Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 170/1983
Gjaldár 1982
Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 6. tl., 94. gr., 99. gr. 1. mgr., 106. gr. 2. mgr. og 4. mgr.
Framtalsskil — Framtalsfrestur — Áætlun — Álag — Upplýsingarskylda gagnvart skattyfirvöldum — Kærumeðferð skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Líftryggingariðgjald — Handverkfærafrádráttur — Löggilt iðngrein — Málarasveinn — Kjarasamningur
Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 sættu kærendur áætlun á gjaldstofnum. Þessu var mótmælt af hálfu umboðsmanns kærenda í kæru, dags. 9. ágúst 1982 og á það bent, að skattframtali hefði verið skilað innan veitts viðbótarframtalsfrests. Ekki hefði borist neitt fyrirspurnarbréf um skattframtalið eða tilkynning um, að því hafi verið breytt. Með vísan til þess og aðstæðna kærenda, sem nánar var lýst, krafðist umboðsmaðurinn þess, að lagt yrði á samkvæmt skattframtalinu án tafar.
Með úrskurðum, dags. 17. september 1982, féllst skattstjóri á kröfur kærenda og lagði innsent skattframtal til grundvallar álagningu í stað áætlunar áður með þeim breytingum, að tilfært iðgjald af líftryggingu var fellt brott og vísað til þess, að haft hefði verið samband símleiðis við hlutaðeigandi vátryggingarfélag og það hefði upplýst, að kærendur hefðu ekki haft líftryggingu hjá félaginu árin 1981 og 1982. Væru því frádráttarliðir þessir felldir brott og auk þess beitt 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna þessara frádráttarliða, sem væru ranglega fram taldir. Þá felldi skattstjóri niður tilfærðan verkfærafrádrátt hjá eiginmanni, þar sem ekki væru uppfyllt skilyrði fyrir slíkum frádrætti samkvæmt 6. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ennfremur felldi skattstjóri niður hlunnindi vegna fatnaðar hjá eiginkonu, er fært var til frádráttar tekjufærðum hlunnindum að sömu fjárhæð. Taldi skattstjóri þennan lið ekki frádráttarbæran.
Úrskurðum skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. október 1982. Er þess krafist, að frádráttur vegna verkfærakostnaðar verði viðurkenndur á þeim forsendum, að kærandi ynni sem málari og tæki laun samkvæmt kjarasamningum málara. Hann legði sér til áhöld og fengi „verkfærapeninga“ innifalda í launum eins og málarar. Ekki væri því unnt að svipta kæranda þessum frádrætti, þótt hann hefði ekki sveinsbréf í greininni. Þá er þess krafist, að ekki verði beitt viðurlögum vegna offærðs frádráttar líftryggingariðgjalda. Gerir umboðsmaðurinn grein fyrir mistökum, sem valdið hafi því, að þessir frádráttarliðir voru ranglega færðir.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 12. nóvember 1982:
„Að úrskurður skattstjóra að beita álagi á ranglega framtalda frádráttarliði verði staðfestur með vísan til forsendna í hinum kærða úrskurði.
Kærandi er félagsmaður í Verkalýðsfélagi Suðurnesja og verður því ekki talinn launþegi í löggiltri iðngrein í skilningi 6. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, en skilyrði til ákvörðunar frádráttar skv. framangreindu ákvæði er að viðkomandi launþegi sé samningsbundinn skv. iðnsveinasamningi.“
Skattframtal kærenda árið 1982 er dagsett þann 25. febrúar 1982. Er því haldið fram af hálfu umboðsmanns kærenda í kæru til skattstjóra, dags. 9. ágúst 1982, að skattframtalinu hafi verið skilað þann dag eða degi síðar, þ.e.a.s. í veittum viðbótarframtalsfresti. Kærendur sættu áætlun á gjaldstofnum við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982. Að framtalsskilum kærenda er eigi vikið í úrskurðum skattstjóra, dags. þann 17. september 1982 og það atriði eigi tekið til úrlausnar, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í málinu liggja fyrir tilkynningar um breytingar á skattframtalinu, dags. þann 26. júlí 1982, annars vegar um niðurfellingu verkfærakostnaðar til frádráttar og hins vegar um niðurfellingu frádráttar vegna hlunninda í fatnaði. Virðist því hafa verið fjallað um skattframtalið svo sem það hafi legið fyrir á tilskildum tíma, en gögn málsins benda frekast til þess að svo hafi verið. Tilfærð iðgjöld af líftryggingu felldi skattstjóri niður í kæruúrskurðum sínum og beitti auk þess álagi vegna ranglega framtalinna frádráttarliða. Eftir því sem frá er greint í úrskurðum skattstjóra voru breytingar þessar byggðar á upplýsingum frá hlutaðeigandi tryggingarfélagi, sem fengnar voru símleiðis. Í málinu liggur fyrir bréf skattstjóra, dags. þann 13. september 1982, til tryggingafélagsins, þar sem spurst er fyrir um tryggingakaup kærenda hjá félaginu með stoð í 94. gr. laga nr. 75/1981. Svarfrestur er gefinn til 23. september 1982. Svar tryggingafélagsins liggur fyrir í málinu, dags. 21. september 1982. Hafði skattstjóri því úrskurðað um það atriði, sem hann æskti upplýsinga um, áður en svarfrestur, sem hann sjálfur ákvað, var liðinn. Þá voru kærendum fyrst tilkynntar breytingar þessar í kæruúrskurðum skattstjóra bæði niðurfelling frádráttarliðanna og álagsbeiting. Áttu þeir þess því eigi kost á að kæra þessi atriði til skattstjóra, sbr. 99. gr. og 4. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá verður með skírskotun til þess háttar sem varð á álagningu á kærendur, og annmarka á henni, eigi unnt að líta til þeirra tilkynninga, sem skattstjóri sendi, dags. 26. júlí 1982. Verður því eigi hjá því komist eins og meðferð málsins hefur í heild sinni verið háttað á skattstjórastigi að ómerkja þær breytingar, sem skattstjóri gerði á skattframtali kærenda, þó að undanskildum tilfærðum líftryggingariðgjöldum, sem viðurkennt er af hálfu kærenda, að hafi verið ranglega færð til frádráttar og því eigi ástæða að hnekkja þeirri breytingu þrátt fyrir annmarka á henni.