Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 246/1983

Gjaldár 1982

Reglugerð nr. 245/1963, 14. gr. A-liður 2. tl. 1. mgr.   Lög nr. 75/1981, 7. gr. C-liður 2. tl., 31. gr. 1. tl., 92. gr., 116. gr.  

Launamiði — Ólögmætt þvingunarúrræði — Upplýsingarskylda gagnvart skattyfirvöldum — Eigin notkun — Reiknaðar húsaleigutekjur — Sifjalið — íbúðarhúsnæði — Lögskýring — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat — Arfur — Bifreiðakostnaður — Verðbreytingarfærsla — Tekjufærsla vegna verðbreytingar — Afnot, endurgjaldslaus

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts á tilskildum tíma árið 1982. Skattstjóri áætlaði þeim því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Skattstjóri móttók skattframtal kærenda þann 29. júlí 1982 og með úrskurði, dags. þann 26. janúar 1983, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu í stað áætlunar með nokkrum breytingum. Skattstjóri felldi niður eftirtalda gjaldaliði á rekstrarreikningi verkfræðistofu eiginmanns: Aðkeyptan akstur 3.474 kr. og greidda aðstoð 5.000 kr. hvorutveggja á þeim forsendum, að launauppgjöf um kostnaðarliði þessa væri ekki fyrir hendi. Bifreiðakostnað 23.517 kr. sökum þess að rekstraryfirlit fólksbifreiðar (R-4) hefði ekki fylgt. Þá reiknaði skattstjóri eiginmanni tekjufærslu vegna verðbreytinga 1.729 kr., sem var 53,4% af áætluðum opinberum gjöldum árið 1981. Þá færði skattstjóri til tekna í skattframtali reiknaðar húsaleigutekjur að fjárhæð 9.774 kr., sem var 2,7% af fasteignamati eignarhluta í X-götu, Reykjavík, sbr. 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en engar húsaleigutekjur voru tilfærðar af eign þessari.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. þann 23. febrúar 1983. Fylgdi kæru rekstraryfirlit fólksbifreiðar. Þá er af hálfu eiginkonu gerð grein fyrir nýtingu á eignarhluta hennar í X-götu, Reykjavík. Er hún eigandi að 1/3 hluta eignarinnar, er hún hefur fengið fyrir erfð eftir föður sinn. Engar húsaleigutekjur hafi verið af eignarhlutanum, en móðurbróðir eiganda hafi haft afnot hans án nokkurs endurgjalds svo sem nánar er lýst. Er farið fram á, að hinar reiknuðu húsaleigutekjur verði felldar niður.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. þann 15. apríl 1983, fallist á kröfu kærenda.

Með vísan til framlagðrar greinargerðar um rekstur bifreiðar er fallist á kröfu kærenda varðandi gjaldfærðan bifreiðakostnað. Þá sýnast eigi efni til þess að vefengja sérstaklega aðra þá gjaldaliði á rekstrarreikningi sem skattstjóri felldi brott, enda eru lögfest sérstök úrræði til þess að knýja fram þær upplýsingar, sem skattstjóri víkur að í forsendum sínum fyrir niðurfellingu gjaldaliða þessara. Tekjufærsla skattstjóra vegna verðbreytinga standi óhögguð, enda byggist hún á tilfærðum skuldum vegna rekstrar kærenda samkvæmt framtalsgögnum árið 1981. Í 1. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, segir að til skattskyldra tekna skuli m.a. teljast leigutekjur eftir hvers konar fasteignir. Í 2. mgr. sama töluliðs er það ákvæði, að reikna skuli leigu til tekna með hlunnindamati húsnæðis, sbr. 116. gr. nefndra laga, þegar heildartekjur af einstökum íbúðum ná ekki því mati. Sú undantekning er þar gerð frá þessu, að af íbúðarhúsnæði sem skattaðili á og notar til eigin þarfa skuli hvorki reikna tekjur né gjöld. Þá er í 1. mgr. 2. tl. A-liðs 14. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, fjallað um skilgreiningu á einkahúsnæði. Íbúð sú, sem í málinu greinir, var ekki í útleigu árið 1981 heldur hafði ættingi kæranda endurgjaldslaus afnot af íbúðinni samkvæmt upplýsingum kæranda. Að því virtu og með skírskotun til þeirra ákvæða, sem hér hafa verið rakin, verður eigi talið, að reikna beri kæranda húsaleigutekjur svo sem skattstjóri hefur gert. Eru hinar reiknuðu leigutekjur því felldar niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja