Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 155/1983
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 27. gr., 106. gr. 2. og 3. mgr. Lög nr. 68/1971, 7. gr. 1. mgr. E-liður 5. og 11. mgr.
Söluhagnaður fyrnanlegrar eignar — Bátur — Verðbréf— Framreikningur söluhagnaðar — Söluhagnaður dreifing — Dreifing tekjufærslu skattskylds söluhagnaðar — Tekjufærsla söluhagnaðar — Afborgunartími — Vantaldar tekjur — Álag — Sameignarfélag — Óskipt sameign — Eignarhlutur í sameignarfélagi
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1981. Kæruatriði eru sem hér segir:
1. Skattstjóri færði kæranda til tekna í skattframtali árið 1981 vantalin laun frá L. hf. að fjárhæð 6.798.130 kr. og bætti 25% álagi á nettófjárhæð teknahækkunar, en sjómanna-og fiskimannafrádrættir svo og iðgjald af lífeyristryggingu hækkuðu frá því sem tilfært var í skattframtali. Kærandi fer fram á, að álögð viðurlög 1.410.822 kr. verði niður felld. Ber kærandi fyrir sig, að mistök hafi valdið því, að nefnd tekjufjárhæð var ekki færð á skattframtal. Kærandi, sem er sjómaður, kveðst ekki hafa annast framtalsgerð sína sjálfur, en sent sérfróðum aðstoðarmanni í Reykjavík gögn viðvíkjandi skattframtali sínu, en launaseðill vegna hinnar vantöldu tekjufjárhæðar glatast annað hvort hjá honum sjálfum eða þeim, sem annaðist framtalsgerðina. Kærandi kveðst hafa talið allt vera með felldu við frumálagningu opinberra gjalda árið 1981, þar sem auk launatekna hans hafi þá komið til skatts veruleg fjárhæð vegna frestaðs söluhagnaðar frá fyrri árum, og kærandi sé ófróður um skattamál.
2. Kærandi færði til tekna í skattframtali sínu árið 1981 söluhagnað upphaflega að fjárhæð 8.197.426 kr., en framreiknaður með verðbreytingastuðli ársins 1980 nam fjárhæðin 12.698.632 kr. Eftir gögnum málsins hefur söluhagnaður þessi myndast á árinu 1978 vegna sölu báts, sem kærandi átti hlut í. Skattlagningu var frestað um tvenn áramót með heimild í 11. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. þágildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 68/1971. Í kæru til skattstjóra, dags. 5. maí 1982, fer kærandi þess á leit, að athugað verði, hvort mögulegt sé að dreifa skattlagningu söluhagnaðarins á þrjú ár. Í úrskurði sínum, dags. 18. ágúst 1982, hafnaði skattstjóri tilmælum kæranda, þar sem skilyrðum 27. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til dreifingar söluhagnaðar væri ekki fullnægt. Þar væri þess m.a. getið, að skattstjóra skuli tilkynna um notkun þessarar heimildar með fyrsta framtali eftir söludag. Svo hafi eigi verið gert, heldur hafi kærandi óskað eftir frestun á skattlagningu um ein áramót á skattframtali árið 1980. Söluhagnaðurinn hafi síðan verið tekjufærður framreiknaður í skattframtali árið 1981.
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi, dags. 18. október 1982, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, þar sem ekki séu skilyrði til þess að fallast á kröfu kæranda.
Um 1. tl.:
Eigi verður talið, að kærandi hafi fært fram þær ástæður sér til afsökunar, að fella beri niður álag samkvæmt 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þegar litið er til skýringa kæranda og aðstæðna hans eins og hann lýsir þeim þykir þó eigi hafa verið alveg nægt tilefni til þess að beita heimildarákvæði 2. mgr. 106. gr. nefndra laga í hans tilfelli. Þykir því mega fallast á kröfu kæranda að því er þetta kæruatriði varðar.
Um 2. tl.:
Skuldabréf v/bátssölu, sbr. síðar, er fært til eignar í efnahagsreikningi D. sf., sem er sameignarfélag kæranda og K., og er ekki sjálfstæður skattaðili. Samkvæmt yfirliti yfir efnahag og tekjur félagsins árið 1980, sem fylgdi skattframtali kæranda árið 1981 hefur félagið ekki haft rekstur með höndum árið 1980 og einu tekjur þess eru vaxtatekjur aðallega af nefndu skuldabréfi. Skattframtal kæranda árið 1979 liggur fyrir í málinu, en því fylgdi ársreikningur D. sf. fyrir árið 1978. Samkvæmt ársreikningnum er m/b D. seld á árinu 1978. Eignarhlutdeild kæranda í skipinu var helmingur á móti sameiganda hans um útgerðina. Nettó söluverð bátsins var alls 37.481.736 kr. eða 18.740.868 kr. að hlut hvors um sig. Hluti söluandvirðis var greiddur með skuldabréfum til 8 ára með 13% vöxtum. Fengu seljendur 8.102.892 kr. þannig hvor um sig við söluna. Samkvæmt sérstöku uppgjöri söluhagnaðar, sem fylgdi ársreikningnum, var skattskyldur söluhagnaður talinn nema 8.197.426 kr. og hafði þá verið tekið tillit til skattskyldra umframfyrninga miðað við, að fyrnanleg eign yrði ekki keypt innan tveggja ára, sbr. 5. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Í skattframtali sínu árið 1979 óskaði kærandi eftir frestun á skattlagningu söluhagnaðarins um tvenn áramót og í skattframtali árið 1980 er og minnst á, að þessarar frestunarheimildar hafi verið neytt. Skip það, sem í málinu greinir, virðist eftir málsgögnum að dæma hafa verið í óskiptri sameign kæranda og K. að jöfnu, enda þótt það hafi verið fært í ársreikningi sameignarfélags þess, sem fyrr er nefnt. Verður því á því byggt, að kærandi hafi sjálfur en eigi sameignarfélagið selt helmingshluta sinn í skipinu og m.a. fengið andvirði hans greiddan með fyrrgreindu skuldabréfi. Kærandi fer fram á að njóta ákvæðis 27. gr. laga nr. 75/1981, um dreifingu þess hluta söluhagnaðar til skattlagningar, sem svarar til hlutdeildar þar um ræddra skuldaviðurkenninga af heildarsöluverðmætinu. Kærandi þykir eigi hafa firrt sig rétti til að nýta sér heimild þessarar lagagreinar. Hlutfall skuldabréfs af heildarsöluverðmæti nam 43,24%. Af framreiknuðum söluhagnaði 12.698.632 kr. koma því 5.490.889 kr. til skattlagningar á 7 árum eða 784.413 kr. á ári. Gjaldárið 1981 ber því að tekjufæra 7.992.156 kr. af framreiknaðri fjárhæð söluhagnaðar.