Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 163/1983

Gjaldár 1982

Reglugerð 193/1981, 5. gr. 1. mgr. d liður   Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl.   Lög nr. 51/1980, 73. gr.  

Skyldusparnaður — Skyldusparnaðarfrádráttur — Skyldusparnaðartímabil — Húsnæðisstofnun ríkisins — Skyldusparnaðarundanþága — Íbúðarkaup — Lögskýring

Málavextir eru þeir, að í skattframtali sínu árið 1982 færði kærandi til frádráttar skyldusparnað að fjárhæð 20.700 kr. samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sbr. 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í athugasemdadálki skattframtalsins gat kærandi þess, að hann hefði fengið endurgreidd sparimerki samtals að fjárhæð 63.336 kr. Með bréfi, dags. 16. júní 1982, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans árið 1982, að frádráttur vegna skyldusparnaðar hefði verið lækkaður úr 20.700 kr. og í 7.107 kr., þar sem kærandi hefði fengið greiddan út hluta skyldusparnaðar á árinu 1981 vegna kaupa á íbúð, og eftir stæðu 7.107 kr. um áramót af skyldusparnaði. Kærandi mótmælti þessari breytingu með kæru, dags. 23. ágúst 1982. Vísaði kærandi til reglugerðar nr. 193 frá 2. apríl 1981, um skyldusparnað. Með úrskurði, dags. 12. október 1982, hafnaði skattstjóri kærunni. Vísaði skattstjóri synjun sinni til stuðnings til d-liðs 73. gr. laga nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins, þar sem fram kæmi, að þeir, sem ættu íbúð til eigin þarfa væru undanþegnir þátttöku í skyldusparnaði, en sparimerkjakaup umfram skyldu væru ekki frádráttarbær frá tekjum, sbr. 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, ódags. en móttekinni þann 3. nóvember 1982. Með kærunni fylgdi ljósrit kaupsamnings, dags. 23. október 1981. Samkvæmt þessu telur kærandi, að hann hafi ekki verið undanþeginn skyldusparnaði, fyrr en þann 23. október 1982, þ.e.a.s. þegar hann eignaðist íbúð samkvæmt kaupsamningi. Tæki því undanþáguákvæði d-liðs 73. gr. laga nr. 51/1980 til hans fram að nefndu tímamarki og væri skyldusparnaður 1. janúar 1981 - 23. október 1981 frádráttarbær samkvæmt 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skyldusparnaður 23. október - 31. desember 1981 hefði numið 3.339 kr.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 20. janúar 1983:

„Fallist er á að kærandi hafi verið sparnaðarskyldur til 23/10 1981 er hann undirritaði kaupsamning vegna kaupa á íbúð að D-götu, Reykjavík.

Við ákvörðun á fjárhæð þess skyldusparnaðar þykir verða að krefjast þess að kærandi leggi fram launaseðla sína fyrir umrætt tímabil og staðfestingu á því að skyldusparnaðurinn hafi í raun verið lagður inn. Leggi kærandi ekki fram ofangreind gögn er þess krafist að kröfum hans verði hafnað.“

Kærandi hefur verið leystur undan sparnaðarskyldu vegna íbúðarkaupa, sbr. d-lið 1. mgr. 73. gr. laga nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins og d-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 193 frá 1981, um skyldusparnað. Kærandi var sparnaðarskyldur fram til þess tíma, að hann eignaðist íbúð með kaupsamningi, dags. 23. október 1981. Ber honum frádráttur vegna skyldusparnaðar samkvæmt 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna ársins 1981 fram til þess tíma, að hann eignaðist íbúðina. Eftir atvikum þykir mega byggja á upplýsingum kæranda um fjárhæð skyldusparnaðarins eftir kaupdag og til ársloka. Samkvæmt því verða 17.361 kr. færðar kæranda til frádráttar sem skyldusparnaður á skattframtali árið 1982 svo sem krafa hans sýnist lúta að.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja