Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 162/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 91. gr. 1. mgr., 96. gr. 1. og 3. mgr., 106. gr.  

Skattframtal ófullnægjandi — Málsmeðferð áfátt — Atvinnurekstrarlok — Álag — Ársreikningur

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. þann 16. júní 1982, tilkynnti skattstjóri kærendum, að hann hefði í hyggju að hafna skattframtali þeirra árið 1982, þar sem það væri ekki talið veita þær upplýsingar um tekjur og eignir, að á því mætti byggja rétta álagningu, auk þess sem skattframtalið samþýddist ekki ákvæðum 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í bréfinu voru annmarkar tilgreindir, sem voru sagðir fólgnir í því, að rekstrar- og efnahagsreikning vantaði svo og ýmiss fylgiskjöl, sem upp voru talin. Gefinn var 10 daga frestur til þess að bæta úr annmörkum. Svar barst ekki innan frestsins og ítrekaði skattstjóri bréf sitt þann 30. júní 1982 og veitti 4 daga frest til svara. Með bréfi, dags. 5. júlí 1982, sendi kærandi skrá vegna sérstaks eignarskatts, en um slíkt gagn hafði verið beðið, en tók að öðru leyti fram, að engin atvinnurekstur hefði verið á árinu 1981. Honum hefði verið hætt á árinu 1980. Skattstjóri lét sér þetta svar ekki nægja og með bréfi, dags. 28. júlí 1982, tilkynnti hann, að tekjur á skattframtali 1982 hefðu verið hækkaðar um 10.000 kr. hjá eiginmanni og eign um 20.000 kr. svo og aðstöðugjaldsstofn áætlaður 50.000 kr. allt að viðbættu 25% álagi samkvæmt 3. ml. 1. mgr., sbr. 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem umbeðin gögn hefðu ekki verið lögð fram og skattframtalið væri því ófullnægjandi og ekki í samræmi við 91. gr. nefndra laga.

Með kæru, dags. 6. ágúst 1982, var þess krafist af hálfu kærenda, að tekjuviðbót skattstjóra yrði niður felld og opinber gjöld lækkuð í samræmi við það. Einnig að aðstöðugjald og launaskattur yrði fellt niður. Ítrekuðu kærendur fyrri skýringar, að enginn atvinnurekstur hefði verið á árinu 1981. Með úrskurði, dags. 14. desember 1982, hafnaði skattstjóri þessum kröfum. Getur skattstjóri þess í úrskurðinum, að staðhæfing kærenda um að atvinnurekstri hefði verið hætt samræmdist því ekki, að tilfærðar væru vörubirgðir pr. 31.12. 1980, en ekkert kæmi fram um þessar birgðir í skattframtali árið 1982. Þá hefðu kærendur verið eigendur verslunarhúsnæðis að D-götu, Reykjavík, á árinu 1981, en ekki væri gerð grein fyrir rekstri þess með skattframtali árið 1982. Væri skattframtalið því ekki í samræmi við ákvæði 1. mgr. 91. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. að því fylgi ársreikningur. Úr þeim annmarka hefði ekki verið bætt.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. desember 1982. Er þar gerð grein fyrir því, að eiginkona hafi rekið vefnaðarvöruverslun, en rekstri hennar hefði verið hætt á árinu 1980. Eftir hafi staðið vörubirgðir, sem reynst hafi síðar gallaðar og óseljanlegar. Sumt hafi verið gefið á hlutaveltu, annað væri til, sem verðlaust væri talið og þar af leiðandi ekki verið talið til eignar. Því hafi enginn rekstrar- og efnahagsreikningur verið gerður. Þá er því mótmælt, að ekki hafi verið gerð grein fyrir rekstri húsnæðis. Húsaleigutekjur væru færðar til tekna í skattframtali á sama hátt og gert hefði verið. Þá var gefin sundurliðun húsaleigutekna eftir leigutökum. Krefjast kærendur þess sem áður, að tekjuviðbót skattstjóra verði felld niður og opinber gjöld lækkuð í samræmi við það svo og að aðstöðugjald og launaskattur verði niður fellt.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 10. mars 1983, fallist á kröfur kærenda.

Kærendur hafa þráfaldlega staðhæft, að atvinnurekstri hafi verið hætt á árinu 1980. Skattstjóri féllst eigi á þær staðhæfingar og getur þess fyrst í kæruúrskurðinum, hvað það var, sem olli því að skýringar kærenda voru eigi teknar til greina. Það er því fyrst í kæru til ríkisskattanefndar, að kærendur eiga kost á því, að gefa skýringar á þeim atriðum, sem skattstjóri hefur í raun byggt á. Samkvæmt þessu verður að telja, að fyrirspurnarbréf skattstjóra hafi eigi verið svo glögg sem skyldi. Að þessu athuguðu og með vísan til upplýsinga kærenda í málinu, sem að framan eru greindar, eru kröfur kærenda teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja