Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 142/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl., 30. gr. 2. mgr., 59. gr., 63. gr.  

Reiknað endurgjald — Hjón — Landbúnaður — Fastur frádráttur — Frádráttarregla — Leiðrétting skattframtals

Kærð er ákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1982 og eru kæruatriði sem hér greinir:

1. Vegna mistaka við framtalsgerð hafi reiknað endurgjald vegna vinnu við landbúnaðarrekstur verið fært á eiginmann í stað eiginkonu, en eins og sjáist á framtalinu hafi eiginmaður unnið meirihluta ársins frá búinu.

2. Breyting skattstjóra á föstum frádrætti í 10.019 kr. þó að lágmarksfrádráttur sé 11.952 kr. samkvæmt því sem gefið er upp á framtalseyðublaðinu.

Með bréfi, dags. 4. febrúar 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Í kæru kemur fram að kærandi hafði með höndum eitthvert starf við búið og verður því eigi fallist á að honum beri ekki að ákvarða sér eigin laun vegna búsins.“

Um kærulið 1:

Eigi þykir ástæða til að vefengja þá fullyrðingu kærenda að eiginkona hafi sinnt þeim störfum við búreksturinn, að henni beri að reikna sér endurgjald þeirra vegna. Er því fallist á þá kröfu að 18.309 kr. verði færðar á hennar framtal sem reiknað endurgjald. Hins vegar verður að telja að eiginmaður hafi að einhverju marki unnið við reksturinn á árinu 1981. Þar sem vinnuframlag liggur ekki fyrir af hans hálfu þykir eftir atvikum rétt að reikna honum 10.000 kr. sem endurgjald, sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra.

Um kærulið 2:

Ákvörðun skattstjóra um frádrátt frá tekjum kærenda var í samræmi við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en samkvæmt þeirri málsgrein verða hjón sem skattlögð eru skv. 63. gr. laganna að velja sömu frádráttarreglu og er ekki um að ræða lágmarksfjárhæð „fasts frádráttar nema hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja