Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 187/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981 — 63. gr. 3. mgr. — 69. gr. C-liður — 81. gr. 1. mgr. 3. ml. — 91. gr. 1. mgr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. 1. og 3. mgr. — 100. gr. 5. mgr.  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtabætur — Greinargerð um vaxtagjöld — Íbúðarhúsnæði, öflun — Öflun íbúðarhúsnæðis — Eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Notkun húsnæðis — Lögheimili — Heimilisfesti — Dvalarstaður — Sjómaður — Sönnun — Sambýlisfólk — Óvígð sambúð — Sköttun sambýlisfólks — Breytingarheimild skattstjóra — Andmælareglan — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Fylgigögn skattframtals

I.

Málavextir eru þeir, að kærendur færðu vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa 290.332 kr. í reit 87 í skattframtali sínu árið 1991, sbr. greinargerð um vaxtagjöld (RSK 3.09), er fylgdi skattframtali þeirra árið 1991. Hinn 17. júlí 1991 tilkynnti skattstjóri kærendum, að vaxtagjöld þessi hefðu verið færð í reit 88 í skattframtalinu, sbr. lokamálslið 1. tl. 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í kæru, dags. 6. ágúst 1991, var þess krafist af hálfu kærenda, að umrædd vaxtagjöld 290.332 kr. yrðu látin óhögguð standa í reit 87, enda væru þau af lánum vegna öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Kærendur gerðu grein fyrir því, að vaxtagjöldin væru vegna íbúðar að A, Reykjavík, er þau notuðu eingöngu í eigin þágu. Kærandi, X, byggi þar nú en kærandi, Y, væri sjómaður á togara, er gerður væri út frá B, og hefðu þau ekki flutt lögheimili sitt þaðan. Kvaðst kærandi, Y, hafa aðsetur á heimili móður sinnar að B, en dveldist í Reykjavík í öllum leyfum og fríum. Með kæruúrskurði, dags. 21. október 1991, synjaði skattstjóri kröfu kærenda. Tók skattstjóri fram, að kærendur væru sambýlisfólk með lögheimili á B og hefðu skv. framtölum starfað þar bæði árin eftir kaup íbúðarinnar að A, Reykjavík, hinn 16. mars 1989. Þau hafi bæði starfað og búið á B um árabil og a.m.k. sambýlismaðurinn lýsti því yfir, að hann starfi þar enn. Ekki yrði talið, að dvöl í leyfum jafngilti nýtingu íbúðar af eiganda sjálfum. Lögheimili og vinnustaðir kærenda hefðu verið á B síðan 1987, þ.e. þau ár, er samsköttun þeirra tæki til. Vísaði skattstjóri til afdráttarlausrar skilgreiningar lokamálsl. 1. tl. 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og hafnaði kröfu kærenda um vaxtabætur.

II.

Af hálfu kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. nóvember 1991. Er þess krafist, að breytingu skattstjóra verði hrundið og vaxtagjöld 290.332 kr. látin standa óhreyfð í reit 87 í skattframtali árið 1991. Kærendur staðhæfa, að þau nýti sjálf íbúð sína að A, Reykjavík. Leggja þau fram vottorð tveggja íbúa í húsinu að A um að þau hafi flutt í íbúðina 20. september 1990 og fyrir þann tíma hafi íbúðin staðið auð, þ.e. frá 1. ágúst 1989 til 20. september 1990. Þá mótmæla kærendur þeirri staðhæfingu skattstjóra, að vinnustaður beggja hafi verið á B. Kærandi, X, hafi unnið um tíma í Reykjavík og er lagt fram gagn því til stuðnings. Þá er lagt fram vottorð frá sparisjóðnum á B, dags. 6. nóvember 1991, þar sem fram kemur, að kærandi, X, hafi starfað fyrri hluta ársins 1990 hjá sparisjóðnum, en hætt í september 1990 og flutt til Reykjavíkur alfarin. Kærendur taka fram, að lögheimili þeirra hafi ekki verið flutt að A, Reykjavík, þar sem kærandi, Y, starfi á togara frá B og hreppurinn fari fram á, að menn, er vinni hjá fyrirtækjum á staðnum, séu þar skráðir. Í vottorði útgerðarfélagsins, er kærendur hafa lagt fram, kemur fram, að kærandi, Y, hafi starfað sem vélstjóri hjá félaginu frá 1985. Frá árinu 1990 hafi hann átt heimili að A, Reykjavík og dvalist þar, þegar hann hafi ekki verið við sjómennsku. Þá kemur fram í kæru, að kærendur telja sig ekki hafa fengið tilkynningu skattstjóra um hina umdeildu breytingu, dags. 17. júlí 1991, í hendur.

III.

Með bréfi, dags. 23. janúar 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kærenda.“

IV.

Skattstjóri fór með hina kærðu breytingu eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og liggur ekki annað fyrir en hann hafi gætt fyrirmæla þess ákvæðis og gert kærendum viðvart um breytinguna. Það hefði hins vegar verið réttara eins og atvikum var háttað, að skattstjóri færi eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. nefndra laga við framkvæmd breytingarinnar, teldi hann ástæðu til að hefjast handa um hana. Þegar litið er til framkominna skýringa kærenda og framlagðra gagna af þeirra hálfu verður að telja, að kærendur hafi sýnt nægjanlega fram á það, að þau uppfylli skilyrði lokamálsliðs 1. tl. 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, en um önnur atriði viðvíkjandi umræddum lið skattframtalsins er ekki deilt. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, og með skírskotun til kröfugerðar ríkisskattstjóra í málinu er krafa kærenda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja