lagi í rekstrarreikningi umgetins sameignarfélags 1979 eftirstöðvar ógjaldfærðra gengistapa 31. desember 1978 í stað þess að gjaldfæra þar 1/5 hluta fjárhæðarinnar. Er því breyting skattstjóra staðfest og kröfum kæranda synjað.