Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 253/1983
Gjaldár 1982
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. mgr. 1. tl., 44. gr. Lög nr. 73/1980, 37. gr. Lög nr. 48/1975, 1. gr. Lög nr. 68/1967, 5. gr.
Rekstrarkostnaður — Fyrning — Sérstök fyrning — Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn — Iðnlánasjóðsgjald — Iðnaðarmálagjald — Kröfugerð — Vanreifun — Frávísun — Rökstuðningur kæru
Kært er álagt aðstöðu-, iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjald gjaldárið 1982. Er skattkæru til skattstjóra „haldið áfram til ríkisskattanefndar“ og boðað að síðar verði nánari grein gerð fyrir kærunni til ríkisskattanefndar. Sú greinargerð hefur enn eigi borist.
Með bréfi, dags. 15. apríl 1983, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfugerð fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Í kærunni boðar umboðsmaður kæranda að frekari rökstuðningur verði sendur innan skamms.
Eigi verður séð að sá rökstuðningur hafi borist og er því krafist frávísunar kærunnar frá ríkisskattanefnd sökum vanreifunar.“
Af kæru kæranda til skattstjóra og kæruúrskurði hans þykir augljóst hvert kæruefnið er fyrir ríkisskattanefnd. Er engin ástæða til frávísunar málsins sökum vanreifunar þess og er því kröfum ríkisskattstjóra hrundið. Af hálfu kæranda er þess krafist að felld verði úr gildi sú ákvörðun skattstjóra að telja með við útreikning á stofni til hinna kærðu gjalda 2.266.470 kr., sem sé sú „fjárhæð er nemur skattalegum ráðstöfunum er varða fyrningar sem notaðar eru á móti skattskyldum hluta söluhagnaðar af fyrnanlegum eignum á sama rekstrarári og söluhagnaður færist til tekna.“
Skattstjóri hafði hafnað þessari kröfu á þeirri forsendu að fyrningar skv. 44. gr. nefndra laga teldust falla undir fyrningar í skilningi 1. tl. 1. mgr. 31. gr. sömu laga og mynduðu því stofn til hinna kærðu gjalda skv. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er hann staðfestur.