Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 180/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 61. gr.  

Tekjuuppgjörsaðferð — Tekjuuppgjör — Tekjutímabil — Tekjufærsla, tímaviðmiðun — Vélsmiðja — Þjónusta — Hagstofa Íslands, atvinnuvegaflokkun — Iðnaður

Í skattskilum sínum árið 1982 miðaði kærandi tekjufærslu sína við innborganir með vísan til ákvæða 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi er vélsmiðja og samkvæmt félagssamningi, sem fyrir liggur í málinu, er tilgangur sameignarfélagsins vélsmíði, vélaviðgerðir ásamt tilheyrandi lánastarfsemi. Með bréfi, dags. 26. júlí 1982, tilkynnti skattstjóri kæranda, að ekki væri á það fallist, að ákvæði 61. gr. laga nr. 75/1981 um þá tilhögun tekjufærslu, sem fyrr greinir, tækju til iðnfyrirtækja, slíkra sem kærandi væri. Þessi ákvæði tækju aðeins til þeirra, sem seldu þá þjónustu, sem tilgreind væri í 8. flk. í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands. Var skattframtalinu breytt til samræmis við þessa niðurstöðu.

Þessi ákvörðun var kærð af hálfu kæranda með bréfi, dags. 26. ágúst 1982, og túlkun skattstjóra mótmælt. Á það var bent, að téð 61. gr. laga nr. 75/1981 tæki aðeins fram um sölu á þjónustu, þar sem vinnuþáttur væri almennt yfir 70%, en ekkert væri minnst á atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands.

Með úrskurði, dags. 23. nóvember 1982, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Vísaði skattstjóri til þess, að um heimildarákvæði væri að ræða. Ekki væri unnt að fallast á það, að starfsemi kæranda væri þess eðlis, að skattstjóri gæti á grundvelli 61. gr. laga nr. 75/1981 heimilað honum að miða heildaruppgjör við innborganir í stað unninnar og bókfærðrar þjónustu. Þá áréttaði skattstjóri skilning sinn á því, að greint lagaákvæði tæki aðeins til aðila, sem seldu þjónustu og flokkast undir þá atvinnustarfsemi, sem tilgreind væri í 8. flk. í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. desember 1982. Er þess krafist, að heimiluð verði sú aðferð við tekjufærslu, sem viðhöfð var í skattskilum, enda hafi launaþáttur verið yfir 70% af heildartekjum. Verði því leyft að fresta tekjufærslu á þeim hluta teknanna, sem ekki hafi verið greiddur, fyrr en eftir að tekjuári lauk.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 14. febrúar 1983:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

í 61. gr. laga nr. 75/1981 er mælt fyrir um að skattstjóri geti veitt aðilum er selja þjónustu tiltekna heimild.

Ákvæðið verður því ekki talið ná til þeirrar starfsemi er kærandi rekur og ber því að synja kröfu hans.“

Eigi er fallist á að starfsemi kæranda sé þess eðlis að honum sé heimilt að nota 61. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt við tekjuframtal sitt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja