Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 178/1983
Gjaldár 1982
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tl., 30. gr. 3. mgr., 66. gr. 1. mgr. 2. tl., 95. gr., 96. gr. Lög nr. 47/1979, 11. gr., 12. gr., 15. gr., 17. gr.
Örorka — Barnaörorka — Tryggingastofnun ríkisins — Þroskaheftir, greiðsla vegna umönnunar — Þroskaheftir, heimavistun — Opinber aðstoð vegna þroskaheftra — Ívilnun — Málsmeðferð áfátt — Skattskyldar tekjur — Framfærandi
Málavextir eru þeir, að í athugasemdadálki skattframtals síns árið 1982 tóku kærendur fram, að samkvæmt lögum nr. 47/1979, um aðstoð við þroskahefta, hefðu verið greiddar 54.342 kr. á árinu 1981 vegna veikinda dóttur þeirra, E.P., f. 15. júní 1973. Ekki var þessi greiðsla færð til tekna í skattframtali. Skattframtalinu fylgdi umsókn um lækkun tekjuskattsstofns samkvæmt 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna veikinda barnsins og vísað til greinargerða fyrri ára um málsatvik.
Með bréfum, dags. 26. júlí 1982, tilkynnti skattstjóri kærendum, að „barnaörorka“ hefði verið færð þeim til tekna, helmingur eða 27.171 kr. hjá hvoru um sig. Í sömu bréfum tilkynnti skattstjóri kærendum, að beiðni um lækkun væri synjað að svo stöddu, þar sem upplýsingar vantaði um sérstakan kostnað á árinu 1981.
Kærendur vildu ekki una þessu og krafðist umboðsmaður kærenda þess í kæru til skattstjóra, dags. 4. ágúst 1982, að teknahækkunin yrði felld niður og greiðslur til kærenda samkvæmt lögum nr. 47/1979, um aðstoð við þroskahefta, yrðu ekki skattlagðar. Benti umboðsmaðurinn á, að ekki væri hér um barnaörorku að ræða, heldur greiðslu samkvæmt 15. gr. laga nr. 47/1979. Í þeirri lagagrein væri tekið fram, að framfærendur þroskahefts einstaklings, sem eingöngu dveldist í heimahúsum og þarfnaðist umönnunar eða gæslu að dómi svæðisstjórnar að höfðu samráði við greiningarstöð ríkisins, ættu rétt á aðstoð. Skuli hlutaðeigandi sveitarfélög sjá um, að þessi aðstoð verði veitt. Kjósi framfærendur að annast þetta sjálfir og telji svæðisstjórn þá til þess hæfa, skuli aðstoð veitt með peningagreiðslum. Skuli slíkar greiðslur miðaðar við hálft daggjald á meðalstofnun samkvæmt 10. tl. 12. gr. laganna, allt eftir tegund vistunar. Umboðsmaðurinn benti á, að hinn kosturinn væri augljóslega sá að vista einstaklinga á stofnunum og væri þá eðlilegast, miðað við röksemdafærslu skattstjóra, að þær greiðslur, sem hið opinbera greiddi vegna hælisvistunar yrðu færðar framfærendum til tekna. Umboðsmaðurinn taldi, að ætla mætti, að með ákvörðun hálfs daggjalds hefði löggjafinn metið þann aukakostnað, sem af heimadvöl þroskaheftra leiddi, í eitt skipti fyrir öll, enda ógerlegt fyrir hvern og einn að hafa þennan aukakostnað á takteinum öðruvísi en kærendur hefðu gert grein fyrir aukakostnaðinum áður.
Með úrskurðum, dags. 16. nóvember 1982, hafnaði skattstjóri kröfum kærenda á þeim forsendum, að ekkert væri að finna í lögum um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75 frá 1981 um það, að umrædd greiðsla væri skattfrjáls. Skattstjóri lækkaði hins vegar tekjuskattsstofn hjá hvorum kæranda um 4.200 kr. á grundvelli 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Úrskurðum skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. desember 1982. Er þess krafist, að úrskurðum skattstjóra, dags. 16. nóvember 1982, verði hrundið og gjöld lækkuð til samræmis við skattframtal. Vísað er til rökstuðnings í kæru til skattstjóra, dags. 4. ágúst 1982.
Með bréfi, dags. 4. febrúar 1983, eru af hálfu ríkisskattstjóra gerðar svofelldar kröfur í málinu:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Á árinu 1981 móttóku kærendur greiðslu úr ríkissjóði á grundvelli 15. gr. laga nr. 47/ 1979 um aðstoð við þroskahefta að fjárhæð 54.342 kr.
Framangreinda greiðslu þykir bera að telja skattskylda skv. 2. tl. 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt en í þeim lögum er ekki að finna lagaákvæði er undanþiggur téðar greiðslur skattskyldu. Þá verður eigi séð að önnur lög mæli fyrir um skattfrelsi umgetinnar fjárhæðar.
í 2. mgr. 15. gr. áðurnefndra laga nr. 47/1979 eru fyrirmæli um að kjósi framfærendur að annast umönnun þroskahefts einstaklings sjálfir skuli aðstoð veitt með peningagreiðslum.
Ríkisskattstjóri álítur að hefði löggjafinn ætlað að undanþiggja téðar greiðslur skattskyldu hefði verið nauðsynlegt að setja sérstakt ákvæði varðandi það enda verður téð lagaákvæði ekki skýrt þannig að það undanþiggi greiðslur skattskyldu.“
Skattstjóri færði kærendum hina umdeildu fjárhæð til tekna og fór með þá breytingu á skattframtalinu eftir ákvæðum 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Bar skattstjóra að fara með breytinguna eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga. Svo sem fram kemur í málinu fengu kærendur á árinu 1981 greiðslur samkvæmt 15. gr. laga nr. 47/1979, um aðstoð við þroskahefta, vegna vistunar barns í heimahúsum. Samkvæmt lögum þessum er gert ráð fyrir vistun á almennum stofnunum, sbr. 11. gr. laganna, og eru þær stofnanir taldar upp í 12. gr. þeirra. Samkvæmt 17. gr. laganna er tryggð ókeypis vist á stofnunum þessum. Samkvæmt nefndri 15. gr. laganna er þeim framfærendum, sem kjósa að sjá um umönnun og gæslu sjálfir, tryggður réttur til aðstoðar í formi peningagreiðslna og skulu greiðslur miðaðar við hálft daggjald á meðalstofnun samkvæmt 10. tl. 12. gr. laganna, þ.e. heimilum sjálfseignarstofnana og annarra aðila. Ákvæði nefndra laga þykja bera það með sér, að greiðslur vegna vistunar í heimahúsum séu á því byggðar, að þeim framfærendum, sem slíka vistun taka að sér, beri réttur til þess, að aukakostnaður sá, sem þeir hafa af vistuninni, sé greiddur af almannafé, a.m.k. að einhverju leyti. Af hálfu skattstjóra og ríkisskattstjóra er talið, að umræddar greiðslur séu skattskyldar tekjur og að ekki komi til álita frádráttur á móti þessum tekjum vegna þess sérstaka kostnaðar, sem umsjá framfærenda í heimahúsum hefur í för með sér fyrir þá og að framan er getið. Í því efni þykir bera að hafa í huga þau sjónarmið, sem fram koma í 3. mgr. 30. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en greiðslunum, ef skattskyldar teldust, yrði frekast að skipa til þeirra tekna, sem greinir í 2. tl. A-liðs 7. gr. laganna. Í þessu sambandi þykir ennfremur ástæða til þess að benda á þau sjónarmið, sem fram koma í 2. tl. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981. Sú afstaða skattyfirvalda, sem fram kemur í málinu, um skattlagningu greiðslna þeirra, sem í því greinir, þykir eigi vera í samræmi við skattalega meðferð í þeim tilfellum, sem einna helst svipar til atvika í þessu máli. Er þar um að ræða skattalega meðferð greiðslna með börnum, sem sett eru í fóstur af opinberum aðilum, sbr. t.d. bréf ríkisskattstjóra, dags. 20. júní 1980, til allra skattstjóra svo og skattlagningu styrkja (niðurgreiðslna) til greiðslu dagvistargjalda hjá dagmæðrum, sbr. t.d. bréf ríkisskattstjóra, dags. 15. desember 1981, til allra skattstjóra. Út af síðastnefnda tilvikinu og þegar litið er til laga nr. 47/1979 þykir rétt, að fram komi, að greiðslur, slíkar sem um ræðir í máli þessu, virðist vera inntar af hendi í því skyni að rétta ætlað fjárhagslegt ójafnræði, sem mismunandi vistunarskipan hefði ella í för með sér fyrir þá framfærendur, sem annast vistun sjálfir í heimahúsum í stað stofnanavistunar. Þegar það er virt, sem að framan segir og litið er til allra atvika málsins, verður eigi talið, að kærendum beri að gera að greiða opinber gjöld vegna hinna umdeildu greiðslna.