Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 176/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. 1. og 3. mgr.  

Skattskyldar tekjur — Launatekjur — Dagpeningar — Dagpeningafrádráttur — Frádráttarheimild — Ferðakostnaður — Dvalarkostnaður — Ferða- og dvalarkostnaður vegna vinnuveitanda — Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar — Námsferð — Kynnisferð — Nám — Nám erlendis — Læknir — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Andmælareglan — Sjónarmið, sem stjórnvaldsákvörðun er byggð á — Ólögmæt sjónarmið — Meðalhófsreglan — Málsmeðferð áfátt

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi færði sér til tekna í dálk 7.3 í skattframtali sínu árið 1990 styrk frá heilbrigðisráðuneyti 285.741 kr. Sömu fjárhæð færði kærandi til frádráttar í dálk 7.4 sem kostnað á móti styrknum. Í greinargerð, dags. 25. maí 1990, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1990, kom fram, að styrkur þessi væri vegna námsdvalar í Svíþjóð og skiptist í dagpeninga 224.531 kr. og fargjald 61.210 kr. Í bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 9. júní 1989, kom fram, að kæranda, sem er heilsugæslulæknir, væri veitt launað námsleyfi frá störfum frá og með 16. til og með 31. júlí 1989 til þess að kynna sér starfsemi háls-, nef- og eyrnadeildar háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð. Tekið var fram í bréfinu, að ráðuneytið myndi annast greiðslur ódýrustu fargjalda að og frá Lundi og greiðslu dagpeninga umrætt tímabil samkvæmt framlögðum reikningi eða á annan hátt samkvæmt nánara samkomulagi.

II.

Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990 tók skattstjóri ekki tillit til fyrrgreinds frádráttar 285.741 kr. án þess þó, að kæranda væri áður gefinn kostur á að tjá sig um þessa breytingu á framtalinu eða að honum væri gert viðvart um hana. Af hálfu umboðsmanns kæranda var álagningin kærð með bréfi, dags. 24. ágúst 1990, og boðað, að nánari greinargerð yrði send síðar. Í bréfi, dags. 27. október 1990, mótmælti umboðsmaðurinn breytingunni. Í fyrsta lagi bar hann fyrir sig, að ákvæða 95. og 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hefði ekki verið gætt með því að kæranda hefði ekki verið tilkynnt um breytinguna. Í öðru lagi færði umboðsmaðurinn fram þau rök efnislega, að af hálfu kæranda hefðu verið lögð fram gögn með framtalinu, er sýndu fram á réttmæti þessa frádráttarliðs, en um væri að ræða endurgreiðslu á kostnaði við námsferð til Svíþjóðar, dagpeninga og fargjöld. Í kæruúrskurði, dags. 5. nóvember 1990, synjaði skattstjóri kröfum kæranda. Tók skattstjóri fram, að heimild til námsfrádráttar hefði fallið úr lögum við upptöku staðgreiðslu skatta 1. janúar 1988. Ekki væri því ljóst á hverju kærandi byggði rétt sinn til umrædds frádráttar, en umrædd styrkveiting skipti ekki máli varðandi það. Þá gat skattstjóri um það, hvaða liði mætti færa í þann reit, sem kærandi tilgreindi umræddan frádráttarlið. Síðan sagði svo í úrskurðinum: „Því verður ekki fallist á, að gerð hafi verið breyting á framtali þó svo ekki væri við álagningu tekið tillit til óleyfilegrar aðskotatölu á framtalinu, enda engin leið til að skrá slíka fjárhæð í tölvuskrár skattkerfisins.“

III.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 7. nóvember 1990. Krefst umboðsmaðurinn þess, að breytingu skattstjóra verði hnekkt og færir fram málsástæður bæði varðandi formhlið breytingarinnar og efnishlið. Varðandi formhlið málsins þá er þeirri staðhæfingu skattstjóra mótmælt, að ekki hafi verið um neina breytingu að ræða. Bent er á, að skattstofnar hafi hækkað um 285.741 kr. frá því sem tilgreint var í framtalinu. Beri skattstjóri ábyrgð á þeim breytingum og geti ekki varpað ábyrgðinni á „tölvuskrár skattkerfisins“. Skattstjóri hafi því virt að vettugi ákvæði 95. og 96. gr. laga nr. 75/1981 og beri að ómerkja breytinguna af þeim sökum. Varðandi efnishlið málsins þá er því ekki mótmælt, að námsfrádráttarheimild sé úr gildi fallin. Hins vegar hafi kærandi fengið greidda dagpeninga frá vinnuveitanda sínum vegna námsferðar og hafi upphæð þeirra verið í samræmi við þá upphæð, sem ríkisskattstjóri hefði metið sem frádráttarbæra á móti greiddum dagpeningum. Þá hefði kærandi fengið endurgreidd fargjöld vegna ferðarinnar. Er bent á, að skattyfirvöld hafi hingað til ekki gert athugasemdir við það, að á móti greiðslu vegna dagpeninga og fargjalda vegna námsferða lækna, væri færður frádráttur að sömu fjárhæð, enda hefði upphæð dagpeninga verið innan þeirra marka, sem ríkisskattstjóri ákvæði sem frádrátt á móti greiddum dagpeningum.

IV.

Með bréfi, dags. 17. september 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

V.

Á það er fallist með kæranda, að skattstjóri hafi ekki gætt réttra aðferða við framkvæmd hinnar kærðu breytingar. Með vísan til þess og að því virtu, sem upplýst er um efnishlið þessa máls, eru kröfur kæranda teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja