Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 247/1983
Gjaldár 1982
Lög nr. 75/1981, 3. gr. 5. tl. og 9. tl., 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 30. gr. 3. mgr., 71. gr., 76. gr. 3. mgr.
Takmörkuð skattskylda — Ákvörðun eignarskattsstofns — Ákvörðun tekjuskattsstofns — Arðberandi eignir — Fasteignaútleiga — Húsaleigutekjur — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Vaxtagjöld — Frádráttarbær vaxtagjöld — Lífeyrisiðgjald — íbúðarlán — Arfur — Sönnun — Fasteignamat ríkisins — Vaxtatekjur — Skuldir, frádráttarbærni — Læknir — Námslán
Málavextir eru þeir, að kærandi er búsettur erlendis, og bar takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal barst ekki frá kæranda á tilskildum tíma og áætlaði skattstjóri honum því gjaldstofna við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982. Skattstjóri móttók skattframtal kæranda þann 19. júlí 1982. Með bréfi, dags. 17. nóvember 1982, krafði skattstjóri kæranda um ýmsar upplýsingar varðandi skattframtalið, áður en það yrði tekið til meðferðar. Var þess krafist, að upplýst yrði, hvenær og með hvaða hætti kærandi hefði eignast hlut í íbúð að D-götu, Reykjavík, og þess óskað, að kaupsamningur eða þess háttar gögn yrðu send skattstjóra. Samkvæmt skattframtalinu kom fram, að kærandi hefði selt hlut sinn 1/7 í nefndri eign að D-götu, R., á árinu 1980. Þá óskaði skattstjóri eftir afriti af sölusamningi vegna nefndrar sölu. Í bréfinu vísar skattstjóri til þess, að samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins sé kærandi skráður eigandi að X og H, Austur-Skaftafellssýslu. Þessara eigna sé ekki getið í skattframtali árið 1982. Var óskað upplýsinga um það með hvaða hætti kærandi hefði eignast þessar eignir svo og hvernig þær hefðu verið nýttar á árinu 1981. Þá var óskað upplýsinga um það með hvaða hætti hefði verið stofnað til skuldar við A-H á árinu 1981. Gefinn var 10 daga svarfrestur frá dagsetningu bréfsins. Með því að svar barst ekki vísaði skattstjóri kærunni frá með úrskurði, dags. 13. janúar 1983.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. janúar 1983. Er þess krafist, að innsent skattframtal árið 1982 verði tekið til greina og byggt á því við álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar skattstjóra. Getur umboðsmaðurinn þess, að erfitt hafi verið um gagnaöflun vegna búsetu kæranda erlendis. Umboðsmaðurinn upplýsir, að hlut í D-götu, R., hafi kærandi eignast fyrir arftöku, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. þann 28. nóvember 1979 og skiptayfirlýsingu, dags. þann 30. nóvember 1979. Fylgdu ljósrit þessara gagna kærunni. Þá fylgdi ljósrit afsals, dags. 30. apríl 1981, þar sem kærandi afsalar ásamt sameigendum sínum eignarhlutanum í D-götu, R., sem þeir höfðu tekið í arf, til D-B. Umboðsmaður kæranda getur þess, að ekki hafi tekist að útvega kaupsamning, en vísar á lögmann þann, sem annaðist samningsgerðina. Þá tekur umboðsmaðurinn fram, að kærandi hafi aldrei átt þær eignir, sem um geti í bréfi skattstjóra, þ.e.a.s. í Austur-Skaftafellssýslu. Samkvæmt upplýsingum Fasteignamatsins þá sé eigandi þessara eigna db. S-K, nr. 0000-0000. Skuldastofnun við A-H kveður umboðsmaðurinn vera vegna fyrirframgreiðslu upp í húsaleigu vegna A-götu, Garðabæ.
Af hálfu ríkisskattstjóra er á það fallist með bréfi, dags. 23. mars 1983, að skattframtalið verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 í stað áætlunar skattstjóra með vísan til framkominna upplýsinga í kæru.
Fallist er á þá kröfu kæranda, að innsent skattframtal verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 í stað áætlunar skattstjóra þó að gerðum eftirgreindum breytingum: Með vísan til 9. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er bifreiðar — og skuldabréfaeign felld niður úr eignarhlið skattframtals, þar sem eignir þessar gefa eigi skattskyldar tekjur samkvæmt þessu ákvæði. Til frádráttar frá eignum leyfist eigi skuld við Lánasjóð íslenskra námsmanna, sbr. 3. mgr. 76. gr. laga nr. 75/ 1981, þar sem skuld þessi getur eigi talist vera vegna öflunar á fasteign kæranda. Þá falla vaxtatekjur af skuldabréfi niður til tekna í tekjuhlið skattframtalsins, enda eru slíkar tekjur eigi skattskyldar hér á landi, þegar um takmarkaða skattskyldu er að ræða, sbr. 3. gr. laga nr. 75/1981. Vaxtagjöld af fasteignalánum falla niður til frádráttar. Kæranda, er ber takmarkaða skattskyldu hér á landi, verður eigi talið heimilt að færa nefnd vaxtagjöld til frádráttar leigutekjum með vísan til ótvíræðs ákvæðis 3. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 og eigi verða talin uppfyllt ákvæði 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. sömu laga. Þá skortir og heimild til þess að draga greiðslur í Lífeyrissjóð lækna frá nefndum húsaleigutekjum.