Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 240/1983
Gjaldár 1982
Lög nr. 75/1981, 95. gr., 99. gr., 100. gr.
Áætlun — Framtalsskylda — Óframtalið til skatts — Frávísun — Rökstuðningur — Vanreifun — Skattframtal, vöntun
Af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts árið 1982 og sætti kærandi því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum. Var sú álagning kærð af hálfu umboðsmanns kæranda með bréfi, dags. 26. ágúst 1982, og boðað, að rökstuðningur og greinargerð yrði send innan fárra daga. Með því að boðuð gögn bárust ekki vísaði skattstjóri kærunni frá með úrskurði, dags. 14. október 1982, með skírskotun til ákvæða 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 8. nóvember 1982, og boðaði framlagningu gagna og rökstuðnings síðar, væntanlega fyrir lok nóvembermánaðar 1982 að því er segir í kærunni.
Með bréfi, dags. 2. maí 1983, er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd, þar sem ekki verði séð, að boðaður rökstuðningur hafi verið lagður fram.
Þar sem boðaður rökstuðningur og gögn hafa enn eigi borist er málið vanreifað af hendi kæranda. Ber því að vísa kærunni frá að svo stöddu.