Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 118/1983
Gjaldár 1982
Lög nr. 75/1981, 53. gr.
Verðbreytingarfærsla — Lok atvinnurekstrar — Tímaviðmiðun verðbreytingarfærslu — Verðbreytingarfærsla, tímaviðmiðun
Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1982 að færa verðbreytingarfærslu samkvæmt ákvæðum 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til tekna á rekstrarreikning. Er þess krafist að breyting þessi verði felld niður þar sem kærandi hafi hætt rekstri á árinu 1981.
Með bréfi, dags. 4. febrúar 1983, krefst ríkisskattstjóri þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Skýra verður svo ákvæði 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að þar umrædda verðbreytingarfærslu beri að reikna út við skattskil kæranda vegna gjaldársins 1982 og skiptir í því sambandi ekki máli, þó að hann hafi hætt rekstri á árinu 1981. Samkvæmt skattframtali kæranda 1982 voru eignir hans pr. 31. desember 1981 hærri en skuldir. Með þessum athugasemdum er hinn kærði úrskurður skattstjóra staðfestur.