Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 191/1992
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 4. tl. — 30. gr. 2. mgr.
Skattskyldar tekjur — Verðlaun — Beinn kostnaður — Sönnun — Vanreifun — Frávísun — Frávísun vegna vanreifunar — Tölvukostnaður
Málavextir eru þeir, að skattstjóri gerði m.a. þá breytingu á skattframtali kæranda 1990, að hann færði til tekna fengin verðlaun í rithöfundasamkeppni 200.000 kr. Var breytingin tilkynnt í bréfi skattstjóra, dags. 26. júlí 1990. Í kæru til skattstjóra var farið fram á, að felldur yrði niður skattur af verðlaunafé, þar eð hér væri aðeins um eina greiðslu að ræða. Skattstjóri hafnaði kröfu kæranda með úrskurði, uppkveðnum 10. desember 1990, á þeim forsendum, að verðlaunafé það, sem kærandi hefði fengið, teldist til skattskyldra tekna skv. 4. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og væri það hvorki undanþegið skattskyldu skv. lögum nr. 75/1981 né öðrum lögum.
Umboðsmaður kæranda skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. desember 1990, og segir þar m.a.:
„Um það er að ræða að talsverður útlagður kostnaður varð til hjá eiginkonu framteljanda þegar hún ákvað að reyna til umdeildra verðlauna t.d. keypti hún tölvu svo og ýmislegt annað og nemur sá kostnaður u.þ.b. kr. 147.000,00. Fer ég því fram á að umdeilt verðlaunafé verði fellt niður eða lækkað að miklum mun sem stofn til útreiknings á tekjuskatti og tekjuútsvari vegna gjaldársins 1990.“
Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 7. maí 1991, lögð fram svohljóðandi kröfugerð í málinu:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans enda hefur kærandi ekki sýnt fram á með neinum gögnum að hann hafi haft beinan kostnað við öflun umræddra tekna.“
Kærandi krefst frádráttar vegna kostnaðar á móti nefndum tekjulið. Kærandi þykir ekki hafa gert neina viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði. Að svo vöxnu er kærunni vísað frá vegna vanreifunar.