Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 168/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 2. gr. 1. mgr. 2. tl., 4. gr., 91. gr. 1. mgr.   Lög nr. 59/1973, 4. gr.   Lög nr. 30/1970, 28. gr.   Lög nr. 46/1937  

Byggingarsamvinnufélag — Samvinnufélag — Skattskylda — Framtalsskylda — Samvinnufélagaskrá — Lögbirtingablað — Áætlun — Skattframtal, fullnægjandi

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts á tilskildum tíma árið 1982. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Sú álagning var kærð af hálfu kæranda með kæru, dags. 25. ágúst 1982, til skattstjóra. Með úrskurði, dags. 12. nóvember 1982, ákvað skattstjóri, að álögð gjöld skyldu óbreytt standa, þar sem rökstuðningur hefði ekki borist.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. desember 1982. Fylgdi kærunni skattframtal fyrir árið 1982 og þess farið á leit, að það verði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar. Þá er krafist úrlausnar um það, hvort kærandi sé skatt- eða framtalsskyldur aðili.

Með bréfi, dags. 14. febrúar 1983, eru af hálfu ríkisskattstjóra gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Fallist er á, að áætlun um tekjuskattsstofn gjaldárið 1982 verði felld niður á grundvelli nú framkomins skattframtals og ársreiknings kæranda.

Það er skoðun ríkisskattstjóra að kærandi sé framtalsskyldur skv. skattalögum en skattskyldan virðist stafa að starfsemi hans frá ári til árs. A árinu 1981 virðist eigi hafa verið um skattskylda starfsemi að ræða hjá kæranda enda öll innan þess ramma sem byggingarsamvinnufélögum er ákvarðaður að lögum.“

Kærandi er byggingarsamvinnufélag og starfar á grundvelli V. kafla laga nr. 30/1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sbr. lög nr. 59/1973, um breyting á þeim lögum. Félagið var skráð í samvinnufélagaskrá samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1937, um samvinnufélög, sbr. 28. gr. laga nr. 30/1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins og 4. gr. laga nr. 59/1973, um breyting á þeim lögum. Tilkynnt var um stofnun félagsins í 50. tbl. Lögbirtingablaðs árið 1972. Samkvæmt 28. gr. nefndra laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sbr. 4. gr. laga nr. 59/1973, skal um félagsstofnun, skrásetningu, félagsstjórn og félagsslit byggingarsamvinnufélags fara eftir því sem við getur átt eftir ákvæðum laga nr. 46/1937, um samvinnufélög. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, verður að telja, að kærandi sé skattskyldur samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og þar af leiðandi framtalsskyldur samkvæmt 1. mgr. 91. gr. sömu laga. Engin ákvæði 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, leysa kæranda undan skattskyldu. Svo sem krafist er verður innsent skattframtal kæranda lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja