Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 153/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr., 29. gr. 2. mgr., 30. gr. 2. mgr., 31. gr. 1. mgr. 7. tl., 62. gr. 2. mgr., 66. gr., 80. gr.   Lög nr. 73/1980, 23. og 27. gr.  

Reiknað endurgjald — Landbúnaður — Hjón — Rekstrartap, yfirfæranlegt — Rekstrartap, frádráttarbærni — Fastur frádráttur — Launatekjur — Ívilnun — Valdsvið ríkisskattanefndar — Frávísun — Ellilífeyrir — Leiðbeining ríkisskattanefndar

Samkvæmt skattframtali árið 1982 reiknaði eiginkona sér endurgjald vegna starfa við búrekstur að fjárhæð 33.159 kr. Eiginmaður reiknaði sér ekki endurgjald við þennan rekstur, en hafði launatekjur frá ýmsum opinberum aðilum auk ellilífeyris frá almannatryggingum. Samkvæmt landbúnaðarframtali nam tap af búrekstri 22.643 kr. Eiginmaður færði þá tapsfjárhæð til frádráttar fyrirgreindum tekjum sínum í skattframtali. Þá færðu kærendur sér til frádráttar sem fastan frádrátt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, 11.962 kr. hvort um sig. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 strikaði skattstjóri út nefndan tapsfrádrátt, sem færður var á móti launatekjum og bótagreiðslum almannatrygginga. Þá leiðrétti skattstjóri fastan frádrátt til samræmis við 1. ml. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessum breytingum var mótmælt af hálfu kærenda með kæru, dags. 17. ágúst 1982. Með úrskurði, dags. 29. október 1982, hafnaði skattstjóri kærunni. Tók skattstjóri fram, að engin lagaheimild væri fyrir því að draga rekstrartap frá launatekjum. Hins vegar væri um tap að ræða af búrekstri, sem yfirfæranlegt væri til næsta árs. Þá gat skattstjóri þess, að lágmarksfrádráttur sá, sem kærendur hefðu fært sér, gilti fyrir aðra en þá, sem skattlagðir væru eftir þeim reglum, sem giltu um hjón samkvæmt 63. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Með kæru, dags. 25. nóvember 1982, hefur úrskurði skattstjóra af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar. Auk fyrri krafna og röksemda er með kærunni sent ljósrit læknisvottorðs, dags. 24. febrúar 1982, varðandi heilsufar eiginmanns.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar þær kröfur með bréfi, dags. 20. janúar 1983, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Að því er varði beiðni um lækkun gjalda vegna veikinda er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra, að þeim þætti kærunnar verði vísað frá ríkisskattanefnd, þar sem slíkar beiðnir falli utan við verksvið nefndarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er einungis heimilt að draga frá skattskyldum tekjum manns, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þ.m.t. endurgjald skv. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laganna, þann frádrátt, sem sérstaklega er getið um í III. kafla laganna. Meðal leyfðra frádráttarliða í þessum efnum er eigi að finna tap af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Í lokamálsgrein 62. gr. nefndra laga er þess og sérstaklega getið, að tap af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi sé aldrei heimilt að draga frá tekjum, sem ekki séu tengdar slíkri starfsemi, en heimilt sé að yfirfæra það skv. 7. tl. 1. mgr. 31. gr. laganna og draga það frá hagnaði, sem síðar kunni að myndast í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi aðila. Kærendur eru skattlögð eftir reglum þeim, sem gilda um skattlagningu hjóna. Sá lágmarks fasti frádráttur, sem kærendur færðu, kemur því eigi til álita, sbr. 3. ml. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra. Að því leyti, sem í kærunni kann að felast beiðni um ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 23. og 27. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, ber að vísa þeim þætti málsins frá ríkisskattanefnd, þar sem nefndin fjallar eigi um slíkar beiðnir. Ber að snúa sér til skattstjóra og ríkisskattstjóra og eftir atvikum hlutaðeigandi sveitarstjórnar að því er þetta varðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja