Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 151/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 51. gr. 1. mgr. 1. og 2. tl.  

Afföll — Frádráttarbærni affalla — Verðbréf — Verðbréfamiðlun — íbúðarlán — Lögskýring — Sölukostnaður — Lántökukostnaður — Upplýsingaskylda gagnvart skattyfirvöldum

Málavextir eru þeir að á skattframtali sínu árið 1982 færðu kærendur til frádráttar tekjum sem afföll og kostnað 41.675 kr. vegna sölu þeirra á skuldabréfum til Fjárfestingarfélags Íslands hf. og gátu þess að nafnverð þeirra bréfa hefði numið 84.559 kr. Með bréfi, dags. 4. júní 1982, fór skattstjóri fram á að kærendur legðu fram afrit af kvittunum vegna sölu skuldabréfanna, þar sem fram kæmu lánskjör og hver væri móttakandi affalla. Af hálfu kærenda var bréfi þessu ekki svarað. Með bréfi dags. 26. júlí tilkynnti skattstjóri að afföll og kostnaður vegna seldra skuldabréfa hefðu verið felld niður sem frádráttarliður á framtalinu og beitt væri 25% álagi á hækkun tekjuskattsstofns sem af þeirri breytingu leiddi. Byggði skattstjóri þessa ákvörðun sína á því að upplýsingar væru ófullnægjandi á skattframtalinu og bréfi hans, dags. 4. júní 1982, hefði ekki verið svarað. Af hálfu kærenda var breytingin kærð til skattstjóra með kæru, dags. 7. ágúst 1982, og þess krafist að hún yrði felld niður. Fylgdu kærunni kvittanir fyrir útborgun nefndra verðbréfa í umboðssölu á árinu 1981. Er framtekið í kærunni að við sölu íbúðar hafi kærendur fengið greitt með skuldabréfum, sem þeir hafi síðan selt Fjárfestingarfélagi Íslands hf. til að standa straum af húsbyggingu. Sölukostnað og afföll af bréfum þessum væri ótvírætt leyfilegt að færa til frádráttar með vöxtum skv. 30. gr. og 51. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þann 1. nóvember 1982 kvað skattstjóri upp úrskurð í tilefni af kæru þessari. Féllst hann ekki á kröfu kærenda, þar sem skilyrðum 1. ml. 2. tl. 1. mgr. 51. gr. framangreindra laga teldist ekki hafa verið fullnægt, þar eð kaupandi skuldabréfanna hafi ekki verið nafngreindur.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 10. nóvember 1982. Er þess krafist að breytingu skattstjóra á skattframtali þeirra árið 1982 verði hnekkt og fjármagnskostnaður að fjárhæð 41.675 kr. verði leyfður til frádráttar eins og aðrir vextir. Er vitnað til kærunnar til skattstjóra og kvittanir vegna sölu umræddra verðbréfa látnar fylgja. Jafnframt er eftirfarandi tekið fram:

„Þau hjónin höfðu tekið verðbréfin, án affalla, sem greiðslu á íbúðum, sem þau áttu og seldu. Þau seldu svo bréfin, með afföllum og kostnaði, til að greiða niður bráðabirgðalán, sem þau höfðu tekið vegna byggingar íbúðarhúss síns, að L-götu í X-hreppi. Skilyrðum 30. gr. E 1 er því ótvírætt fullnægt.

Skattstjóri telur hins vegar að ekki séu uppfyllt skilyrði 51. gr. um að kaupandi sé tilgreindur. Þar er því til að svara, að Fjárfestingarfélag Íslands hf. kom fram sem kaupandi gagnvart þeim A og B. Félagið tók við bréfunum og innti greiðslur af hendi og gefur ekki upp hver eða hverjir séu kaupendur, þótt það færi kvittanirnar eins og um umboðssölu sé að ræða. Þau A hafa greitt þennan fjármagnskostnað og eiga fullan rétt á að hann verði dreginn frá skattgjaldstekjum þeirra þar eð kostnaðurinn er vegna byggingar íbúðarhúss til eigin nota og þau gefa óyggjandi upplýsingar um hver tók við verðbréfunum úr þeirra hendi. Tilgangurinn með ákvæði 51. greinar um að nafngreina kaupanda er að tryggja að fjármagnstekjurnar fáist skattlagðar. Þeim tilgangi er auðvelt að ná þar sem viðtakandi bréfanna er bókhaldsskylt fyrirtæki. Hins vegar tel ég ekki standa lög til að skylda A til að sanna hvort Fjárfestingarfélag Íslands hf. seldi bréfin raunverulega í umboðssölu eða hvort félagið keypti þau fyrir eigin reikning. Það sýnist mér vera í verkahring skattyfirvalda. Ég hygg að A hefði fengið fyrirspurn frá skattstjóra um það efni, ef fyrir lægi að hann hefði keypt verðbréf með þessum kjörum. Honum hefði tæpast dugað að skrifa „umboðssala“ á kvittanirnar.

A hefir fullnægt upplýsingaskyldu sinni skv. 51. grein með því að sanna að Fjárfestingarfélag Íslands hf. tók við bréfunum og greiddi þau. Þau hjón eiga því rétt á skattfrádrætti, án tillits til þess hvort skattyfirvöld hirða um að nota lagaheimild sína til að kanna hvar beri að skattleggja hagnaðinn.“

Með bréfi, dags. 21. desember 1982, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Fjármagnskostnaður kærenda er ekki vegna lána er kærandi hefur tekið til öflunar íbúðarhúsnæðis, eins og áskilið er í 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. skattalaga, heldur er um sölu á verðbréfaeign hans að ræða. Er því ekki fallist á framkomnar kröfur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja